Til Allsherjarnefndar Alþingis
Frá Félagi Ábyrgra Feðra

5. janúar 2006.

Greinargerð:

Vegna breytinga á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar. 132. löggjafarþingi. Vegna þskj.294- 279 mál og vegna þskj 374-340 mál, vegna breytinga á lögum 76/2003

Samantekt.
Félaga ábyrgra feðra hefur unnið ötullega að ná fram bættum réttindum barna og foreldra, sérstaklega þegar foreldrar búa ekki saman. Forsjárnend hefur skilað inn góðum tillögum að breytingum í tvígang – nú síðast í mars 2005. Þær tillögur eru samhljómur við tillögur FÁF

Félag ábyrgra feðra telur að umrætt breytingafrumvarp dómsmálaráðherra (þskj 294-279 mál) sé á margan hátt skref í rétta átt en hefði mátt taka á fleiri þáttum barnalaga og ganga lengra. FÁF vonar að þingmenn allherjarnefndar fjalli og taki fleiri þætti til meðferðar og taka undir fleiri tillögur FÁF og Forsjárnefndar.

Megin þema í boðskap Félags Ábyrgra Feðra er að barn á ávallt rétt á tveim jafn réttháum foreldrum sem skipta miklu máli í lífi barns. Viðurkennt sé að barn eigi heimili á tveimur stöðum þegar foreldrar búa ekki saman. Þetta verði meginþema í barnarétti á Íslandi, enda barni fyrir bestu og í anda réttarþróunar erlendis.

FRUMVARP TIL LAGA: um breytingar á nokkrum lögum á sviði sifjaréttar

A) Breytingar á barnalögum nr. 27/2003 með síðari breytingar (þskj 294-279mál).
Félag Ábyrgra Feðra styður þær breytingar sem lagt er til vegna
31 gr, 48 gr, og 54 gr laga , sbr þskj 294-279 mál.

Vegna 1 mgr 68 gr í þskj 294-279. Þar er lagt til að ef meðlagsúrskurður er felldur hér á landi og forsjáraðili búi erlendis þá haldi hann en hægt sé að breyta honum ef greiðslugeta föðurs minki. Félag Ábyrgra Feðra telur að þennan lið þurfi að endurskoða frá grunni m.t.t. réttinda barns og samvista við forsjárlausa foreldrið þegar forsjárforeldri flytur úr landi. Félagið telur eðlilegt að við brottflutning þá sé hægt að semja um að meðlag renni að hluta eða öllu leyti til að kosta heimferð barns til samvista við forsjárlausa foreldrið. Félagið er því andsnúið þessum lið eins og lagt er fram í þskj 294

B) Aðrar breytingar á barnalögum nr/2003, sem Félag Ábyrgra Feðra telur nauðsynlegt að gera.
i) Félag ábyrgra feðra finnst vanta í 29 gr barnalaga: “við fæðingu barns fara báðir foreldrar sjálfkrafa með forsjá barns” Nýfætt barn á sama rétt og skilanaðarbarn að njóta forsjár beggja foreldra, nema það sé andstætt hagsmunum barns.

ii) Það vantar sárlega skýr lagaákvæði að dæma megi foreldra í sameiginlega forsjá, enda séu báðir foreldrar hæfir og búa í sama hverfi og það sé sýnt að erfitt er að meta hvort foreldra sé hæfara.

iii) Það vantar endurskoðun á 30. gr. barnalaga er fjallar um forsjá við andlát forsjárforeldris. Félag ábyrgra feðra mótmælir þeim sjónarmiðum að sambúðarforeldri sem búið hefur með forsjárforeldri í eitt ár eða lengur fái frekar forsjá en blóðforeldri. Einnig harmar félagið að forsjáraðili geti gert einskonar forsjár erfðaskrá. Félag Ábyrgra Feðra telur eðlilegt að eftirlifandi blóðforeldri fái forsjá barna við andlát forsjárforeldris, nema það sé andstætt hagsmunum barna.

iv) Í VII kafla barnalaga er fjallað um umgengnisrétt. Félag ábyrgra feðra telur að 2 málsliður 2 málgr í 46 grein eigi að hljóða svo: “Kostnaður vegna umgengni er sameiginlegur, enda hluti af framfærslukostnaði barns” Í dag er kostnaður vegna umgengni alfarið forsjárlausa foreldrisins, nema í sérstökum tilfellum. Er þetta einn af fáum framfærslukostnuðum vegna barns sem er ekki sameiginlegur.

