Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að fallast beri á kröfu manns, sem gekkst við faðerni drengs fyrir 29 árum, um að fram fari erfðafræðilegar rannsóknir á því hvort hann sé í raun og veru faðirinn.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að karl og kona voru í sambúð sem slitnaði upp úr árið 1975. Konan ól son, sem í dómnum er nefndur A, árið 1976 og gekkst maðurinn við faðerni barnsins með skriflegri yfirlýsingu.

Í héraðsdómsstefnu var því lýst að karlmaðurinn hefði haft efasemdir um faðerni barnsins og þær grunsemdir hafi farið vaxandi með aldrinum. Þegar DNA rannsóknir urðu almennar hafi hann fengið þau svör hjá Landspítalanum að DNA rannsókn yrði ekki gerð nema með leyfi móður. Þar sem hann hafi vitað að konan myndi ekki fallast á það, hafi hann ekki farið fram á að slík rannsókn yrði gerð en haft í huga að sannreyna málið seinna, þegar A væri orðinn nógu gamall til að taka ákvörðun um það sjálfur með honum.

Sonurinn A lést árið 2002. Eftir andlát lét maðurinn rannsaka barnatönn úr A ásamt lífsýni úr honum sjálfum hjá sænskri rannsóknarstofnun. Niðurstaða þessarar stofnunar var sú að hann gæti ekki verið faðir þess barns sem tönnin væri úr.

Í stefnunni benti maðurinn á, að þrátt fyrir að þessi rannsókn væri ekki tæk sem sönnun þess að hann væri ekki faðir barnsins, gæfi hún hins vegar fullt tilefni til þess að kanna málið frekar. Krafðist hann þess, að fram færi mannerfðafræðileg rannsókn á lífssýnum úr sér, konunni og A.

Konan krafðist þess að kröfu mannsins yrði vísað frá eða hún sýknuð af kröfunni. Héraðsdómari hafnaði frávísun og féllst síðan á kröfu mannsins gegn andmælum konunnar. Hún kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem hefur nú staðfest hann.

Segir Hæstiréttur í dómi sínum, að í málinu neyti maðurinn þeirrar heimildar sem honum sé veitt í barnalögum til að höfða mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Í slíkum tilvikum gildi sú regla, að málinu skuli beint að móður barns. Samkvæmt sömu lögum geti mannerfðafræðileg rannsókn farið fram til að leita sönnunar í dómsmáli, sem rekið sé til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Þar sem fyrrgreind skilyrði séu uppfyllt verði niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

mbl.is 31.08.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0