Til dómsmála- og mannréttindaráðherra og viðeigandi starfsmanna í ráðuneytinu.

Ég geri alvarlegar athugasemdir við framgöngu Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings í ræðu og riti undanfarna daga um málefni Félags um foreldrajafnrétti. Í grein sinni í riti Lögfræðingafélagsins er stórum hluta varið í það sem ég myndi kalla árás á félagið og það gagnrýnt langt út fyrir málefnið PAS sem þó er yfirskrift greinar hans. Þannig lætur hann m.a. að því liggja að enginn rökstuðningur sé fyrir þeirri fullyrðingu félagsins að réttarstaða þeirra foreldra sem ekki verða lögheimilisforeldrar að skilnaði loknum, sé slakari hér á landi en annarsstaðar. Ósanngjörn og ómálefnaleg gagnrýni hefur einnig komið fram í viðtölum við hann nú síðustu daga í fjölmiðlum.

Félag um foreldrajafnrétti gaf nýlega út bækling í 10 liðum sem af flestum er talinn málefnalegur og öfgalaus. Skömmu síðar kom út skýrsla fjölskyldunefndar á vegum Félagsmálaráðuneytisins sem tekur undir flest málefni félagsins og leggur til að lögum verði breytt, enda lög í nágrannaríkjunum í þá veru sem við leggjum til. Ágúst Ólafur Ágústsson sem stýrði nefndinni hefur nýlega fengið verðlaun Barnaheilla vegna framgöngu sinnar við lögleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, var sammála nánast öllum málefnalegum rökum félagsins eins og glögglega má sjá í skýrslu nefndarinnar. Landsfundir Sjálfsstæðisflokks og Samfylkingar tóku síðan upp á sínar málefnaskrár samtals 9 af 10 ofangreindum málefnum félagsins sem fram koma í bæklingnum. Varla er því hægt að segja að okkar málflutningur sé mjög umdeildur.

Málflutningur Gunnars Hrafns er hinsvegar öfgafullur og skoðanir hans tiltölulega einangraðar. Félag um foreldrajafnrétti vill að íslensk börn njóti sambærilegs réttar til beggja foreldra eins og tíðkast í flestum vestrænum ríkjum, ekkert umfram það. Með skrifum sínum virðist mér sem Gunnar Hrafn telji að aðrar þjóðir hafi röng lög og röng viðhorf til réttinda barna og þess helmings foreldra sem ekki fer með lögheimili barna eftir skilnað. Þetta er stórkarlalegt íslenskt viðhorf hjá Gunnari sem greinilega telur sig vita betur. Gunnar Hrafn hefur alla tíð verið mjög umdeildur í starfi og verið í nöp við félagið í framhaldi af blaðaskrifum gegn honum fyrir mörgum árum.

Varðandi hans áherslur á PAS, þá er alveg ljóst að þær kenningar sem settar voru fram fyrir 20-30 árum voru umdeildar en síðustu ár hefur fjöldinn allur t.d. af sálfræðingum og geðlæknum lýst alvarlegri hegðun og atferli annars foreldris á hendur hinu. PAS hefur réttarfarslegt mikilvægi í mörgum ríkjum sem líta á grófar umgengnistálmanir lögheimilisforeldra sem ofbeldi gagnvart börnum að viðurlögðum hörðum refsingum. Fagna ég öllum öfgalausum umræðum um það málefni eitt og sér, en ósanngjarnt er að nota það tilefni til að gera lítið úr öllum málflutningi félagsins um almenn réttindi foreldra eftir skilnað sem spannar mjög breitt svið. Vissulega er umdeilt hvort PAS sé heilkenni eða ekki, hvort flokka eigi ákveðna hegðun sem geðsjúkdóm og svo framvegis. Þetta teljum við aukaatriði og fjöllum aldrei um málið á þann hátt. Við bendum á það að þessi hegðun er til og ljóst að sú heift þekkist þar sem foreldrar svífast einskis til að hefna sín á hinu foreldrinu og notar börn sín miskunnarlaust sem vopn – þeim til skaða.

Mér þætti fróðlegt að vita hvort Soffía Hansen myndi taka undir málflutning Gunnars Hrafns um málefnið, en hún varð fórnarlamb slíkrar heiftar er hún var útilokuð úr lífi dætra sinna og þeim snúið gegn henni með markvissri innrætingu sem endaði með því að þær báru vitni gegn henni, töluðu illa um hana og neituðu þeirri umgengni sem Soffía þó knúði fram hjá dómstólum. Ljóst má vera að dætur Soffíu hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi af hálfu föður þar sem þeim var gert að taka afstöðu með honum gegn móður þeirra. Mál Soffíu fékk almenna samúð Íslendinga og þjóðin fylkti sér um málstað hennar árum saman. Mál Soffíu var dæmigert PAS mál að mínu mati og hefði forsjá og lögheimili átt að færast yfir til móður ef bæði heimilin hefðu verið í sömu lögsögu. Föðurnum hefði átt að refsa fyrir ofbeldið – öðrum til viðvörunar. Ef Gunnar Hrafn væri samkvæmur skrifum sínum þá hefði hann fyrst og fremst hlustað á „vilja“ stelpnanna og látið þær sitja áfram í heiftinni hjá föður.

Ég dreg í efa að fólk í sporum Soffíu Hansen ætti að leita ráðgjafar hjá Gunnari Hrafni Birgissyni – en við teljum að á hverjum tíma séu nokkrir tugir foreldra sem eigi við jafn alvarlegar umgengnistálmanir að stríða hér á landi. Það er einnig alveg ljóst að þeir tveir sálfræðingar sem starfa við sáttameðferð hjá Sýslumanninum í Reykjavík eru öldungis ósammála um þessi málefni, en Jóhann Loftsson sagði nýlega á ráðstefnu að „hnefarétturinn sigri í hörðum umgengnistálmunum á Íslandi“. Ljóst er að Jóhann er þarna að vísa til mála þar sem einskins er svifist til að ná sínu fram – þó svo það sé á kostnað barnanna.

Það er því ósk mín að Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið kanni hjá sýslumannsembættum landsins hvort þessi starfsmaður embættanna eigi að koma að umgengnismálum sem líkjast máli Soffíu Hansen. Hvort hann njóti trausts til þeirra starfa í ljósi þess hversu afstaða hans til málaflokksins er öfgafull, svo ekki sé minnst á framgang hans gagnvart Félagi um Foreldrajafnrétti sem berst fyrir bættri almennri réttarstöðu u.þ.b. helmings þeirra skjólstæðinga sem sýslumannsembættin vísa til Gunnars Hrafns.  Félagið mun í framhaldi af viðbrögðum dómsmálaráðherra meta það hvort beina skuli þeim ráðleggingum til skráðra velunnara félagsins – sem nú telja rúmlega 7000 manns – að forðast íhlutun Gunnars Hrafns í erfiðum umgengnismálum.

Reykjavík 27. nóvember 2009.

Lúðvík Börkur Jónsson
Varaformaður Foreldrajafnréttis.
Afrit af bréfi þessu verður sent út á póstlista félagsins.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0