Um samskipti samofinna fjölskyldukerfa

Í gegnum sögu mannkynsins hafa þeir einstaklingar sem eru blóðtengdir haft meira vægi hverjir fyrir aðra en einstaklingar sem ekki eru blóðtengdir nema um giftingu sé að ræða. Stórfjölskyldur eru félagsleg kerfi blóðtengdra einstaklinga og í þjóðfélagi okkar er það nokkuð skýrt hvaða einstaklingar tilheyra hvaða stórfjölskyldu.

Þannig getum við skoðað samfélagið út frá slíkum kerfum þar sem hver kjarnafjölskylda, það er að segja móðir, faðir og barn, er grunneining sem raðast inn í stærri fjölskyldukerfi sem við köllum stórfjölskyldu. Í dag erum við með töluvert breytta mynd frá því sem áður var því nú lifir kjarnafjölskyldan næsta áháð kynslóðunum á undan og mikið til óháð stórfjölskyldunni. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi á Íslandi og í öðrum vestrænum löndum. Þessi litla eining innan stórfjölskyldunnar, kjarnafjölskyldan, hefur losnað að miklu leyti úr samhengi stórfjölskyldunnar og siglir eins og ein á báti um samfélagið. Einstaklingurinn þarf því að treysta meira á sjálfan sig og sjálfs sín sannfæringu en á þá að sama skapi erfitt með að leita í þekkingar- og reynslusjóð stórfjölskyldunnar.

Í hugum flestra er frumeiningin, fjölskyldueiningin, samsett af móður, föður og börnum þeirra.

merkir karl/drengur
merkir kona/stúlka

Mynd 1

Þegar við tölum um kjarnafjölskyldur þá erum við oftast með þessa mynd í huga. Við lítum á hana sem grunneiningu og eins konar staðalmynd fyrir það sem við stundum köllum hornstein samfélagsins. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að þessi grunnstaðaleining er ekki alveg svona einföld. Þessi grunnstaðaleining einkennist í mjög mörgum tilfellum af því að inni í einingunni er barn/börn annars hvors foreldris frá fyrri hjónaböndum eða samböndum og jafnframt að einhvers staðar á sveimi í kringum fjölskylduna eru líka börn annars hvors foreldrisins sem ekki búa innan fjölskyldueiningarinnar.

Mynd 2
Samofið fjölskyldukerfi:
Kona og karl, sem eiga tvö börn saman, eiga til viðbótar tvö börn hvort um sig frá fyrra sambandi.

Hverjir búa innan einingarinnar og hverjir ekki? Við hjónaskilnað, þar sem barn er í fjölskyldunni, er það ákvörðun foreldranna hjá hvoru þeirra það lendir. Í flestum tilfellum lendir barnið hjá móður sinni, en faðirinn fer út úr einingunni. Þetta verður svo grunnurinn að töluverðum átökum seinna meir þegar fráskilinn faðir og móðir fara að mynda nýjar kjarnafjölskyldur, með nýjum mökum. Við það skapast ástand þar sem taka þarf afstöðu til samskipta foreldranna við barnið.

Mynd 3
Hinar tvær nýju fjölskyldur fráskilinna hjóna sem áttu einn dreng saman.
Karlinn hefur tekið saman við konu og átt með henni pilt, en hún hefur jafnframt forræði pilts og stúlku frá fyrra sambandi. Konan fer með forræði drengsins þeirra og á tvær dætur með nýjum manni. Á milli þessara fjölskyldna á sér stað margháttuð togstreita.

Samkvæmt nýju skilgreiningunni, nýju stöðunni, tilheyrir hann nú nýrri einingu án þess að börnin hans séu þar með. Þetta skapar oft gríðarleg átök innan fjölskyldna þar sem faðirinn vill helst að börnin hans tilheyri þeirri nýju kjarnafjölskyldu sem hann er að búa til.

Það er að sjálfsögðu blekking ef hann reynir að ímynda sér að börnin hans tilheyri nýju fjölskyldunni hans þar sem þau eru búsett í annarri einingu með öðrum hjónum sem stjórna aðstæðum. Börnin hans verða eingöngu gestir í nýju einingunni hans. Þessi blekking leiðir oft til þess að faðirinn sendir frá sér tvöföld skilaboð til seinni maka síns og jafnframt fyrri maka. Hann sendir þau skilaboð að svo sannarlega erum við að byggja upp ákveðna einingu saman en börnin mín eiga að eiga sess þar inni líka. Þetta leiðir svo gjarnan til þess að fjárstreymi og orkustreymi verður út úr kerfinu til barna hans frá fyrra hjónabandi án þess að nýi makinn fái þar nokkru um ráðið. Við þetta verður orkutap í nýju einingunni sem skapar átök og baráttu milli hjónanna um það í hvað miklum mæli orka og fjármunir eiga að fara út úr kerfinu og hveru mikla orku og fjármuni eigi að nota inni í kerfinu til að sinna þeim börnum sem þar eru.