v) Í 47 gr er fjallað um úrskurð um umgengni . Félag ábyrgra feðra harmar þau vinnubrögð sem eru bæði hjá framkvæmdavaldi og dómsvaldi, en þar falla úrskurðir/dómar á þá veru að barn eigi ALDREI til 18 ára aldurs að vera hjá föður(forsjárlausa foreldrinu) á aðfangadegi jóla. Hér þarf að endurskoða lög og verklagsreglu til samræmis við almenn viðhorf nútímans og t.d. verklag í nágrannalöndum eins og í Noregi (
sbr. http://www.abyrgirfedur.is/AT.asp?action=ViewItem&atID=337)

vi) Í 52 gr barnalaga er fjallað um að upplýsingarrétt sem forsjárlausa foreldrið á að hafa. Því miður rataði það í greinargerð með barnalögum að upplýsingar skv þessu séu einungis munnlegar. Félag ábyrgra feðra telur eðlilegt að foreldri með framfærsluskyldu hafi sama rétt og forsjárforeldrið til upplýsinga um barnið frá stofnunum.

vii) Í barnalögum er skýrt að forsjárlausa foreldrið hefur sömu framfærsluskyldu og forsjárforeldrið. Einstætt foreldri hefur ýmisleg opinber fríðindi, s.s. barnabætur , meiri húsaleigubætur og skattleggst sem einstætt foreldri. Forsjárlausa foreldrið skattleggst hinsvegar sem barnlaus einstaklingur, sé viðkomandi ekki í sambúð. Báðir foreldrar hafa sömu framfærsluskyldu en hafa mjög ólíka skattalega stöðu, sem ætti að vera sú sama

viii) Í IX kafla barnalaga er fjallað um framfærslu barns. Félag Ábyrgra Feðra telur þörf á að endurskoða þann kafla frá grunni, og m.a. verði upphæð meðlags miðuð við umfang samvista. Við jafna umönnun falli niður meðlagsgreiðslur, enda framfæra þá báðir foreldrar barnið með beinum hætti.

ix) Félag ábyrgra feðra telur að í 10 gr barnalögum (76/2003) eigi að fella út seinnihluta 1.málsgr … “enda hafi barn ekki verið feðrað” Feður eiga að hafa óskoraðan rétt til að fara í faðernismál telji þeir sig föður barns.

FRUMVARP TIL LAGA: Um breytingar á lagaákvæðum er varðar réttarstöðu samkynhneigðra. þskj 374-340 mál

Í skjalinu er fjallað á nokkrar breytingar á barnalögum varðandi sæðisgjafa ofl. Félag Ábyrgra Feðra hefur þá einu athugasemd að það telur eðlilegt að öll börn getin með gjafsæði eigi rétt á að fá að vita hver sæðisgjafinn er þegar þau eru orðin 18 ára. Börnin hafa enga kröfu á viðkomandi einstakling. Þetta er til samræmis við það sem t.d. bretar hafa gert til að tryggja rétt barna um uppruna sinn, sem getin eru með sæðisgjöf, í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna.

GREINARGERÐ:

Forsjá og valdheimild dómara
Í ræðu dómsmálaráðherra til kynningar á breytingum barnalaga frá 17. fundi 132. löggjafarþings, þann 8. nóv. 2005 segir orðrétt m.a: “Með frumvarpinu er lagt til að sameiginleg forsjá verði meginregla eftir samvistarslit foreldra, þ.e. foreldrar fari sjálfkrafa áfram með sameiginlega forsjá barns eftir samvistarslit nema annað sé ákveðið”. Þetta er nauðsynlegt skref sem ber að samþykkja. Þetta eru skýr skilaboð til foreldra um að þau hafi áfram mikilvægu foreldrahlutverki að gegna fyrir og eftir skilnað / sambúðarslit. Ágreiningsmálum um forsjá mun fækka.

