Karlmaður sem getur sýnt tilfinningar sínar og jafnvel grátið yfir væminni bíómynd eða snökt yfir góðri bók. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvenær hinn mjúki maður hættir að vera bara mjúkur og breytist í rolu í huga kvenna.

Hvað gerir það eiginlega að verkum að konur vilja hafa allt lítið? spurði samstarfsmaður minn mig um daginn. Umræðuefnið var mótorhjól og mögulegur áhugi minn á því að taka mótorhjólapróf. Ég læddi því út úr mér við hann að ég gæti alveg hugsað mér að fá mér eitthvert passlega lítið hjól og fara að stunda mótorhjólaakstur. Karlmaður þessi er mikill áhugamaður um mótorhjól og á eitt slíkt. Hann hélt áfram og sagði: “Ég hef ekkert meiri möguleika á því en þú að ná tökum á 300 kílóa hjóli sem byrjar að leggjast á hliðina. Þú lærir tæknina sem þarf til að stjórna þessu tæki um leið og þú lærir á hjólið.” Og svo bætti hann því við að hann skildi ekkert í því að konur vildu endilega alltaf hafa allt svona lítið. “Konur sem eru að kaupa sér bíl velja oftar en ekki smábíl,” sagði hann. Svo fórnaði hann bara höndum og sagði: “Af hverju?”
Þessi orð samstarfsmannsins vöktu mig til töluverðrar umhugsunar. Er það virkilega svo að við konur veljum frekar það sem er lítið? Viljum við frekar litla og kraftlitla bíla en stóra og mikla sem hafa mörg hestöfl? Eru konur sem stunda mótorhjólaakstur frekar á litlum hjólum en stórum? Eru konur sem eru í hestamennsku frekar fyrir litla og þæga hesta en stóra og villta?

Ef svarið er jákvætt, sem ég hef sterkan grun um, má velta fyrir sér af hverju það er. Vissulega er mörgum konum það mikil skemmtun að þeysast um á orkumiklum mótorfák eða kitla bensíngjöfina á stórum bíl og finna hestöflin taka við sér undir botninum. Margar konur vilja aldrei vera eftirbátar karlmanna í neinu og gera allt til að svo sé ekki. Hins vegar eru áreiðanlega fleiri konur sem velja það sem er lítið og staðfesta þar með orð hins undrandi samstarfsmanns míns.

Mjúkur maður er eftirsóknarverður í huga flestra kvenna. Karlmaður sem getur sýnt tilfinningar sínar og jafnvel grátið yfir væminni bíómynd eða snökt yfir góðri bók. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvenær hinn mjúki maður hættir að vera bara mjúkur og breytist í rolu í huga kvenna. Vilja konur sterka karlmenn, þöglu týpuna, sem láta ekkert á sig fá og sýna aldrei tilfinningar eða vilja þær þennan mjúka sem horfir með þeim á “konumyndirnar” og dregur á hendur sér bleika uppþvottahanska áður en hann hellir sér út í uppvaskið?

Oft hef ég séð auglýst reiðnámskeið fyrir hræddar konur en ég hef aldrei séð reiðnámskeið auglýst fyrir hrædda karlmenn. Mikil áhugamanneskja um hestamennsku er starfandi hér í húsinu og ég spurði hana út í þessi mál. Hún upplýsti mig um það að námskeið sem auglýst væru almennt fyrir bæði kynin, þ.e. ekki bara fyrir konur eða bara fyrir karla, væru almennt frekar sótt af konum. Einn og einn karl væri inni á milli allra hræddu kvennanna. Svo kom rúsínan í pylsuendanum: “Karlar sem koma á þessi námskeið eru bara miklu hræddari,” upplýsti hestakonan. Hún tók eftir því að ég varð eitt stórt spurningarmerki og bætti því við að ástæðan væri sú að þeir kæmu miklu seinna. Loks þegar þeir horfast í augu við óttann er hann orðinn nánast óyfirstíganlegur. Það er ekki fyrr en í óefni er komið sem þeir viðurkenna að þeir séu í raun hræddir.

Sjálf ek ég um á smábíl. Það er bíllinn minn. Af hverju keypti ég hann en ekki einhvern stærri? Það er góð spurning. Satt að segja velti ég því aldrei fyrir mér áður en ég fór að leita að bíl. Mig vantaði einfaldlega góðan bíl sem væri með miðstöð sem virkaði og kæmi mér á milli staða. Ekki var verra að hann væri sparneytinn og þægilegur í alls kyns útréttingar og að auðvelt væri að leggja honum í þröngt stæði. Þegar sölumaðurinn fullyrti við mig að þessi ákveðni bíll kæmist nálægt því að framleiða hreinlega bensín var hann búinn að selja mér bílinn. Var það þá hagsýn húsmóðir sem var að kaupa bíl? Er það yfir höfuð hagsýni sem ræður gerðum flestra kvenna? Og á sama hátt má spyrja hvort karlmenn séu þá einfaldlega óhagsýnir?

Þegar sonur minn var um sex ára gamall fannst honum bílar flottastir ef þeir höfðu tvö púströr. Hann togaði í mig ef hann sá einn slíkan og sagði sjáðu, mamma, tvö púströr, með miklum ákafa. Hann er löngu hættur þessu en kannski er þetta í kollinum á öllum körlum. Er ekki bíll flottastur ef hann er yfir tvöhundruð hestöfl, með tvö púströr og á álfelgum? Er það kannski bara svo að “strákar verða alltaf strákar” en stelpur verða konur?

Gaman gæti verið að sjá rannsókn um akkúrat þetta. Geta konur sett til hliðar ábyrgðina sem fylgir því að vera húsmóðir og móðir og horft öðrum augum á ja, t.d. bíla og mótorhjól? Ég held nefnilega að konur vilji ekkert endilega alltaf vera hagsýnar og velja frekar það sem er lítið. Ég er viss um að margar konur sem aka um á smábíl væru alveg til í að vera á stórum dreka sem gleypti bensín í stórum, stórum stíl. Kannski ég athugi bara frekar með mótorhjól sem er í kringum 200 kílóin en að einblína á létt hjól sem ég gæti auðveldlega ráðið við af því að eins og samstarfsmaðurinn benti á eiga karlar ekkert betra með að ráða við stórt hjól en konur.

Er það kannski eftir allt saman svo að konur vilja í raun stórt?

Sigrún Ásmundar (sia@mbl.is)
mbl.is, Miðvikudaginn 1. mars, 2006 – Viðhorf

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0