Í ljósi þess að 95% barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum eiga lögheimili hjá móður þá skrifa ég þessa grein þannig að lögheimilisforeldrið er móðir og umgengnisforeldrið er faðir. Í 5% tilvika er því öfugt farið en þessi löngu orð lögheimilisforeldri og umgengisforeldri gera greinina ill lesanlega.

Er umgengnisréttur barns tryggður með sama hætti og réttur barns til framfærslu?

Þegar móðir fer fram á meðlag þá bregðast stjórnvöld hratt við og sjá um að koma meðlaginu til móður auk þess sem stjórnvöld sjá algerlega um alla innheimtu frá föður. Heilt embætti er starfrækt eingöngu um þennan rétt barnsins (Innheimtustofnun sveitarfélaga) sem hefur það eina hlutverk að innheimta meðlag frá foreldrum sem ekki fara með lögheimili barns. Annað embætti stjórnvalda (Tryggingarstofnun ríkisins) sér um að greiða meðlagið til mæðra með reglubundnum hætti. Stjórnvöld tryggja móður meðlag frá og með þeim degi sem móðir sækir um meðlagið og tólf mánuði þar á undan hafi móðir ekki búið með föðurnum þann tíma.

Standi faðir ekki í skilum, þá þarf móðir ekkert að koma að því máli. Stjórnvöld, í gegnum Innheimtustofnun sveitarfélaga, sjá um alla þá þjónustu án nokkurrar þóknunnar af hendi móður. Móðir verður ekki vör við vanskil föður þar sem Tryggingastofnun ríkissins sér um að móðir fá sínar greiðslur burt séð frá skilvísi föður.

Stjórnvöldum er annt um rétt barns til framfærslu og sjá til þess að tryggja þeim þennan rétt og stjórnvöld leggja ekki þær byrgðar á mæður að þurfa að standa í kostnaðarsömum innheimtuaðgerðum í eigin nafni gegn feðrum.

Þegar faðir leggur fram kröfu um að umgengnisréttur barns sé virtur gegnir hins vegar öðru máli. Stjórnvöld hafa ekkert embætti (Umgengnisstofnun sveitarfélaga) sem sinnir þessum rétti barnsins. Það nægir ekki að faðir komi einu sinni og krefist þess að móðir virði rétt barnsins. Stjórnvöld grípa ekki inn í nema faðir komi ítrekað og sé tilbúið að leggja fram allar kröfur í eigin nafni og tilbúinn að standa í ómældum kostnaði vegna málsins.

Fyrst þarf faðir að krefjast þess að móðir verði beitt dagsektum. Dagsektirnar eru innheimtar í nafni föður en peningarnir renna til stjórnvalda. Öfugt við meðlagið sem er innheimt í nafni stjórnvalda en rennur til móður. Þrátt fyrir að dagsektir séu innheimtar í nafni föður þá stjórna stjórnvöld því hvenær innheimtuaðgerðir hefjast. Þá er ekki þessi réttur með frá þeim degi sem krafan kemur fram eins og með meðlagið heldur geta stjórnvöld tafið það töluvert lengi að leggja á dagsektir.

En af hverju eru dagsektir innheimtar í nafni föður en ekki stjórnvalda eins og meðlag?

Ef dagsektir eru innheimtar í nafni föður þá kemur það alveg skýrt fram á innheimtubréfi sem móðir fær á heimili barnsins að faðirinn er að minnka fjárráð heimilisins. Móðirin getur sýnt barni sínu það svart á hvítu að faðirinn ber ábyrgð á slæmri fjárhagsstöðu heimilisins. Þannig stuðla stjórnvöld að því að barnið verði fráhverft föður sínum og hætti að vilja hitta hann.

Stjórnvöld passa upp á að feður geti ekki beitt sömu brögðum á börn sín varðandi meðlagskröfur. Þannig er meðlag ávallt innheimt í nafni stjórnvalda og innheimtubréf send á vinnuveitanda en ekki á heimili föður.

Stjórnvöld tryggja ekki barni rétt til umgengni frá þeim degi sem sótt er um eins og þegar sótt er um meðlag. Eftir að faðir fer fram á dagsektir getur liðið langur tími þar til sýslumaður sendir innheimtukröfuna frá sér og frá þeim degi þurfa að lýða 100 dagar áður en stjórnvöld eru tilbúin að leyfa næsta skref.

Ef móðirin borgar ekkert í 100 daga þá gerist ekkert nema það að faðirinn fær leyfi til að krefjast fjárnáms í eigin nafni á hendur móður. Ef faðirinn gerir ekki kröfuna, þá gera stjórnvöld það ekki. Fjárnámsbeiðni getur mjög auðveldlega falið það í sér að heimili barnsins verður sett á nauðungarsölul í nafni föður. Geri faðirinn hins vegar ekki kröfu um fjárnám þá fyrnast dagsektir á einu ári á meðan ógreitt meðlag fyrnist aldrei.

Ef faðirinn er tilbúinn að sækja rétt barnsins áfram þá verður hann að krefjast fjárnáms. Aftur senda stjórnvöld bréf í nafni föður á heimili barnsins.

En af hverju er fjárnám á hendur móður sem ekki stendur í skilum með dagsektir gert í nafni föður á meðan fjárnám á hendur föður sem ekki stendur í skilum með meðlag gert í nafni stjórnvalda?

Sömu ástæður og áður. Móðirin fær það á bréfi að það er á ábyrgð föðurins að heimilið er undir hamrinum. Þetta getur móðirin sýnt börnum sínum og gert þau fráhverf föður sínum. Hverskonar faðir tekur heimilið af börnunum sínum? Þannig stuðla stjórnvöld að því að börn sem búa við tálmunarofbeldi af hendi móður verði fráhverf föður sínum og vilji að endingu ekki hitta hann.

Standi faðirinn ekki í skilum með meðlagsgreiðslur þá er fjárnám ekki gert í nafni móður. Stjórnvöld sjá um slíkar aðgerðir án aðkomu móður og þannig koma stjórnvöld í veg fyrir að feður geti beitt sömu brögðum gegn börnum sínum og tálmunarmæður geta gert.

Loks af afloknu fjárnámi er hægt að fara að hugsa um aðgerðir til að koma á umgengni. Þá er í það minnsta ár liðið frá því faðir mætti til að fara fram á að umgengnisréttur barns yrði virtur. Barnið orðið ári eldra og móðirin búin að hafa nógan tíma til að ota að barninu níðandi upplýsingum um föður þess. Nógur tími fyrir tálmunarmóður til að sýna barni hversu mikla fátækt faðir þeirra er að setja þau í.

Vilji faðir enn sækja rétt barnsins til umgengni þarf hann að höfða innsetningarmál fyrir dómstólum með tilheyrandi kostnaði og vitandi það að eingöngu yrði um nokkra daga umgengni að ræða og að fjölmiðlamál yrði gert úr málinu þar sem umgengnin eru gerð vafasöm.

Til að fara alla þessa leið til að sækja rétt barns til umgengni þarf miklu meira en venjulegan pabba. Til þess þarf sannkallaða hetju með stórt hjarta og fullt af peningum.

Á Íslandi eigum við einn slíkan. Einn faðir hefur farið yfir allar hindranir stjórnvalda til að sækja rétt barnsins síns til fjölskyldu sinnar.

Það er ekki einu sinni hægt að segja að stjórnvöldum sé sama um réttindi barna til að þekkja fjölskyldu sína. Stjórn völd vinna markvisst á móti þessum grundvallar mannréttindum barna.

-HH

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0