Húsfyllir á ráðstefnu Félags um foreldrajafnrétti

Félag um foreldrajafnrétti hélt nýlega ráðstefnu á Hótel Loftleiðum undir yfirskriftinni „umgengnistálmanir og innræting eftir skilnað“. Húsfyllir varð og þurfti að opna yfir í næsta sal til að allir 200 gestirnir fengju sæti. Ljóst er því að vatnaskil eru að verða í umræðunni en fordómar, afneitun og stóryrði hafa einkennt umræðu um þá staðreynd að sumir foreldar komi í veg fyrir að barn fái að umgangast hitt foreldri sitt og stórfjölskyldu þess, þó að dómarar, sýslumenn og sérmenntaðir aðilar hafi sagt að svo skuli vera. Að nota börnin sem vopn eða skiptimynt í deilum við hitt foreldrið vegna óuppgerðra mála er málefni sem komið er á dagskrá og á sannarlega erindi inn í upplýsta umræðu á þessum erfiðleikatímum hjá mörgum fjölskyldum.

Félag um foreldrajafnrétti ákvað að halda ráðstefnuna vegna vaxandi umræðu á opinberum vettvangi í kjölfar greinar Dr. Gunnar Hrafns Birgissonar sálfræðingi síðastliðið haust. Í greininni gerði Gunnar lítið úr málflutningi þeirra sem telja að umgengnistálmanir séu raunverulegt og stóralvarlegt vandamál í mörgum brotnum fjölskyldum. Félag um foreldrajafnrétti ritaði Dómsmálaráðherra opið bréf í kjölfarið. Hjá sýslumannsembættunum starfa tveir sálfræðingar, Jóhann Loftsson og Gunnar Hrafn en þeir endurspegla vel þann ágreining sem er uppi um málefnið þar sem Jóhann sagði á ráðstefnu árið 2008 að „hnefarétturinn“ gildi í hörðustu umgengnisdeilunum. Sagði hann ennfremur að á ákveðnu tímabili hafi ásakanir um kynferðislegt ofbeldi komist í „tísku“ í sömu málum.

Það er mjög alvarlegt þegar fólk upphefur vísvitandi ósannar ásakanir um kynferðisofbeldi gegn barni. Þá sérílagi gagnvart barninu sjálfu sem í kjölfarið þarf að sæta ýmsum rannsóknum sem hægt hefði verið að hlífa því við. Svo ekki sé talað um hverskonar lítilsvirðing það er að gera slíkt gagnvart þeim sem raunverulega lenda í slíkum hryllingi sem kynferðisofbeldi er.

Meginástæða ráðstefnunnar er þó sú staðreynd að endurskoða á barnalögin á komandi vikum og liggur fyrir frumvarp í Dómsmálaráðuneytinu. Félagið telur eðlilegt að Alþingi fjalli um málið á fordómalausan hátt og meti hvort koma eigi með úrræði í lögum sem geta haft fælingarmátt gagnvart lögheimilisforeldrum sem freistast til að nota umgengni sem vopn í deilum við umgengnisforeldrið og réttlæti hegðunina með ásökunum sem ekki eiga við rök að styðjast.

Frummælendur voru 5 talsins og stóð ráðsstefnan í þrjár klukkustundir með líflegum umræðum milli erinda undir öruggri stjórn Davíðs Þórs Jónssonar guðfræðinema og útvarpsmanns.

María Júlía Rúnarsdóttir kynnti meistararitgerð sína í lögfræði um foreldrafirringu sem margir telja að einkenni hegðun sumra foreldra í tálmunartilfellum. Viljinn er þá einbeittur til að koma í veg fyrir umgengni barnsins við hina fjölskyldu sína. Börnin fá neikvæða innrætingu í garð foreldrisins og taka sjálf afstöðu gegn umgengni. Fór hún yfir íslensk dómsmál og bar saman við mál Soffíu Hansen en dætur hennar voru sviptar umgengni við móður sína á annan áratug af föður þeirra sem braut þannig ítrekaða dóma. Úrræðaleysið við einbeittum tálmunum virðist hið sama á Íslandi árið 2010 og í Tyrklandi árið 1990. Fjallaði hún um refsiramma og viðurlög annarra landa en víða í stórum lýðræðis- og réttríkjum eru foreldrar sendir í fangelsi fyrir ástæðulausar tálmanir, enda skilgreint sem andlegt ofbeldi gagnvart börnum. Skilgreiningu á andlegu ofbeldi er ekki að finna í íslenskum lögum og þótti fundarmönnum það alvarlegt mál. Niðurstöður Maríu Júlíu ættu allir þingmenn að kynna sér en hægt er að kaupa ritgerð hennar hjá henni sjálfri

.