Þessi skekkja, þegar fjármagn og orka renna út úr kerfinu yfir í eitthvert annað kerfi sem ekki er á svæðinu, veldur togstreitu bæði í fjölskyldunni sem viðkomandi maður er staddur í og líka í hinni fjölskyldunni sem orkan og peningarnir renna inn í. Þetta orkustreymi leiðir oft til þess að karlmaðurinn í því kerfi er ósáttur við íblöndun utan frá og gerir það að verkum að hann fjarlægist oft börnin þar sem hann uplifir að hann fái ekki að taka þátt í stjórnun þeirrar einingar sem hann er staddur í. hann upplifir að viðkomandi móðir stjórni ferðinni og að hann sé einhvers konar nytjahlutur sem taki þátt í því að vera ofurseldur inngripi annars staðar frá, það er að segja frá öðrum karlmanni í öðru kerfi.

Konan upplifir að hún sé ofurseld togstreitu frá öllum aðilum. Hún sé ofurseld núverandi maka með að halda þannig á spilunum að hann sé ekki leiður og reiður. Hún þarf líka að sjá til þess að fyrrverandi maki haldi sig á skikkanlegum nótum og jafnframt gæta þess að barninu sé fullnægt og því ekki hafnað af báðum aðilum.

Samofið vandamál
Hræðsla konunnar við að verða vonda stjúpan gagnvart börnum mannsins frá fyrra hjónabandi gerir það að verkum að fyrst til að byrja með styður hún mann sinn í að láta orku og fjármuni renna til annars kerfis. Seinna meir, þegar hún upplifir að núverandi kerfi er látið sitja á hakanum, á hún erfitt með að snúa við blaðinu og fara fram á að aþessu fjár- og orkustreymi séu sett eðlileg mörk.

Staðan í svona kerfum verður því oft mjög flókin og erfitt að taka á vandamálunum sem oftast eru uppsöfnuð sambúðarvandamál allt að sex fullorðinna einstaklinga og samofin sambúðarerfiðleikum þriggja kjarnafjölskyldna, þ.e.a.s. gömlu fjölskyldunni, nýju fjölskyldu mannsins og nýju fjölskyldu konunnar. Faðirinn á erfitt með að horfast í augu við að hann er búinn að missa börn sín yfir í aðra kjarnafjölskyldu. Þessi sorg og missir forsjárlausra foreldra er sjaldnast til umræðu opinberlega og þeir eiga flestir í miklum erfiðleikum með að horfast í augu við hana og vinna sig frá henni. Hinn forsjárlausi faðir á því mjög erfitt með að skilgreina nýju fjölskylduna sína og horfast í augu við að börnin hans tilheyra henni ekki.

Móðirin, sem hefur misst föður barna sinna, þarf jafnframt að skilgreina kerfi sitt þannig að börnin tilheyra hennar nýju fjölskyldu og þar er það ekki blóðfaðir barna hennar sem er forsjárforeldrið, og jafnframt að fósturfaðirinn hefur meira yfir barninu að segja dagsdaglega en blóðfaðirinn. Hún þarf því ef hún vill byggja upp nýja einingu að deila valdinu yfir barninu með öðrum en blóðföður þess.

Hvað er til ráða?
Hvað er svo til ráða þegar öll keðjan logar af pirringi og vansæld út af ruglingslegum skilaboðum? Fyrsta skref einstaklinganna við slíkar aðstæður er að skilgreina hver er staddur í hvaða kerfi og vinna sig í gegnum sorgina yfir að börnin hans tilheyra ekki kjarnafjölskyldunni hans.

Skilgreina þarf:

Hvaða kerfi er verið að byggja upp?
Hverjir stjórna innan þess kerfis?
Hvernig er sambanið milli hjónanna sem stjórna kerfinu?
Út frá hvaða forsendum eru ákvarðanir um börnin teknar?
Hvernig taka hjónin ákvarðanir?
Hversu mikla orku á að nota innan kerfisins og hversu mikil orka á að fá að streyma út úr kerfinu?

Ef kerfinu er ekki lokað þannig að sífelld íblöndun fyrri maka raskar ró þess getur þessi nýja fjölskyldueining aldrei náð því jafnvægi og þeim friði sem nauðsynlegur er til að ný kjarnafjölskylda geti boðið börnunum öryggi og aga svo þau dafni og nýti hæfileika sína til fullnustu.

Jóhann Loftsson

Höfundurinn Jóhann Loftson lauk embættisprófi í sálfræði við Árósaháskóla 1980. Síðustu 14 árin hefur hann rekið eigin sálfræðistofu.

Upphaflega prentað í Athöfn. Tímarit leikskólakennara, 1.tbl. 31. árg. maí 1999. Útg. Félag íslenskra leiksólakennara. Rvík.
Greinin er birt á vef Félags ábyrgra feðra (http://www.abyrgirfedur.is/) með góðfúslegu leyfi höfundar.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0