Í sömu ræðu segir orðrétt: “Jafnframt geti dómstóll að kröfu foreldris ákveðið að forsjáin
verði í höndum annars hvors þeirra. Þannig er gengið út frá því að foreldri, sem ekki vill að forsjá verði áfram sameiginleg, geti komið í veg fyrir að svo verði, eins og gildandi réttur segir til um……………………………….Þær raddir hafa heyrst að rétt sé að fela dómstólum að dæma sameiginlega forsjá gegn vilja foreldris og forsjárnefnd telur þann kost vænlegan. Ég (BB) geri hinsvegar ekki tillögur um breytingar í þá átt. Þar sem samvinna foreldra er lykilatriði, þegar sameiginleg forsjá er annars vegar, gefur augaleið að mikilvægt er að samkomulag ríki um þá skipan. Margvíslegar ástæður geta verið fyrir því að annað foreldri leggst sameiginlegri forsjá. Án þess að tíunda það hér í löngu máli má nefna atriði eins og alvarlega sjúkdóma, og það að ofbeldi hafi einkennt sambúið foreldra. Í slíkum tilvikum kæmi sameiginleg forsjá barns gegn vilja annars foreldris tæplega til greina. Ég (BB) tel ekki rétt að dómara sé heimilað að taka fram fyrir hendur foreldra og dæma þau til sameiginlegrar forsjár.”

Félag ábyrgra feðra telur að heimila eigi dómurum; skilyrðislaust, að dæma fólk í sameiginlega forsjá – sé það barni fyrir bestu. En slík ráðstöfun er óheimil í dag, nema þegar um bráðabirgðaforsjá er að ræða sbr 2 msgr 35 gr barnalaga, en þar getur dómari neitað að svipta annað foreldri forsjá á meðan forsjármáli stendur. Þennan rétt þarf dómarieinnig að hafa í hefðbundnu forsjármáli.

Komið hefur fram í máli dómara; t.a.m. í maí síðastliðnum á málþingi sem ráðherra dómsmála efndi til vegna kynningar á lokaskýrslu forsjárnefndar – að dómarar væru settir í afleita stöðu í forsjármálum. Þá stöðu að standa frammi fyrir jafnhæfum foreldrum og þurfa beinlínis að varpa hlutkesti um hvoru foreldrinu væri dæmd forsjá. Sú staða væri afleit þegar ljóst væri að það kæmi barni best að lúta forsjá beggja foreldra og jafnri ummönun þeirra. En að óbreyttum lögum er dómara óheimilt að dæma foreldra til sameiginlegrar forsjár – jafnvel þó það sé það barni fyrir bestu. Meginþema barnalaga er að framkvæma ávallt það sem barni fyrir bestu og hér er það ekki mögulegt.

Ráðherra telur það lykilatriði fyrir sameiginlegri forsjá að foreldrar geti unnið saman að högum barns – en virðist illa gera sér grein fyrir þeirri staðreynd að ósamkomulag foreldra í yfirgnæfandi tilfella skapast vegna þess að annað foreldrið getur í dag neitað hinu foreldrinu um forsjá og fengið það staðfest fyrir dómi – sé það þess vilji. Reynsla erlendis frá er einnig að deilur foreldra í skilnaði hjaðna hraðar þegar báðir fara taplitlir úr skilnaði. Við slíkar aðstæður verða foreldrar að gera nákvæma samninga sem lítur að sem flestum atriðum. Fyrirmyndir af slíkum samningum eru til. Reynsla af að dæma í sameiginlega forsjá er einnig til og vert að skoða. Þá stangast illilega á rök ráðherra fyrir þeim hugmyndum sínum um að ekki sé rétt að heimila dómara að taka fram fyrir hendur foreldra og dæma þau til sameiginlegrar forsjár – gegn vilja annars foreldrisins. M.ö.o. annað foreldrið getur neitað hinu foreldrinu um forsjá, án haldbærra ástæðna og dómari er settur í þá afleitu stöðu að verða að svipta hæft foreldri forsjá og ástæðan oftast tímabundið ósamkomulag foreldra.

Fyrir áratugum var sameiginlega forsjá ekki til, hún er að verða norm í dag. Fyrir aðeins nokkrum árum var ekki hægt að dæma fólk í sameiginlega forsjá. Það er hægt í dag og mun verða hægt í fleiri löndum innan skamms. Spurningin er hvort Ísland vilji vera í farabroddi í þessum málum eða reköld í straumi annarra framsækinna þjóða.

