Morgunblaðið. Sunnudaginn 19. mars, 1995 – Sunnudagsblað

 

 

FEÐUR SKIPTA SKÖPUM

 

FEÐUR SKIPTA SKÖPUM

 

Má rekja afbrot unglinga til föðurleysis þeirra? Er betra fyrir barn að alast upp hjá foreldrum sem búa í slæmu hjónabandi heldur en hjá

 

einstæðu foreldri? Koma stjúpfeður aldrei í stað

 

líffeðra? Bandarískir sérfræðingar vilja halda

 

ofangreindu fram en Kristín Marja Baldursdóttir leitaði svara hjá Sigrúnu Júlíusdóttur

 

félagsráðgjafa og Áskeli Erni Kárasyni sálfræðingi um mikilvægi föðurins.

 

ELMINGUR þeirra barna sem alast upp án föður verða undir í lífinu síðar meir og föðurleysið getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið í heild sinni, segja bandarískir sérfræðingar. Langtímarannsóknir í Bandaríkjunum um mikilvægi föðurins eru nú að sjá dagsins ljós og meðal annars hefur komið þar fram að betra sé fyrir barn að alast upp hjá foreldrum sem búa í slæmu hjónabandi heldur en hjá einstæðu foreldri, og að stjúpfaðir geti aldrei komið í stað lífföður. Menn virðast nú vera að vakna til vitundar um mikilvægi föðurins í fjölskyldunni og má nefna að evrópskt rannsóknarþing um fjölskyldutengsl karlmanna verður haldið í Gautaborg í maí næstkomandi. Dr. Sigrún Júlíusdóttir dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands mun sækja það þing en hún hefur rannsakað íslensku fjölskylduna í mörg ár. Fengið var álit hennar og Áskels Arnar Kárasonar, sálfræðings og forstjóra Meðferðarstöðvar ríkisins fyrir unglinga, á fullyrðingum erlendra sérfræðinga.

 

Faðirinn, sem er yfirleitt frá vegna vinnu og hefur því lítinn tíma fyrir börn sín, virðist nú skyndilega vera orðinn sú persóna sem hefur örlög og framtíð barnsins í hendi sér. Í Bandaríkjunum hafa rannsóknir um hlutverk föðurins í uppeldi barna verið að sjá dagsins ljós, og hefur þar, og einnig í Þýskalandi og Bretlandi, verið mikið rætt og ritað um þær afleiðingar sem það hefur fyrir barnið og þjóðfélagið í heild sinni þegar börn alast upp án föður. Fjölmargar bækur sérfræðinga um þau mál hafa komið út í ofangreindum löndum, og nýlega birtist ítarleg umfjöllun í bandaríska tímaritinu U.S. News og þýska ritinu Focus um hlutverk föðurins.

 

Föðurleysi

 

Nærvera lífföður í fjölskyldunni skiptir sköpum fyrir framtíð barnsins, segja bandarískir sérfræðingar, og skiptir þá engu máli hvort faðirinn er ríkur eða fátækur, hvítur eða svartur. Rannsóknir hafi og sýnt að afbrot unglinga megi í fleiri tilvikum rekja til föðurleysis þeirra en til fátæktar eða kynþáttamisréttis sem þeir hafi ef til vill alist upp við. Þeir þjáist og oftar af þunglyndi og framtaksleysi en unglingar sem alast upp hjá báðum foreldrum, hætta oftar fyrr í skóla, verða oftar fíkniefnaneytendur, eru oftar fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis, og eignast oftar börn meðan þeir sjálfir eru á unglingsaldri.

 

Það er ekki að ástæðulausu sem Bandaríkjamenn eru uggandi um hag fjölskyldunnar og framtíð þeirra barna sem nú eru að vaxa úr grasi. Tvö börn af hverjum fimm alast nú upp án lífföður í Bandaríkjunum, eða um 38% allra barna. Árið 1960 voru þau hins vegar 17,5%.

