Þegar skilnað ber að höndum er nauðsynlegt að huga að eigin málum, málum barnsins eða barnanna og loks málum makans. Það þarf að skipta búinu, eignum og skuldum. Það þarf að ganga frá forsjá barnanna og umgengnismálum. Fyrsta skref í skilnaði er að leggja málin niður fyrir sér og leita ráðgjafar.

Alltof margir karlar taka þessi fyrstu skref löngu eftir skilnaðinn, jafnvel nokkrum árum eftir hann. Og á meðan er málum ráðið af konunni eða sýslumanni eða lögfræðingi konunnar og karlinn vaknar upp við vondan draum eftir viku, mánuð, eitt ár eða tvö. En þá er orðið erfitt um vik að breyta og fá sitt fram.

Til að skilnaður að borði og sæng komist á þarf að ganga í gegnum ákveðið ferli: óska sáttaumleitunar hjá presti, semja við maka um skipti eigna og skulda og semja um forsjá barnanna og umgengni við þau. Að lokinni sáttaumleitun gefur prestur út vottorð um að umleitun hafi verið árangurslaus (ef sú er raunin). Þá er að semja um veraldlega hluti: eignir og skuldir, sjá hér á eftir. Loks þarf að liggja fyrir samningur milli aðila um forsjá barna og umgengni við þau. Réttur móður og föður til forsjár eða umgengni er jafn að lögum.

Með samkomulag um þetta tvennt, eignir/skuldir og börnin, er farið til sýslumanns sem þá fyrst getur gefið út vottorð um skilnað að borði og sæng (ári síðar getur hann gefið út vottorð um lögskilnað, nema þegar um hjúskaparbrot eða líkamsárás er að ræða, þá getur hann flýtt hinu síðara). Þótt oft sé samkomulagið mjög losaralegt á þessu stigi er nauðsynlegt að hafa það kirfilega bundið og helst að semja um alla hluti sbr. hér á eftir, ekki síst til að forða verulegum árekstrum síðar meir og jafnvel að einhver venja komist á með börnin sem iðulega er feðrum verulega í óhag og þarmeð börnunum.

Ráðgjöf
Félag ábyrgra feðra mælir með því að karlar í skilnaðarhugleiðingum leiti ráðgjafar – hjá félaginu, hjá lögfræðingi, hjá vinum og vandamönnum, hjá presti eða sálfræðingi. Það er nauðsynlegt að ræða málin, skoða möguleikana, átta sig á því hvað maður vill. Því miður virðast karlar hugsa seinast um það í skilnaði hvað þeir vilja en þess meira um það hvað konan vill. En þeir ræða það jafnvel ekki við hana og ímynda sér þess í stað hvað hún vilji og gefa allt frá sér. Fyrsta spurningin er: hvernig vil ég skipa málum? Hvernig vil ég skipta eignum? Hvernig vil ég skipta skuldum? Hvernig vil ég ráða forsjánni til lykta? Á svarinu við þessari síðustu spurningu veltur síðan hvað er gert varðandi umgengni. Það er ekki hægt að gera það sem er börnunum fyrir bestu nema maður sé í stakk búinn til þess og til að vera það þarf maður að verja eigin hagsmuni.

Eignir og skuldir
Semsé: ræða málin við hinn aðilann, ræða við vini og vandamenn, ræða við utanaðkomandi. Við skilnað eða sambúðarslit er almenna reglan sú að eignum og skuldum er skipt jafnt milli aðila. Þó er rétt að benda á að þarsem óvígð sambúð er ekki jöfn hjónabandi fyrir lögunum, nema í skattalegu tilliti, þá eiga í mörgum tilvikum við þær reglur að hvor aðili um sig er sjálfstæður og eignir og skuldir á ábyrgð hvors um sig, en ekki sameiginlega. Því þarf að fara vandlega í þau mál við sambúðarslit ekki síður en við skilnað. Séreign aðila er það sem hann eða hún færði inn í hjónabandið annaðhvort í upphafi eða meðan á því stóð. Innbú er eign sem ber að skipta; sumt af því er séreign en flest er yfirleitt sameign. Um skuldir í hjónabandi gegnir einnig að hvor aðili um sig ber ábyrgð á eigin skuldum. Sjá t.d. Netlögbókina eftir Björn Þ. Guðmundsson, prófessor, einkum síðuna þar um fjölskyldurétt svo og síðu Lögfræðiþjónustunnar ehf en á báðum síðum er fjallað sérstaklega um þessi atriði og forsjár- og umgengnismál. Lykilatriði er að leggja málin niður fyrir sér, ræða þau við hinn aðilann og leita ráðgjafar.

Forsjá
Móðir og faðir hafa jafnan rétt til forsjár barna sinna að íslenskum lögum. Á Íslandi er almenna reglan sú að annað foreldrið fer með forsjá barns eða barna. Sameiginleg forsjá kemur einnig til greina. Frá 1992 þegar sameiginleg forsjá var fyrst lögleyfð hefur þróunin orðið sú að hún verður fyrir valinu í tæplega helmingi skilnaða, álíka oft og eins-foreldris-forsjá (sjá “Sameiginlega forsjá”). Munurinn á þessum tveimur tegundum forsjár er fyrst og fremst sá að í sameiginlegri forsjá ráða foreldrarnir sameiginlega um stærri ákvarðanir eins og skóla, heilsugæslu og slíkt og jafnframt getur hvorugt flutt með barnið til útlanda nema með skriflegu samþykki hins. Í eins-foreldris-forsjá ræður annað foreldrið öllu en hitt foreldrið getur fengið upplýsingar um heilsufar, skólamál og slíkt.

