Haustið 2005 voru skráðir nemendur á framhalds- og háskólastigi á Íslandi fleiri en nokkru sinni fyrr, eða 42.200 talsins. Hlutfall kvenna þar af var 57,2%, sem vekur spurningar um orsakir misvægis skólasóknar á milli kynjanna. Fjöldi skráðra nemenda í námi á háskólastigi hefur tæplega tvöfaldast frá hausti 1998 en nemendum á framhaldsskólastigi fjölgað um 24,6% á sama tímabili.

Í framhaldsskóla voru samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands haustið 2005 skráðir 25.093 nemendur og 17.107 nemendur í háskóla. Konur voru umtalsvert fjölmennari en karlar, eða 24.158 (57,2%), en karlar 18.042 (42,8%). Haustið 2005 stunduðu tæplega 82% nemenda nám í dagskóla, rúmlega 12% nemenda fjarnám og 6% nemenda voru í kvöldskólum.

“Hér er um að ræða áframhald þróunar sem staðið hefur í nokkurn tíma og er raunar svipuð í Evrópu almennt, þ.e. stelpur mennta sig í ríkari mæli en strákar,” segir Ingólfur V. Gíslason, sviðsstjóri rannsóknasviðs Jafnréttisstofu. “Ég hef haft tilhneigingu til að túlka þetta þannig að stelpurnar séu nú að uppskera í samræmi við getu, þ.e. að þeim sé ekki lengur haldið niðri í sama mæli og áður var. Síðan er margt sem bendir til að skólinn eins og hann er í dag henti drengjum ekki vel. Tölur um sérkennslu, börn hjá skólasálfræðingum, brottfall, óánægju með skólann og átök við kennara eru alltaf hærri fyrir drengi.”

Jón Torfi Jónasson, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands, segir mun á skólasókn kvenna og karla á framhaldsskólastigi sáralítinn. “Um háskólastigið gegnir öðru máli. Þar er munurinn stöðugur og talsverður, aðeins rétt rúmur þriðjungur nemenda í grunnnámi í háskóla eru piltar. Munurinn á sér nokkrar skýringar. Ég tel að veigamesta skýringin sé sú að mörg störf krefjast einhverrar menntunar en það er meira áberandi í sterkum kvennagreinum sem gera kröfu um háskólamenntun, einkum í heilbrigðis- og menntageirunum.

Það er því meiri þrýstingur á konur sem vilja tryggja stöðu sína eða opna sér leið á atvinnumarkaði að afla sér prófgráðu. En það er líka athyglisvert að það er nú nánast jafnræði með kynjunum í námi erlendis, en mesti munurinn er í framhaldsnámi hér á landi; þar eru yfir tveir þriðju nemenda konur,” segir Jón Torfi.

Vinnutilboð og barneignir
“Einhvern veginn virðist bóknám og kannski ekkert nám aðlaðandi fyrir marga pilta, en ef við einblínum á það gleymum við að það á líka við um margar stúlkur,” segir Ingólfur Á. Jóhannesson, prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hann bendir á að í PISA (alþjóðlega staðlað próf lagt fyrir 15 ára unglinga í 32 löndum, þar af 28 aðildarríkjum OECD, innsk.blm.) séu fleiri drengir en stúlkur sem standa lakast, en jafnmargir drengir og stúlkur sem standa sig best. Ingólfur vísar og til misjafns aðgengis að iðnnámi eftir landshlutum og telur hið mikla framboð bóknáms umfram iðnnám skipta verulegu máli.

Í skýrslu Kristjönu S. Blöndal, aðstoðarforstöðumanns Félagsvísindastofnunar HÍ og Jóns Torfa Jónssonar prófessors, “Brottfall úr námi” frá 2002, kemur m.a. fram að mikilvægasta ástæða þess að karlar hætta námi á framhaldsskólastigi er boð um gott starf, en hvað konur varðar eru það barneignir sem nefndar eru til sögunnar.

Helgi Ómar Bragason, rektor Menntaskólans á Egilsstöðum, segir hlutfall kynjanna í lok síðustu haustannar hafa verið 47,3% stráka og 52,7% stúlkur.

“Í hagstofutölunum eru líklega einnig nemendur í utanskóla- og kvöldskólanámi. Þar eru konur í miklum meirihluta enda er í kvöldskóla boðið upp á nám sem beinlínis höfðar til kvenna, svo sem félagsliðanám og skrifstofunám.

Undanfarin tvö ár hefur ME tekið um 100 nemendur inn á fyrsta ár en því miður höfum við ekki safnað upplýsingum um það hvað um þessa nemendur verður. ME hefur útskrifað 55-60 stúdenta árlega sem bendir til mikils brottfalls, en hafa ber í huga að flestir þeirra nemenda sem hætta námi við ME fara í aðra skóla sem bjóða upp á annars konar nám, svo sem iðnnám. Við erum beinlínis að hjálpa nemendum á fyrsta ári að finna út hvaða nám hentar þeim best.”

ME er með svokallaða almenna braut fyrir nemendur sem koma úr grunnskóla með slakan undirbúning fyrir framhaldsskólanám. Á almennri braut eru um 40% þeirra sem koma inn á 1. árið og segir Helgi Ómar að helmingur þeirra sé með það lélegan grunn að ólíklegt er að þeir útskrifist nokkru sinni með stúdentspróf né ljúki neinu námi á framhaldsskólastigi. Hann segir að þessum hópi þurfi að sinna betur og finna þeim nám við hæfi. “Þetta er hinn raunverulegi brottfallshópur og því miður er meirihlutinn strákar. Ég tel að sinna þurfi strákunum betur í grunnskólunum.”

Í verkmenntaskólum á landsbyggðinni eru stúlkur ívið fleiri en piltar þó munurinn sé lítill, en því er þveröfugt farið á höfuðborgarsvæðinu, þar eru piltar mun fleiri.

mbl.is Sunnudaginn 16. apríl, 2006 – Innlendar fréttir

Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0