 

Um 46% fjölskyldna þar sem móðirin býr ein með börnum sínum lifa undir fátæktarmörkum þar í landi, en aðeins 8% þeirra fjölskyldna þar sem báðir foreldrar eru til staðar.

 

Aðeins 43% fanga í bandarískum fangelsum ólust upp hjá báðum foreldrum og tveir þriðju allra nauðgara og þrír fjórðu allra morðingja af yngri kynslóðinni ólust upp án föður.

 

Engar rannsóknir hafa verið gerðar um fjölskyldubakgrunn fanga á Íslandi, en samkvæmt skýrslu Fangelsismálastofnunar ríkisins frá árinu 1993, kemur helmingur ungmenna sem fengið hafa ákærufrestanir og eru undir eftirliti Fangelsismálastofnunar, frá rofnum fjölskyldum og virðist það mun algengara hjá stúlkum en piltum. Um 48% pilta sem fengu ákærufrestun komu úr fjölskyldu þar sem foreldrar voru ekki í sambúð og um 63% stúlkna.

 

Á Íslandi er hlutfall einstæðra foreldra nú um 10% allra barnafjölskyldna.

 

Tveir stýra skútunni

 

En hvers vegna er faðirinn svona mikilvægur? Hvaða öryggi getur hann veitt barninu umfram það sem móðirin getur veitt því?

 

Þótt nútímamaðurinn leitist sífellt við að breyta veruleika sínum og umhverfi virðist hann ekki hafa roð við náttúrunni.

 

“Við erum samsetning karls og konu, erfum eiginleika þeirra beggja, og jafnframt erfðaeiginleika fjölskyldna þeirra. Þessi líffræðilegu tengsl eiga sér djúpar rætur í menningu mannkyns,” segir breski sálfræðingurinn Penelope Leach, sem er formaður breskra samtaka um barnavernd. Hún hefur fjallað um hlutverk föðurins, meðal annars í bók sinni “Children first”, eða Börnin fyrst, sem hefur vakið mikla athygli.

 

Undir þetta taka þau Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafi og Áskell Örn Kárason sálfræðingur.

 

Frá náttúrunnar hendi er gert ráð fyrir tveimur foreldrum, – hvorum af sínu kyni,” segir Sigrún. “Það má líkja þessu við muninn á því að róa bát með einni ár eða tveimur, það hefur áhrif á jafnvægið í bátnum og öryggiskennd þeirra sem í honum eru. Það skapar barninu öryggi að hafa tvo að leita til og vita að það séu tveir sem stýra skútunni. Þegar barn missir foreldri fer það stundum í stuðnings- eða huggunarhlutverk gagnvart foreldrinu sem það er hjá, og það setur þau oft í ábyrgðarhlutverk sem er ekki tímabært. Börn eru ekki til þess fallin að rækja hlutverk maka.

 

Á heimili þar sem annað foreldrið vantar getur það gerst að barn hafi fjárhagsáhyggjur, áhyggjur vegna yngri systkina og síðast en ekki síst áhyggjur vegna líðan foreldrisins. Í fræðum og í klíniskri vinnu greinum við áhrif þess hvernig börn samsama sig sorg og erfiðleikum foreldranna annars vegar, ýmist með því að taka á sig þessa ótímabæru ábyrgð, ganga inn í verkefni, afla tekna, sjá um heimilishald, innkaup og barnagæslu, og svo hins vegar hvernig þau samsama sig tilfinningalegum þörfum foreldrisins. Þau eru þá oft eins og barómeter á líðan þeirra. Þau læra til dæmis að sitja á sínum eigin þörfum og læra að afneita eigin tilfinningum því þau eru svo upptekin af því að hlú að foreldrinu og tryggja að það verði ekki fyrir meiri vonbrigðum eða sársauka.”

