MIÐGARÐUR, þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness, hefur undanfarin ár unnið að verkefninu “Hringnum” þar sem leitað er sátta milli ungmenna sem brjóta af sér og þolenda afbrotanna.
 
Er þar reynt að taka uppbyggilega á afbrotamálum sem upp koma hjá börnum og unglingum og stuðla að jákvæðri lausn mála, sem feli í sér bætta sjálfsmynd hins unga samfélagsþegns og vonandi forvörn gegn frekari afbrotum, m.a. með því að koma í veg fyrir sjálfsstimplun. Þykir verkefnið hafa borið góðan árangur og er það nú fyrirmynd nýs verkefnis sem nú er unnið að í Miðgarði sem tekur til nágrannaerja og deila í húsfélögum.
Hringurinn er samvinnuverkefni milli Miðgarðs og lögreglunnar í Grafarvogi, sem hófst formlega 1. sept. 2001. Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Miðgarðs, segir Hringinn hafa reynst afar vel í þau ár sem hann hefur verið starfræktur. “Með þessu er verið að reyna nýjar leiðir í afbrotamálum barna,” segir Ingibjörg. “Þetta hefur tekist það vel að í raun og veru hefur þessi vinna orðið n.k. fyrirmynd að því hvernig á að fara að vinna með sáttamiðlun á Íslandi. Nú á að fara að bjóða sáttamiðlun í ýmsum afbrotamálum sem annars hefðu farið dómsleiðina.”

Styrkir sjálfsmynd barnanna
Ingibjörg segir klárlega mikinn samfélagslegan sparnað fólginn í verkefninu, þar sem það hafi mikið forvarnargildi og skapi um leið félagsauð. “En það sem við erum fyrst og fremst að hugsa um er að gefa barninu tækifæri til að læra af reynslunni, leggja sitt af mörkum til að gera samfélagið öruggara og bæta fyrir hegðun sína á uppbyggilegan hátt, t.d. með því að fara í stutta vinnu á einhverjum stað úti í hverfinu. Við erum með marga tengla, t.d. leikskóla, vélaverkstæði, sundlaugina og sambýli,” segir Ingibjörg og bætir við að ekki sé litið á Hringvinnuna sem refsingu. “Vinna í anda Hringsins hefur þann tilgang að styrkja sjálfsmynd barnanna og auka hæfni þeirra til að velja og hafna samkvæmt eigin gildismati.”
Aðferð Hringvinnunnar byggist á því að unnið er með brotaþolanum, samfélaginu og brotamanninum og fjölskyldu hans. “Við erum með nálgun sem býður upp á margar leiðir til úrlausnar,” segir Ingibjörg. “Við leggjum mikið upp úr því að það sé unnið í nærsamfélaginu, því yngri sem börnin eru, því mikilvægara er að unnið sé enn nær þeim. Með yngstu börnunum er jafnvel ekki farið út fyrir skólann”

Í ferlinu skipta þolendur miklu máli, að sögn Ingibjargar, því þeim gefst sjaldnast tækifæri til að tjá líðan sína. Sérstakur starfsmaður heldur utan um hringinn, leiðir vinnuna og stjórnar fundum. Þeir aðilar sem eru saman komnir hjálpast síðan að við að finna leið til að styrkja sig og leggja framlag til samfélagsins. Framlagið þarf ekki að tengjast afbrotinu á neinn hátt. “T.d. er mjög þroskandi fyrir barn að fara inn á sambýli fyrir fatlaða,” segir Ingibjörg. “Við erum ekki að tala um mikla vinnu, kannski einn tíma á dag í tvær vikur. Þetta á að vera jákvæð upplifun.”

Hringferlið er að sögn Ingibjargar afar mikilvægt til að hjálpa fólki að horfast aftur í augu við hvort annað. “Gildi hans hefur sýnt sig mjög vel hvað varðar ofbeldismál, þar sem þolendur eru oft hræddir við að hitta geranda aftur, en með því að hitta gerandann í vernduðu umhverfi, þar sem hægt er að gera málin upp, hjálpar ferlið þeim að yfirvinna hræðslu.”

Burt með sjálfsstimplun
Ætlun Hringferlisins er að hindra vítahring afbrota með bættri sjálfsmynd og samfélagsupplifun barnsins. “Einn strákur sem tók þátt í þessu sagði við mig: “Jú, ég vil bara sýna að það sé í lagi með mig.” Þetta snýst líka um það að krakkarnir fái tækifæri til að sanna sig og byggja upp, en fari ekki að stimpla sjálf sig sem óalandi og óferjandi og leiðist þannig út í frekari afbrot,” segir Ingibjörg. “Þetta er forvörn og það er þess vegna sem við viljum grípa inn í strax. Allar lögregluskýrslur teljast barnaverndarmál og fara til barnaverndarnefnda. Oft hefur engin vinna farið af stað í vægari málum og bara sent bréf til foreldra og þeim bent á að þau geti leitað sér hjálpar vilji þau fara lengra. Við viljum aðstoða þá krakka sem eru að beygja af réttu brautinni til að þau styrki sig og leiðist síður út í alvarleg afbrot.”
Alls hefur starfsfólk Miðgarðs haft umsjón með fimmtíu hringferlum frá upphafi og er nú mikill áhugi fyrir því að kanna ítarlega hvernig skjólstæðingum þjónustumiðstöðvarinnar hefur reitt af í kjölfar sáttaferlisins. Viðhorfskönnun hefur þó leitt í ljós mikla ánægju allra aðila.

Grannaerjur leystar með sömu aðferð
Hið nýja tilraunaverkefni er unnið í samvinnu við Félagsbústaði og miðar að því að finna lausn á ágreiningi sem upp kann að koma milli nágranna í Grafarvogi og á Kjalarnesi, m.a. vegna meintra brota á húsreglum. Fyrirkomulag verkefnisins er þannig að á sameiginlegum fundi fá allir aðilar tækifæri til að tjá sig um upplifun sína og skoðun á atvikinu og síðan eru þeir aðstoðaðir af sérfræðingum Miðgarðs, með ákveðinni aðferðafræði, við að leysa úr vandanum og ná sáttum. “Við erum svolítið að líta til nágrannalandanna, en þar hafa sáttamiðlunarleiðir verið notaðar í alls konar deilumálum,” segir Ingibjörg. “Það koma oft upp erjur hér sem hlýtur að vera farsælast að leysa með sátt viðkomandi aðila án þess að fara dómsleið. Við ákváðum að byrja á að fara í smá samvinnu með Félagsbústöðum og erum rétt að koma því á koppinn og erum búin að kynna í fréttabréfi til allra viðskiptavina Félagsbústaða. Þetta verkefni er í startholunum.”

mbl.is Miðvikudaginn 26. apríl, 2006 – Innlendar fréttir
Eftir Svavar Knút Kristinsson Svavar@mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0