Ráðherra virðist vera þeirrar skoðunar að dómara verði áfram heimilt að svipta annað foreldri forsjá barna sinna – þvert á vilja þess og hagsmuni barns. Slíka ráðstöfun telur FÁF vera alvarlega og geti talist mannréttindabrot, stríði gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár; barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem og mannréttindasáttmála Evrópu.

Umhugsunarvert er hvort ráðherra dómsmála treysti dómurum landsins samkv. núgildandi lögum til að svipta börn forsjá annars foreldris síns og er þá oft vart sjónarmunur á milli foreldra – en ráðherra treystir þeim ekki til að dæma það sem á að vera barni fyrir bestu hverju sinni – sameiginlega forsjá og jafna ummönun. Þess ber að geta að í Frakklandi, Bretlandi og Svíþjóð er hægt að dæma í sameiginlega forsjá. Á vef FÁF má einnig sjá rök fyrir slíku (http://www.abyrgirfedur.is/AT.asp?action=ViewItem&atID=314)

Það má einnig benda á að börn sem alast upp við jafna umönnun spjara sig betur en önnur skilnaðarbörn. Um það má lesa á (http://www.abyrgirfedur.is/AT.asp?action=ViewItem&atID=252&keyword=foreldrajafnrétti). Þess má einnig geta að jöfn skipt búseta er hjá um 20% af skilnaðarbörnum í Svíþjóð í dag og hefur 10 faldast á 10 árum.

Félag ábyrgra feðra telur núverandi ástand fyrir dómstólum óásættanlegt. Félagið hvetur löggjafann til að breyta á þann veg að dómurum verði heimilt að dæma þá bestu niðurstöðu sem þeir komast að í hverju máli fyrir sig. Að óbreyttu bindur löggjafinn hendur dómara á einn veg – þvert á hagsmuni barna, sem verða þannig svipt forsjá annars foreldris, fyrir dómi.

Rök ráðherra fyrir ráðstöfunum fyrir dómstólum bera keim af gamaldags viðhorfum löglærðra embættismanna hans. Ráðherra stígur þó þetta breytingaskref af áræðni og hvetur í ræðu sinni hv. allsherjarnefnd til að kynna sér rök með og á móti sameiginlegri forsjá m.t.t. nágrannalandanna; ásamt því að ræða hlutverk og umboð dómara. M.ö.o. heldur hann því galopnu að róttækar breytingar verði gerðar á hlutverki dómara líkt og tillögur forsjárnefndar og FÁF gera ráð fyrir.

Forsjá við andlát forsjárforeldris
Í 30. gr. barnalaga er fjallað um forsjá við andlát forsjárforeldris. Þar segir orðrétt í 2.mgr.: “Nú hefur annað foreldrið farið með forsjá barns og fer þá stjúpforeldri eða sambúðarforeldri, sem einnig hefur farið með forsjána, sbr. 3.mgr. 29. gr. áfram með forsjá eftir andlát forsjárforeldris.”

Þetta þýðir einfaldlega ef foreldrar skilja – móðirin fær í flestum tilfellum forsjá barnanna. Eftir að hafa verið skráð í sambúð með nýjum maka í a.m.k. 1 ár, þá fara þau sameiginlega með forsjá barna hennar. Ef móðirin fellur skyndilega frá að einu ári liðnu eða fleirum – þá fær nýi makinn sjálfkrafa forsjá barnanna; en EKKI faðir þeirra / blóðfaðir.

Þetta telur FÁF vera óásættanlega skipan og henni ber að breyta hið snarasta í þá átt að blóðforeldri fái sjálfkrafa forsjá barna sinna í stað stjúpforeldrsis nema það sé talið andstætt högum barnanna. Eðlilegast er meginregla sé að blóðforeldri fái forsjá barna sinna eftir andlát forsjárforeldris, nema það sé andstætt hag barns.

Í 6. mgr. sömu greinar; 30.gr. barnalaga er að finna “nýmæli”: “Lagt er til að forsjárforeldri geti ákveðið hver eða hverjir skuli að þeim látnum fara með forsjá barns þeirra. Ber að fara eftir slíkri ákvörðun foreldra, nema því aðeins að annað þyki barni fyrir bestu eða ákvörðunin sé andstæð lögum.”