 

Áskell Örn segir að hér sé um að ræða samspil tveggja einstaklinga hvorum af sínu kyni. “Á heimili þar sem eingöngu er einn fullorðinn, verður styrkur hins fullorðna minni en á heimili þar sem báðir foreldrar eru til staðar og þar sem sambúðin gengur vel. Fyrirmyndirnar eru fjölbreyttari og hinir fullorðnu hafa styrk hvor af öðrum. Það vantar stóran þátt inn í mótunarferil barnsins þegar faðirinn er ekki til staðar í uppeldinu. Það verður augljósara þegar um félagsmótun drengja er að ræða, því þá vantar fyrirmyndina. Fyrir stúlku aftur á móti, sem kynnist ekki þessari föðurlegu hlið, gæti orðið flóknara síðar meir að umgangast karlmenn.”

 

Stattu þig drengur

 

Að mati Penelope Leach og annarra sérfræðinga ytra er munur á uppeldisaðferðum kvenna og karla. Hann sé ekki aðeins óhjákvæmilegur heldur nauðsynlegur. Þeir segja að feður séu einfaldlega öðruvísi. Þeir elski og umgangist börn sín á annan hátt en konur, og fari í öðruvísi leiki með börnum sínum. Í leikjum taki þeir gjarnan áhættur, sem mæður geri ekki, og með þeim og framkomu sinni virðist þeir búa barnið undir hina harðari hlið lífsins.

 

“Ég er ekki í nokkrum vafa um að uppeldisaðferðir föður og móður eru ólíkar,” segir Áskell Örn. “Ef hlutverk móður er að veita hlýju, umhyggju og þá vernd sem er nauðsynleg barninu í upphafi, er hlutverk föður að undirstrika sjálfstæði barnsins. Hann leggur áherslu á ábyrgð og skyldur, gerir kröfur og er sú fyrirmynd sem sýnir styrk í lífsbaráttunni. Hann er kannski oftar sá aðili sem segir, stattu þig drengur. Ég held að það sé erfitt fyrir móðurina eina að spila á þessa strengi.”

 

Sigrún segir að hvort sem það sé nú vegna upplagsins eða ytri áhrifa, hafi karlar og konur mótast á ólíkan hátt. “Við höfum hugtök eins og kvenlegt og karlmannlegt sem eru að mínu mati jákvæð hugtök. Við höfum karlmannlega eiginleika í okkur og kvenlega, og reynslan sýnir að það er öllum hollt að rækta þá báða.

 

Ég held að það sé erfitt að alhæfa um hvort munur sé á uppeldisaðferðum karla og kvenna eða hvort þau leiki við börnin á mismunandi hátt. Við þekkjum klisjuna um hina hefðbundnu fjölskyldu fyrr á öldinni, þegar mamman var heima og röflaði og svo kom pabbinn heim og refsaði, því að hann gekk beinna til verks. Ég tel að einmitt núna séu karlmenn að reyna að brjótast undan því hlutverki að vera þeir sem setja mörkin og refsa. Núna er þróun meiri í þá átt að kynin vinni saman en nýti jafnframt uppbætandi eiginleika sína í uppeldinu.”

 

Uppeldi án föður

 

Bandaríski sálfræðingurinn Judith Wallerstein, sem hefur sérhæft sig í skilnaðarmálum, hefur rannsakað afdrif skilnaðarbarna allt frá árinu 1971. Rannsókn hennar er ekki að fullu lokið en hún hefur þó birt niðurstöður hluta hennar. Hún segir að barn sem alist upp án föður, hafi hvorki tengsl við hann né möguleika á að þroska þau tengsl, verði oftast undir í lífinu á einhvern hátt.

 

Hún segir að niðurstöður rannsókna hennar sýni og glöggt hversu alvarlegar afleiðingar skilnaður foreldra geti haft á börn.

 

“Skilnaður foreldra er í augum barnsins sem náttúruhamfarir og hann breytir öllu lífi þess,” segir Wallerstein.

