Ræða má einkunnir en ekki sýna á blaði. !!
 
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.isFá ekki afrit af gögnum án samþykks forsjárforeldris
Borgarlögmaður vann í ársbyrjun 2005 álit sem skólastjórum í Reykjavík var sent þar sem fjallað er um rétt forsjárlausra foreldra. Vísað er í barnalög, en tekið fram að samkvæmt greinargerð eigi upplýsingarnar sem veittar eru að vera munnlegar, ekki skriflegar. Forsjárlausa foreldrið eigi þannig ekki rétt á að fá afrit af gögnum varðandi barnið nema forsjárforeldri hafi veitt heimild.
Það er réttur allra foreldra að fá upplýsingar um börn sín, t.d. heilsufar, þroska og skólagöngu, jafnvel þeirra foreldra sem ekki fara með forsjá barna sinna. Þó lögum samkvæmt eigi að veita slíkar upplýsingar ber þó einungis að gera það munnlega, og skólastjórar eru sumir hverjir hikandi þegar þá grunar að verið sé að leita eftir upplýsingum sem nota megi sem vopn í forsjárdeilum.
Garðar Baldvinsson, formaður Félags ábyrgra feðra, segist þekkja til dæma um það að skólayfirvöld hafi neitað forsjárlausum feðrum um upplýsingar um börn sín. Hann er þeirrar skoðunar að upplýsingar um námsárangur, heimanám, mætingu, félagslífið o.fl. eigi alltaf að veita, og réttast væri að þær fengjust skriflega.

“Það sem við viljum er að bæði forsjárforeldrar og forsjárlausir eigi skilyrðislausan rétt til upplýsinga nema sýnt hafi verið fram á einhvers konar misnotkun,” segir Garðar. “Það eru eðlilegir hagsmunir foreldra að vita sem best um stöðu barna sinna.”

Þetta á einnig við um upplýsingar um heilsu barna, sem læknar eiga að veita, en um slíkar upplýsingar gilda sömu reglur. Garðar nefnir dæmi um forsjárlaust foreldri sem á barn sem á við heilsufarsvanda að stríða sem ekki sé neitt gert í, og sýni afturför í námi. Slíkar upplýsingar um hag barnsins þurfi forsjárlausa foreldrið að fá til þess að geta gætt hagsmuna barnsins.

Yfirleitt sátt um málið
Reglulega berast fyrirspurnir til Heimila og skóla, landssamtaka foreldra, frá forsjárlausum foreldrum sem fá ekki upplýsingar um börn sín. Elín Thorarensen, formaður samtakana, segir að samtökin hafi rætt þessi mál við umboðsmann barna, reglurnar séu skýrar, en á þeim séu undantekningar. Það sem skólastjórnendur og aðrir verði að hafa í huga sé að veita upplýsingar um barnið, ekki forsjárforeldrana.
Þeir skólastjórar í grunnskólum sem rætt var við sögðu að reglulega kæmu upp tilvik þar sem forsjárlausum foreldrum séu veittar upplýsingar, en yfirleitt sé það gert í sátt og samlyndi við það foreldri sem hefur forsjána. Þau tilvik komi þó af og til upp þegar forsjárlaust foreldri óski eftir upplýsingum en það foreldri sem hefur forsjána vilji það ekki.

Í barnalögum frá árinu 2003 kemur fram að forsjárlausir foreldrar eigi rétt á að fá upplýsingar um barn sitt, t.d. um heilsufar, þroska, dvöl á leikskóla, skólagöngu, áhugamál og félagsleg tengsl.

Í 2. málsgrein segir: “Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá upplýsingar um barnið frá leikskólum, skólum, sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Réttur samkvæmt þessari málsgrein felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris.”

Þó kemur fram að heimilt sé að synja um veitingu upplýsinga ef “hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn”. Ef undantekningunni er beitt og t.d. skólayfirvöld ákveða að veita forsjárlausu foreldri ekki upplýsingar um barn sitt getur foreldrið skotið málinu til sýslumanns, sem úrskurðar um réttmæti ákvörðunar skólayfirvalda, og er úrskurður sýslumanns endanlegur.

Þorsteinn Sæberg, skólastjóri í Árbæjarskóla, segir að þegar erindi berist frá forsjárlausum foreldrum sé reynt að vinna í sátt við bæði foreldra sem eru með forsjá og þá forsjárlausu. Skólinn hafi samband við það forsjárforeldri áður en upplýsingar séu veittar.

Forsjárforeldri má rýmka heimildir
“Við ræðum um hvaða upplýsingar megi veita forsjárlausum foreldrum lögum samkvæmt og gerum grein fyrir því að slíkar upplýsingar munum við veita. Svo spyrjum við alltaf hvort það sé eitthvað fleira sem foreldrið vilji að veittar séu upplýsingar um, því forsjárforeldrið hefur heimild til þess að veita aðeins rýmkaða heimild,” segir Þorsteinn.
Fyrir kemur að reynt er að nota upplýsingar frá skólum sem vopn í deilu milli foreldra, og segja þeir skólastjórar sem rætt var við að mikilvægt sé að þær upplýsingar sem veittar eru sé ekki hægt að skilja sem svo að skólinn sé að taka afstöðu með öðru hvoru foreldrinu. “Ef mínar upplýsingar gætu á einhvern hátt verið túlkaðar inn í slíka deilu öðrum aðilanum til hagsbóta myndi ég hinkra við, og velta fyrir mér hverra hagsmuna ég er að gæta. Það ber mér að gera sem skólastjóra, að gæta hagsmuna barnsins fyrst og fremst,” segir Þorsteinn.

Mbl.is Föstudaginn 14. október, 2005 – Innlendar fréttir

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0