Félag ábyrgra feðra fordæmir slík “nýmæli” og ítrekar enn sína skoðun á að meginregla eigi að vera sú að við andlát forsjárforeldris eigi forsjárlaust blóðforeldri að fara með forsjá barna sinna.

Það er mikil skammsýni í slíkum lagagreinum að jafnvel eftir harðvítugar deilur foreldra um forsjá barna sinna; þá geti forsjárforeldri í hefnigirni sinni útbúið einskonar erfðarskrá um hver fái forsjá barna þess að því látnu. Er í fullum rétti miðað við núverandi lagagrein um að úthýsa blóðforeldri frá forsjá barna sinna að því gengnu.

Umgengni / ummönnun og þvingunarúrræði

Í 47. gr. barnalaga kveður á um úrskurð sýslumanns um umgengni. Þar segir m.a. í inngangsorðum: “Ákvörðun skal ávallt tekin eftir því sem er barni fyrir bestu”. Í 7. lið sömu greinar barnalaga segir orðrétt: “Um aðfangadagskvöld hefur mótast sú verklagsregla að ákvarða yfirleitt að barn skuli dveljast hjá því foreldri sem það hefur fasta búsetu hjá á aðfangadagskvöld. Rökin fyrir þeim reglum eru þau að það komi barni að jafnaði best að dvelja þá á heimili sínu, enda hafi barnið yfirleitt tekið mestan þátt í undirbúningi hátíðarhaldanna þar.”

Framkvæmdavaldið virðist hafa sett sér verklagsreglur sem samrýmast á engan hátt því sem er talið barni fyrir bestu hverju sinn,i og þeim ber að breyta. Slíkar verklagsreglur virðast vera búnar til af slíku kappi að nauðsynlegt þykir að nefna þær sérstaklega í umræddum 7. lið fertugustu og sjöundu greinar barnalaganna. Breyta á þann hátt að þær fái sín ekki notið sem viðmið. Setja þarf lög sem meginreglu um að barn dvelji til skiptis hjá foreldrum sínum á aðfangadegi jóla sem og öðrum hátíðisdögum. Jafnframt þarf að hnýta inn breytingar á þessu frumvarpi sem miða að því að gera jafna umönnun / umgengni foreldra við börn sín að meginreglu – fremur en undantekningu; óháð lögheimilisskipan. Einnig þarf að viðurkenna og geta fengið það skráð að barn geti átt heimili hjá báðum foreldrum.

Það er hverju barni nauðsyn að alast upp sem jafnast fyrir og eftir skilnað hjá báðum foreldrum. Slíkir hagsmunir barna eru óumdeildir og viðurkenndir þegar sambúð á sér stað – en einhverra hluta vegna virðast þeir hagsmunir ennþá gerbreytast þegar til skilnaðar kemur og inngripa opinberrar stjórnsýslu.

Börn eiga tvö heimili eftir skilnað – annað hjá föður og hitt hjá móður og er foreldrum uppálagt að búa börnum sínum góðar aðstæður á hvorum stað fyrir sig. Þrátt fyrir það er í sífellu talað um sbr. í rökum 7. liðar fyrir aðfangadagsverklagsreglunni að “það komi barni að jafnaði best að dvelja á heimili sínu, enda hafi barnið yfirleitt tekið mestan þátt í undirbúningi hátíðarhaldanna þar……” M.ö.o. er talið að barn eigi eitt heimili en komi í heimsókn á annað heimili, þ.e. heimli föður. Þetta eru úrelt sjónarmið, en lífsseig og lifa góðu lífi m.a. í stjórnsýslunni hér á landi.

Þessi verklagsregla er í mótsögn við hið aukna hlutverk sem feður hafa orðið í lífi barna, einnig eftir skilnað. Hún er heldur ekki í samræmi við það sem er í nágrannalöndunum, m.a. í Noregi er sú regla að börn eru önnur hver jól hjá föður og hin hjá móður. Þau jól sem börn eru hjá móður, þá eru þau hjá föður um áramótin og öfugt sjá (http://www.abyrgirfedur.is/AT.asp?action=ViewItem&atID=337)

Í 48. gr. barnalaga er kveðið á um dagsektir til að koma á umgengni. Ráðherra dómsmála leggur til að reglur um þvingunarúrræði verði rýmkaðar á þann hátt að tálmun umgengni fái ekki viðgengist í jafn ríkum mæli og verið hefur. Þ.e. að úrskurðir taki samstundis gildi, áfrýjun fresti eigi réttaráhrifum þeirra nema í undantekningartilfellum og dagsektarákvæði fái sín fyrr notið í ferlinu.

