Um 20 fíklar hafa látist frá börnum sínum á 12 mánuðum í Reykjavík.

 

Nær eingöngu er um að ræða mæður og ávallt forsjárforeldri. Sagt er frá þessu í frétt á mbl.is í dag.

 

Athygli vekur að meira er gert úr því að við þessar aðstæður fá feður sjálfkrafa forsjá barna sinna en þeirri hörmung að þessir fíklar fóru með forsjá barna sinna.

 

Haft er eftir Halldóru Gunnarsdóttur, framkv.stjr. Barnaverndar Reykjavíkur að „Daginn sem móðirin deyr verður faðirinn forsjáraðili, með öllum þeim skyldum og réttindum sem því fylgir,” og hún bendir á að málin flækist enn frekar sé stjúpforeldri til staðar, sem ekki hafi verið skráð í sambúð með móðurinni. Slíkt foreldri, sem jafnvel hefur alið barnið upp, á þá engan lagalegan rétt, hvorki umgengnisrétt né annað, við fráfall móðurinnar. „Þetta eru mjög viðkvæm og flókin mál,” segir Halldóra.

 

Halldóra vísar í lögbundin réttindi forsjárlausra foreldra sem tryggi þeim rétt til barna sinna falli forsjárforeldri frá.  Halldóra fer með rangt mál og hún á að vita betur.

 

Hún minnist ekki á 2.mgr. 30.gr. barnalaga sem segir:
“Nú hefur annað foreldrið farið með forsjá barns og fer
þá stjúpforeldri eða sambúðarforeldri, sem einnig hefur farið
með forsjána, sbr. 3. mgr. 29. gr., áfram með forsjá eftir
andlát forsjárforeldris.”

 

Stjúpforeldri verður ekki til fyrr en foreldri er komið í sambúð með maka. Þegar stjúpforeldri hefur verið það lengi til staðar að hægt sé að segja að það hafi alið upp barnið þá má ætla að um meira en árs sambúð hafi verið að ræða.

 

Við þær aðstæður hefur stjúpforeldrið allan réttinn og forsjárlausa foreldrið engan. Við andlát forsjárforeldris gengur forsjáin sjálfkrafa til stjúpforeldris.

 

Ef Barnavernd í Reykjavík hefur áhyggjur af þessum réttindum stjúpforeldra, þá gætu þeir hæglega komið þessum upplýsingum á framfæri inn á þessi heimili sem þeir eru að hafa afskipti af.

 

Einnig virðist vera gengið út frá því í þessari frétt að forsjárlausir feður séu vanhæfir, aðeins sé spurning um hvort meint vanhæfi þeirra hafi verið tilkynnt eður ei. Hún minnist ekki á þá staðreynd að á Íslandi fara foreldrar stundum einir með forsjá barns á þeirri einu forsendu að það vill ekki að hitt foreldrið eigi hlutdeild í henni.

 

Það að vera forsjárlaus á Íslandi hefur ekkert með forsjárhæfni að gera.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0