 

Gagnstætt því sem haldið hefur verið fram, telur Wallerstein að það sé betra fyrir barn að alast upp hjá foreldrum sem búa í slæmu hjónabandi en hjá einstæðu foreldri. Undir þessa kenningu hennar hafa frægir barnalæknar ytra tekið.

 

Sigrún Júlíusdóttir er þessu ekki sammála og segir að niðurstöður flestra nýrri rannsókna sýni hið gagnstæða og sömuleiðis meðferðarreynsla. “Þegar tengsl foreldra eru neikvæð, niðurrifskennd og vanmáttug skapar það barninu ekki aðeins slæmar aðstæður, heldur og líka fyrirmyndir sem eru neikvæðar. Þau fá skilaboð um það að fólk sé neytt til að búa við tengsl og aðstæður sem eru óviðunandi. Við slíkar aðstæður lenda börn oft í óheppilegum hlutverkum, mynda til dæmis samstöðu með öðru foreldrinu eða fyllast sektarkennd og finnst að það sem aflaga fari sé þeim að kenna. Í slíku andrúmslofti fá þau oft neikvæðar hugmyndir um sig. Ef við tökum aftur samlíkinguna við bátinn, þá hlýtur þó að vera skárra að hafa eina heila ár til að róa með, en tvær skemmdar sem skekkja áralagið og valda ólgu og ógleði.”

 

Áskell Örn segir að þessar niðurstöður Wallersteins komi sér á óvart og séu ekki í samræmi við það sem hefur verið álitið hingað til.

 

“Reynslan hefur sýnt að flest börn spjara sig eftir skilnað. Það er þó erfitt að finna orsök og afleiðingu í málum sem þessum og átta sig á því hvort kemur á undan hænan eða eggið. En ef við gefum okkur að þessar niðurstöður séu marktækar, rennir það stoðum undir það hversu nauðsynlegt það er fyrir barn að hafa föður og móður í lífi sínu og vera þátttakandi í samspili þeirra.”

 

Stjúpfeður

 

Athygli hafa einnig vakið niðurstöður Wallersteins um hlutverk og þátt stjúpföðurins í fjölskyldunni. Hún segir að stjúpfaðir geti ekki komið í stað lífföður. Nær helmingur þeirra barna sem ólust upp hjá móður og stjúpföður fannst þau vera útundan í fjölskyldunni á einhvern hátt.

 

Aðrar rannsóknir á vegum bandarískra barnaverndarsamtaka virðast styðja kenningar Wallersteins. Niðurstöður rannsókna og kannana sýna að börn sem alast upp hjá stjúpforeldri finni oftar til einmanakenndar og vanmáttar en börn sem alast upp hjá báðum foreldrum, eða jafnvel hjá einstæðu foreldri.

 

Í einni könnuninni voru bæði stjúpbörn og stjúpforeldrar spurð hverjir tilheyrðu hinni eiginlegu fjölskyldu þeirra. Um 10% barnanna töldu hið eiginlega foreldri sitt ekki með til fjölskyldunnar, en þriðjungur barnanna útilokaði stjúpforeldri sitt frá fjölskyldunni. Þegar kom að foreldrunum vildu um 1% þeirra ekki viðurkenna eigið barn sem eitt af fjölskyldunni, en fimmtán sinnum fleiri útilokuðu stjúpbarn sitt.

 

“Það ber að vara við alhæfingum í þessu sambandi,” segir Áskell Örn. “Það skiptir miklu máli á hvaða aldri barnið er þegar stjúpfaðir kemur inn í líf þess. En þetta er samt vandamál sem fólk er að verða sér betur meðvitað um því að fólk er að gera sér betur grein fyrir þörfum barna. Ég held að menn verði einfaldlega að sætta sig við það að stjúpfaðir kemur ekki í stað lífföður, en getur hins vegar reynst börnunum góður og það er eitthvað sem allir ættu að geta stefnt að.”

 

Sigrún, sem hefur unnið með fjölskyldur í tuttugu ár, segir að aðalvandinn í þessu sambandi sé þegar komið er inn hjá barninu hugmynd um að stjúpfaðir geti komið í stað lífföður.