Félag ábyrgra feðra telur þessar breytingartillögur af hinu góða en myndi vilja ganga skrefinu lengra í samhljómi við tillögur forsjárnefndar með möguleikum á frystingu meðlagsgreiðslna, barnabóta os.frv.

Gríðarlega mikið er um umgengnistálmanir í forsjármálum og fjölmörg dæmi þess að feður hafi ekki hitt börn sín, vikum, mánuðum og árum saman. Það eru fleiri hundruð mál á ári hjá sýslumönnum þar sem feður eru að leita hjálpar við að njóta samvista við börn sín. Þau úrræði sem hafa átt að vera tiltæk í formi dagsekta virka ekki og hafa ekki virkað. Engin úrræði eru til fyrir forsjárlaust foreldri til að knýja fram umgengni ef móðir staðfastlega neitar. Það verður að viðurkennast að tilhæfulaus umgengnistálmun er grimmilegt ofbeldi gagnvart barni og föður og ber að meðhöndlast eins og hvert annað ofbeldismál. Oft eru börnin notuð sem skiptimynt eða vopn í deilum foreldra. Tálmi hins vegar forsjárlaust foreldri umgengni og neitar að skila börnum til forsjárforeldris – þá getur það foreldri umsvifalaust fengið svokallaða innsetningu og lögregluaðstoð við að sækja sín börn með fulltingi dómstóla. Hér er kynbundinn munur á viðbragðsflýti hins opinbera sláandi.

Réttur foreldra til upplýsinga um barn

Í 52. gr. barnalaga er fjallað um rétt foreldra til upplýsinga um barn sitt. Orðrétt segir:”Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá frá hinu upplýsingar um hagi þess, þar á meðal varðandi heilsufar þess, þroska, dvöl á leikskóla, skólagöngu, áhugamál og félagsleg tengls. Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá upplýsingar um barnið frá leikskólum, skólum, sjúkrahúsum, heilsugæslum og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Réttur samkvæmt þessari málsgrein felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris.”

Staðreyndin er sú að forsjárlaust foreldri hefur aðeins heimild samkv. greinargerð / viðauka með þessum barnalögum til að fá MUNNLEGAR upplýsingar um barn sitt. Það er með öðrum orðum ekki talið varða hagsmuni harnsins að báðir foreldrar sitji að sömu upplýsingum um barn sitt td. vegna árangurs í skóla os.frv. Slík ráðstöfun er með öllu óásættanleg og samrýmist engan veginn sameiginlegri ábyrgð foreldra á uppeldishlutverki sínu til að hafa hag barns sem mestan og vera virkur þátttakandi í lífi þess og uppvexti. Meginreglan verði sú að báðir foreldrar sitji að sömu upplýsingum um börn sín frá opinberum stofnunum, enda hafa báðir foreldrar sömu framfærsluskyldu.

Varla á að þurfa að færa rök fyrir því hversu mikilvægt það er að báðir foreldrar sitji við sama borð þegar kemur að upplýsingum um börn þeirra frá opinberum stofnunum. Nægir þar að nefna skólagöngu, heilsufarsupplýsingar ofl. Sem varða beina hagsmuni barns og mikilvægi þess að báðir foreldrar séu meðvitaðir um gang mála. En slíkar upplýsingar liggi ekki hjá öðrum aðilanum og undir honum komið hverju hann miðlar eða hvort.

