Frá Tuma Kolbeinssyni: “KRAKKAFRELSI heitir nýtt tilboð símafyrirtækisins Vodafone og gengur út á að fólk sem er í svokallaðri Gull þjónustu Vodafone getur fengið kr. 1500 inneign mánaðarlega fyrir GSM síma barna í fjölskyldunni.”

KRAKKAFRELSI heitir nýtt tilboð símafyrirtækisins Vodafone og gengur út á að fólk sem er í svokallaðri Gull þjónustu Vodafone getur fengið kr. 1500 inneign mánaðarlega fyrir GSM síma barna í fjölskyldunni. Mér leist vel á tilboðið og hringdi með það sama í þjónustusíma Vodafone til að þiggja þetta kostaboð fyrir stjúpson minn og dóttur en bæði eru þau með gsm-síma hjá Vodafone. Greiðlega gekk að skrá strákinn en ekki stelpuna og skýringin reyndist sú að hún á ekki lögheimili hjá mér. Engu skipti þótt símanúmer hennar væri á mínu nafni og greitt af mér. Taldi ég að þetta hlyti að vera einhver misgáningur og bað um að þetta yrði kannað. Í framhaldinu var mér sent sms með því svari að því miður væri þetta ekki hægt. Engin frekari skýring fylgdi. Mér fannst þetta verulega kúnstugt og hringdi því aftur og talaði við annan þjónustufulltrúa sem var hinn ljúfmannlegasti. Sá skoðaði málið og skildist mér á þeim svörum sem hann fékk að þetta væri of flókið í framkvæmd. Ekki var hægt að fá tala við yfirmann þar sem þeir hefðu ekki viðtalstíma en hann skyldi koma skilaboðum áleiðis og yrði þá allramildilegast haft samband ef fyrirspurnin yrði metin þess verð að ansa henni. Þetta kann að virðast fremur léttvægt mál en þó býr meira undir. Mér finnst ekki léttvægt að mér séu send þau skilaboð að barnið mitt sé annars flokks eins og Vodafone gerir með þessu.
Mál af þessu tagi er því miður ekkert einsdæmi hjá fyrirtækjum eða opinberum stofnunum. Stundum stafar þetta einfaldlega af hugsunarleysi en stundum af forpokun og vanvirðingu gagnvart fjölskyldum þar sem foreldrar búa ekki saman.
TUMI KOLBEINSSON
kennari.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0