 

“Sá vandi sem stjúpfjölskyldur glíma við er af allt öðrum toga en vandi fjölskyldna sem eiga aðra fjölskyldusögu að baki. Það eru margar goðsagnir á kreiki um stjúpfjölskyldur, og einnig mikil vanþekking. Það hefur sýnt sig að bein fræðsla og stuðningur við stjúpfjölskyldur getur komið í veg fyrir stóran hluta af því sem bandarísku sérfræðingarnir hafa nefnt. Fólk gerir sér hugmyndir um, því það veit ekki betur, að stjúpfjölskyldan eigi að vera eins og “venjulegar” fjölskyldur, sem hún er ekki. Hún er öðruvísi fjölskylda, hún er jafngóð, en öðruvísi. Hún þarf að takast á við málin á annan hátt og það þarf að hjálpa börnum að átta sig á hver er í hvaða hlutverki og hverjar eru þeirra óskir í því sambandi. Þarna kemur inn í myndina aldur barnsins og tengsl við lífforeldra. Það er ekki hægt að vænta þess að stjúpfaðir sem kemur inn í fjölskyldu geti umsvifalaust elskað börn konu sinnar, tekist á herðar framfærsluskyldu og hlutverk hins raunverulega föður.”

 

Fátækt

 

Því er haldið fram ytra að það séu sex sinnum meiri líkur á því að börn sem alist upp hjá einstæðu foreldri verði fátæk síðar meir en börn sem alist upp hjá báðum foreldrum. Fjölgun einstæðra foreldra fjölgi því jafnframt fátækum í þjóðfélaginu og æ fleiri þiggi hjálp frá hinu opinbera.

 

“Þetta getur átt við sums staðar erlendis eins og til að mynda í þjóðfélagshópum í Bandaríkjunum og í Bretlandi þar sem fátækt er ríkjandi fyrir, en þetta held ég að geti ekki gerst hér,” segir Áskell Örn. “Við vitum að ungar, einstæðar mæður eru að jafnaði fátækari en aðrir í þessu þjóðfélagi, en ég held að það sé oftar tímabundið ástand. Flestir sem skilja, giftast aftur og í stórum hluta þeirra kjarnafjölskyldna sem við sjáum eru börn af fyrra hjónabandi.”

 

“Fráskildar, einstæðar mæður eru sá hópur sem er verst staddur í öllum hinum vestræna heimi,” segir Sigrún. “Hér er ekki eingöngu um hinn efnislega þátt að ræða, heldur einnig hinn félagslega. Þá er átt við tengsl þeirra við umhverfið og þá bindingu sem þær búa við. Þær fá oft minni stuðning í fjölskyldum heldur en ekkjur eða þær einhleypu mæður sem hafa aldrei gifst, hafa ætíð verið einar með sitt litla barn og hafa oft dálítið sérstaka stöðu í fjölskyldunni. Þær mæður fá oft meiri stuðning og viðurkenningu en þær fráskildu.”

 

Í samkeppni við guð

 

Feministar í Þýskalandi segjast undrandi á því mikilvægi sem föðurhlutverkið hefur nú hlotið og spyrja: Ef feður eru svona mikilvægir, því sýna þeir þá þetta ábyrgðarleysi gagnvart börnum sínum? Og því gefa þeir í flestum tilvikum eftir forræði barnsins við skilnað?

 

Þær vilja halda því fram að nútímakarlmaður þjáist af innra öryggisleysi og vanmetakennd.