Download (PPT, 2.08MB)


Bertrand Lauth barna og unglingageðlæknir fjallaði um áhrif skilnaðar á börn undir yfirskriftinni „viðskilnaður barns og foreldris – alvarlegar afleiðingar“. Þar kom fram að alvarleg einkenni depurðar og sorgar er tvöföld hjá skilnaðarbörnum og ítrekaði hann mikilvægi þess að deilur dragist ekki á langinn. Aðspurður í tengslum við umgengnistálmanir kvaðst Bertrand telja að andlegt ofbeldi hefði jafnvel meiri afleiðingar á börn en líkamlegt, sérstaklega ef það stendur í langan tíma. Í umræðum eftir erindið kom fram hjá fundarmönnum mikilvægi þess að stytta allan málsmeðferðartíma slíkra mála.


Download (PPT, 877KB)


Stefanía Karlsdóttir stóð að viðtalsrannsókn við tugi sérfræðinga í málaflokknum og voru niðurstöðurnar áhugaverðar. Könnuðust langflestir við hegðun þá sem kennd er við foreldrafirringu og höfðu flestir komið að slíkum málum. Fjallaði Stefanía einnig um falskar ásakanir sem er nánast óaðskiljanlegur fylgifiskur foreldrafirringar. Í viðtölunum koma fram að innan kerfisins eru tálmunarmál illa skilgreind og benda aðilar á hvern annan við meðferð þeirra, enda fylgja ekki fjármunir. Þannig þarf að skilgreina verksvið sýslumanna og barnaverndarembætta. Kom fram að kerfið er mjög „mæðradrifið“ og margar ólíkar birtingarmyndir á umgengnitálmunum þar sem lögheimilisforeldrið getur haldið hinu foreldrinu í einskonar gíslingu og því misnotað vald sitt yfir því sem hjartfólgnast er hverri manneskju – eigin börnum. Hægt er að nálgast skýrslu Stefaníu á Smiðjan – rannsóknir og gögn.

Download (PPT, 586KB)


Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur og formaður nefndar um endurskoðun barnalaga, fór yfir það sem vitað er um umgengnistálmanir. Sagði hún vandamálið sannarlega til en lagði út af því hversu flókin og margþáttuð þau væru. Lagði hún áherslu á nýja og stóraukna sáttameðferð sem er að finna í nýjum drögum að barnlögum, en ekki verður hægt að höfða mál nema hafa aflokið slíkri meðferð. Voru fundarmenn almennt sammála um mikilvægi þess að slík sáttameðferð færi fram eins snemma í ferlinu og mögulegt væri til að forða því að deilur vindi upp á sig.

Download (PPT, 535KB)


Þórhallur Heimisson, prestur, fjallaði um sína aðkomu að skilnuðum og þeirri staðreynd að foreldrar notuðu börnin sem vopn í deilum sín á milli. Ljóst væri að það foreldri sem valdið hefði gæti með óbeinum hætti náð fram ýmsum ávinningi, jafnvel peningalegum, með undirliggjandi hótunum um umgengnistálmanir. Þórhallur lagði áherslu á sáttameðferð og upplýsta umræðu. Ljóst væri þó að slíkt dygði ekki til ef einbeittur vilji væri fyrir hendi.


Eftir ráðstefnuna hefur Félag um foreldrajafnrétti farið ítarlega yfir þau gögn og umræður sem fyrir liggja. Hefur félagið lagt til við dómsmálaráðherra að sett verði í lög ákvæði um að dómarar geti í hörðustu umgengnistálmunum ákveðið að flytja lögheimili og forsjá barns til hins foreldrisins enda önnur úrræði fullreynd. Dómari verður að geta brugðist við enda væri þá ljóst að aðstæður barnsins væru óviðunandi og barnið í klemmu milli foreldra sinna og þannig þolandi andlegs ofbeldis til langs tíma ef ekki væri brugðist við til að höggva á hnútinn. Ljóst væri að heimildin ætti við í undantekningartilvikum og ráðstöfunin jafnvel tímabundin til 6-12 mánaða eftir aðstæðum. Meta þyrfti nokkuð öruggt að það foreldri sem fengi lögheimilið myndi virða þá umgengni sem dómarinn úthlutaði hinu foreldrinu sem áður hafði tálmað umgengnina. Félagið telur að slíkt ákvæði gæti haft mikinn fælingarmátt og væri einskonar neyðarráðstöfun dómskerfisins.

Dagsetning, 17. febrúar 2010

Stjórn Félags um foreldrajafnrétti.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0