Forsjáin er samkomulagsatriði en Félag ábyrgra feðra telur sameiginlega forsjá mun ákjósanlegri svo fremi að foreldrarnir geti rætt saman. Komi foreldrarnir því við að búa nálægt hvort öðru, t.d. í sama skólahverfi, er jafnvel hægt að hafa umgengni mjög jafna. Skv. eldri barnalögum, sem gilda til 30. október 2003, geta foreldrar með sameiginlega forsjá ekki fengið nein yfirvöld sér til hjálpar ef ágreiningur kemur upp milli þeirra, en frá og með gildistöku nýrra barnalaga, 1. nóvember 2003, sitja foreldrar með sameiginlega forsjá við sama borð og aðrir fráskildir foreldrar hvað varðar aðstoð ef ágreiningur rís. Með gildistökunni er sýslumönnum skylt að veita foreldrum með sameiginlega forsjá ráðgjöf og geta einnig knúið fram umgengni sé um tálmanir að ræða.

Umgengni
Umgengni er annað en forsjá og ræðst ekki endilega af henni, a.m.k. ekki í sameiginlegri forsjá. Mjög nauðsynlegt er að ganga frá umgengni, hvor forsjáin sem valin er. Umgengni er það kallað að barnið og foreldrið sem það býr ekki hjá hittist og búi saman fáeina daga. Ísland er aðili að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um að börn eigi rétt á að þekkja báða foreldra sína og mynda traust og gott samband við þá báða. Nýju barnalögin taka að sumu leyti mið af þessu og t.d. er fyrsta setning laganna tekin beint upp úr Barnasáttmálanum: “Barn á rétt á að þekkja báða foreldra sína”.

Umgengni er semsé skilgreind út frá barninu og rétti þess til að vaxa úr grasi þannig að það geti þroskað sem best alla hæfileika sína. Félag ábyrgra feðra telur þessa skilgreiningu hina einu sem hægt sé að miða við. Barnið og hagsmunir þess og þarfir eiga alltaf að sitja í fyrirrúmi þegar ákvarðanir um forsjá og umgengni eru teknar. Í lögunum er ekki skilgreindur ákveðinn lágmarksréttur til umgengni en í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum leggur sifjalaganefnd til eins konar viðmið: önnur hver helgi, dagur þess á milli, einhverjir dagar um stórhátíðir og nokkrar vikur í sumarleyfi samfelldar með hinum forsjárlausa eða því foreldri sem barnið býr ekki hjá. Félag ábyrgra feðra lagði til haustið 2002 að í lögum yrði tiltekinn viss lágmarksumgengnisréttur, sem skyldi vera 118 dagar á ári (sjá “Lágmarksumgengni”).

Sálfræðingarnir Gunnar Hrafn Birgisson og Jóhann B. Loftsson hafa lagt til ögn rýmri umgengni sem “grunnviðmiðun um umgengni” í Ársskýrslu ráðgjafaþjónustu í umgengnis- og forsjármálum hjá sýslumannsembættunum á suð-vesturhluta Íslands, árið 2001. Rökin fyrir slíkri lágmarksumgengni er að hagsmunir barna krefjist þess að verja svo miklum tíma með “hinu foreldrinu” til að mynda gott og traust samband við það og að með því sé hægt að draga sem allra mest úr þeim skaða sem það óhjákvæmilega veldur barninu og sjálfsmynd þess að foreldrar þess skilji að skiptum. Félag ábyrgra feðra vill því benda á að í nefndri greinargerð með frumvarpi til nýrra barnalaga sem lagt var fyrir Alþingi haustið 2002 er bent á að forsjárforeldri sem vilji að umgengni sé minni en rætt er um í greinargerðinni þurfi að færa haldbær rök fyrir ósk sinni og fá til þess úrskurð sýslumanns. Þannig viðurkennir sifjalaganefnd og þarmeð bæði dómsmálaráðherra og Alþingi Íslendinga að hin almenna regla eigi að vera sú að börn hafi rúma umgengni við báða foreldra sína.

Við skilnað eða sambúðarslit er nauðsynlegt að ganga frá samningi um umgengni. Það vill stundum brenna við að fólk geri samning um umgengni “eftir nánara samkomulagi”. Slíkur samningur er gagnslaus og Félag ábyrgra feðra varar sterklega við slíku af því að það frestar bara þeim vanda að semja. Þegar frá líður festir þessi frestun gjarnan í sessi þá venju sem forsjárforeldrið vill hafa á hlutunum. Langbest er að festa umgengni sem skýrast niður, hvaða daga og klukkan hvað barnið eða börnin fara til forsjárlausa foreldrisins og hvenær það fer til baka. Hvaða daga það er í umgengni um stórhátíðir og hvernig tilhögunin verður í sumarleyfi. Gott er fyrir börnin að hafa sumarleyfið þannig að þau séu einn mánuð (amk.) samfellt hjá forsjárlausa foreldrinu og einnig heilan samfelldan mánuð hjá forsjárforeldrinu. Hægt er að sjá dæmi um samning varðandi forsjá og umgengni hér.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0