Varðandi flutning á barni úr landi. (1 mgr 68 gr í þskj 294-279. )
Forsjáraðili (mæður) geta auðveldlega flutt með barn/börn úr landi, sérstaklega ef forsjá er ekki sameiginleg.. Ákvörðun móður um að fara með barn úr landi hafa eftirfarandi afleiðingar fyrir föður og barn:
a) samvistir barns við föður verða strjálar og stundum rofnar þetta samband
b) faðir hefur áfram framfærsluskyldu sem miðast við íslenskar aðstæður, jafnvel þó móðir búi í “ódýrari” landi eða land þar sem meðlög eru lægri.
c) Flutningur úr landi eykur kostnað við samvistir verulega en kostnaður vegna samvista er að mestu forsjárlausa aðilans sbr 2 mgr 46 gr barnalaga
d) Á Íslandi eru heimsins hæstu lágmarksmeðlög og staða meðlagsgreiðenda víða bágborin.
e) Flutningur úr landi er því oftast ákvörðun móðir, sem getur leitt til mikils útgjaldauka fyrir föður til að viðhalda sínu fjölskyldusambandi við barnið, ásamt því að aukar stórkostlega hættuna fyrir tengslarof barns og föður.

Við flutning barns úr landi er mikilvægast að tryggja að barn og faðir geti áfram notið ríkra samvista. Félag ábyrgra feðra telur eðliegt að hægt sé að semja svo um að meðlagsgreiðslur séu að hluta eða alfarið nýttar til að tryggja rétt barnsins til heimferðar. Ferðakostnaður ætti að skilgreinast sem hluti af framfærslu og vera sameiginlegur. Það er óeðlilegt að móðir geti flutt barn úr landi, fengið sama fjárstreymi frá föður til sín, og það leiðir jafnvel til að ekki er ráðrúm á að tryggja samvistir barns við föður.

Feðrunarreglur (10 gr barnalaga).
Ef gift kona verður ófrísk og hún kennir manni sínum barnið þrátt fyrir að allar líkur séu á að hann sé ekki réttur faðir, þá á réttur faðir ekki lagalegan rétt á að sækja um faðernisviðurkenningu sbr 10 gr barnalaga, vegna þess að móðir hefur feðrað barnið. Hér er réttur barns til réttrar faðerinsviðurkenningar skertur og stenst ekki alþjóðlega sáttmála sem Ísland er aðili að sbr Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna.

Sæðisgjafar. þskj 374-340 mál
Félag Ábyrgra Feðra fagnar almennt bættri réttarstöðu samkynhneigðra. Hin líffræðilega staðreynd er hinsvegar sú að hvert barn á líffræðilegan föður og móðir.

Í Bretlandi hafa verið í gildi í nokkurn tíma lög eins og lagt er til hér, þ.e.börn getin með gjafsæði. Svo á barnið uppeldisforeldra, oft annað foreldrið blóðforeldri. Í Bretlandi hefur það gerst að þessi börn leita að uppruna sínum, leita hver þessi sæðisgjafi var, þ.e. hver er hin raunverulegi pabbi. Því hafa Bretar lögfest að öll börn sem getin eru með sæðisgjöf eiga rétt á að vita hver sæðisgjafinn er þegar þau verða 18 ára. Þetta hefur leitt til tímabundins minna framboðs á sæði, en við slík lög ganga sæðisgjafar að skýrum lögum að þessu leyti. Félag Ábyrgra Feðra telur eðlilegt að íslensk lög verði í samræmi við bresk lög að þessu leyti. Engin ástæða er að bíða þar til íslensk börn getin með gjaf sæði fari fram á að eiga þennan rétt.

Félag ábyrgra feðra telur að þegar barn er getið með tæknifrjóvgun með gjafsæð, þá eigi barn rétt á að vita hver sæðisgjafinn er, þegar barn er orðið 18 ára gamalt. Barnið hafi enga kröfu á sæðisgjafann aðra en þá að vita hver hann er og hvaða ætt er á bak við hann.

Skattalega staða forsjárlausra.
Forsjárlausir hafa sömu framfærsluskyldu gagnvart barni en mjög ólíka skattalega stöðu, m.t.t. skatta, barnabóta, húsaleigbóta ofl Þetta er viðfangsefni sem stjórnvöld þurfa að skoða og jafna stöðu þessar tveggja hópa. Þetta gæti hjálpað mörgum forsjárlausa manninum til að ná sérá strik, en það er engu samfélagi hollt að hafa kerfi eins og meðlagskerfið er hér sem steypir 53 % af skjólstæðingum í vanskil.