 

Sigrún segir þá staðhæfingu ekki fráleita. Karlmenn hafi fengið aðra vitund og eru í annars konar hlutverkum en þeir voru fyrir fimmtíu eða hundrað árum. Staða kynjanna sé líka að breytast vegna breyttra atvinnu- og samfélagshátta. “Karlmenn eru fyrst og fremt óöruggir á tilfinningasviðinu. En konur hafa líka sinn drösul að draga því að þær hafa verið bundnar af hefðinni ekkert síður en karlmenn. Það er ekki launungamál að lögfræðingar segja stundum feðrum að þeir skuli ekki láta sér detta það í hug að fara fram á forsjá barnanna, það verði deila og það séu 90% líkur á að þeir tapi henni. Karlarnir gefa oft eftir því þeir vilja ekki að börn sín lendi í slíkri deilu, en vonast til að geta bætt þeim það upp í annarri mynd. Ég veit það af reynslu minni með því að vinna með karlmönnum í skilnaði að þeir líða oft af eftirsjá og óánægju að hafa ekki tengsl við barnið og bera á því ábyrgð.

 

En þrátt fyrir hefðirnar og hlutverkin, eru samskipti karls og konu að breytast.”

 

“Að halda því fram að öryggisleysi einkenni nútímakarlmanninn sérstaklega er tómt bull,” segir Áskell Örn. “Ég held hins vegar að það sé mjög algengt að feður séu sér ekki meðvitaðir um mikilvægi sitt.

 

Allt frá dögum iðnbyltingar hefur þáttur feðra í uppeldinu orðið minni. Ég held að feministar eins og allir aðrir verði að horfast í augu við að tengsl barnsins við móðurina eru frá upphafi sterkari. Meðan hún ber það undir belti og sinnir því ungu er faðirinn að vinna baki brotnu fyrir framfærslu fjölskyldunnar og myndar því oft ekki það samband við barnið sem væri því fyrir bestu, og væri hið eðlilega og rétta. Þegar kemur að skilnaði liggur það því beinast við að veita móðurinni forræðið.

 

Þessi umræða í dag um jafnan rétt foreldra til forsjár barna við skilnað, og jafnvel um skipti á forsjá, finnst mér vera “útópísk”, eða út í hött. Það er lögð heilmikil orka í að meta og deila um það hvar barnið eigi að lenda eins og menn gleymi því að móðirin hefur oftast sterkari tengsl við barnið og kann betur að annast það. Ætlar löggjafinn ef til vill að hlutast til um það að bæði kynin geti gengið með barnið og gefið því brjóst?

 

Ég spyr mig stundum hvar mörkin eru og hvenær við erum komin í samkeppni við guð almáttugan?”

 

Það verður í það minnsta ekki deilt við náttúruna. Á meðan rætt er um það fram og aftur hvort faðirinn sé í raun svo mikilvægur í uppeldi barnsins, eða hvort fjölskyldan geti með öllu komist af án hans, leika börnin sama leikinn og þau léku fyrir öldum. Þau leika mömmu, pabba, og barn.

 

Sigrún Júlíusdóttir

 

Aðalvandinn í sambandi við stjúpfjölskyldur er sá að þeirri hugmynd er komið inn hjá barninu að stjúpfaðir geti komið í stað lífföður.

 

Áskell Örn Kárason

 

Faðirinn leggur áherslu á ábyrgð og skyldur, gerir kröfur og er sú fyrirmynd sem sýnir styrk í lífsbaráttunni.

 

FAÐIRINN sem er yfirleitt frá vegna vinnu sinnar og hefur því lítinn tíma fyrir börn sín, virðist nú skyndilega vera orðinn sú persóna sem hefur örlög og framtíð barnsins í hendi sér.

 

Fjölgun einstæðra foreldra fjölgi því jafnframt fátækum í þjóðfélaginu og æ fleiri þiggi hjálp frá hinu opinbera.

 

Það er mjög algengt að feður séu sér ekki meðvitaðir um mikilvægi sitt.

 

Frá náttúrunnar hendi er gert ráð fyrir tveimur foreldrum, – hvoru af sínu kyni.

 

Morgunblaðið/Júlíus

 

Morgunblaðið/Kristinn

 

MEÐAN deilt er um mikilvægi föðurins leika börnin sama leikinn og fyrrum, pabba, mömmu og barn.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0