Meðlag og kostnaður
Í IX kafla barnalaga er fjallað um framfærslu barns. Það er ýmislegt sem benda má á um meðlagskafla þennan.
a) meðlag var ákveðið í núverandi mynd árið 1992 og verið uppfært síðan m.v. vísitölu neysluverðs.
b) Síðan þá hafa samvistir feðra við börn aukist mikið
c) Meðlagsfyrirkomulag tekur ekki tillit til samvista, ólíkt flest öllum okkar nágrannalöndum. Nýlega var maður dæmdur í aukið meðlag með dóttur sinni, en hún býr hjá honum 12 daga í mánuði og móðir hafði um 25% hærri ráðstöfunartekjur. Þetta er skólabókardæmi um hversu úrelt fyrirkomulag meðlagsgreiðslna er.
d) Hvergi í heiminum eru lágmarksmeðlög jafn há og hér á landi og munar tugum prósenta hér og á Norðurlöndum.
e) Kostnaður vegna samvista er alfarið þess foreldris sem barnið hefur ekki lögheimili hjá. Kostnaður við að sækja og skila barni á að skiptast að jöfnu milli foreldra eins og annar framfærslukostnaður
f) Það eru 12000 meðlagsgreiðendur á Íslandi, 97% karlar. Hvergi er kynbundinn munur meiri.
g) Af 12000 meðlaggreiðendum eru 53 % í vanskilum, eða 6000 manns, um 4000 manns eru í alvarlegum vanskilum. Aðfarabeiðnir eru á annað þúsund manns og gjaldþrota nokkur hundruð manns. Feður í fjárhagskröggum verða ekki stolt fyrirmynd barna sinna..

Það þarf að endurskoða meðlagskafla barnalaga frá grunni eins og annað í barnalögum. Markmiðið er að jafna stöðu foreldra, enda eru það bestu hagsmunir barns. Má bend á að í Noregi er nýtt fyrirkomulag meðlags og þeir hyggjast endurskoða það líka sjá http://www.abyrgirfedur.is/AT.asp?action=ViewItem&atID=360

NIÐURLAG.
Félag ábyrgra feðra telur nauðsynlegt að barnalög verði endurskoðuð í heild sinni. Þetta er málaflokkur í hröðum breytingum. Skipuð verði ný sifjalaganefnd, samsett af fagfólki með nútímaleg sjónarmið. Meginþema nýrra barnalaga verði að barn á ávallt rétt á sem jafnastri umönnum beggja foreldra óháð hjúpskaparstöðu foreldranna. Þannig verði ekki bara sameiginleg forsjá meginregla, heldur sameiginleg forsjá og JÖFN UMÖNNUN. Jafnréttisráðherra Noregs er að leggja slíkt til og ráðgerir að slíkt verði lögfest 2007. Í dag búa í Noregi 8% af skilnaðarbörnum hjá báðum foreldrum, sambærileg tala í Svíþjóð er 20%. Á Íslandi er ekki hægt að skrá börn til heimilis á tveimur stöðum og viðurkenna þá staðreynd að barn býr á tveimur stöðum þegar foreldrar búa ekki saman. Í Svíþjóð eru til rannsóknir sem ná til meira ein tveggja áratuga og sýna að börn sem njóta jafnrar umönnunar beggja foreldra spjara sig betur en önnur skilnaðarbörn. Jöfn umönnun er því að verða algengari og algengari, sjá http://www.abyrgirfedur.is/AT.asp?action=ViewItem&atID=259 í Svíþjóð og http://www.abyrgirfedur.is/AT.asp?action=ViewItem&atID=259 í Noregi.

Gagnger endurskoðun barnalaga er þörf og endurnýjun á fólki í Sifjalaganefnd nauðsyn. Það er bjargföst trú okkar í Félagi ábyrgra feðra að löggjafinn og stjórnsýslan verður að taka til í eigin ranni. Það er forsenda fyrir bættum hag barnanna okkar.

SAMEIGINLEG FORSJÁ OG JÖFN UMÖNNUN= FORELDRAJAFNRÉTTI ERU BESTU HAGSMUNIR BARNANNA OKKAR.

FORELDRAJAFNRÉTTI MUN LEIÐA TIL LAUNAJAFNRÉTTIS.

Stjórn FÁF.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0