Mál frá 1-15 júní 2008 til Félagsins.

Vöntun á dómaraheimild á Íslandi býr til sívaxandi vandamál.

1. Evrópskur faðir býr á Íslandi vegna þess að hann á barn hér sem hann hefur hefðbundna umgengni við. Foreldrarnir hafa haft sameiginlega forsjá nú í 3 ár. Íslensk barnsmóðir hans hefur nú hafið forsjárdeilu og óskar eftir því að fá forsjána ein. Hún hefur átt í sambandi við annan erlendan mann núna í 9 mánuði og telur faðirinn öruggt að ástæðan fyrir málshöfðuninni sé sú að sleppa undan ákvæðum sameiginlegu forsjárinnar og geta flutt með barnið til heimalands hans. Evrópski faðirinn ætlar að berjast í málinu enda finnst honum eins og að hann sé að missa af barninu sínu. Ef hann missir sameiginlegu forsjána hér, ætti hann erfitt með að flytja á eftir þeim til að viðhalda tengslum við barnið,  þar sem þar yrði hann réttlaus. Hann klökknar í símanum undan óréttlætinu og segir að þessi staða gæti aldrei komið upp í heimalandi sínu.

Dómari myndi að öllum líkindum dæma foreldrana í áframhaldandi sameiginlega forsjá, enda varla hagsmunir barnsins að móðirin flytji með barnið til útlanda. Dómari myndi sjá í gegnum málatilbúnaðinn þ.e. að raunverulegur tilgangur málsins væri að losna undan ákvæðum sameiginlegrar forjsár. Ákvæðið var sett inn af löggjafanum til þess að gæta hagsmuna allra aðila í málinu. Líklegra yrði að telja að hagsmunir barnsins liggi frekar í því að móðirin flytji til einhvers tíma til útlanda en barnið yrði eftir hjá föður sínum og stórfjölskyldu móðurinnar.

2. Maður á tvö börn og hefur haft umgengni við þau í nokkur ár frá fimmtudegi eftir skóla til mánudags, aðra hvora viku, eða 4- 5 daga af hverjum 14, ásamt 6 vikum á sumri og öðrum fríum skipt. Forsjáin hefur verið sameiginleg og gekk mjög vel fyrstu árin. Maðurinn hóf sambúð fyrir ári síðan og hefur samkomulagið versnað síðan, „pirringur vegna smámála eins og þegar föt gleymast “. Móðirin hefur nú stofnað til forsjárdeilu. Í rifrildi í síma í byrjun júní kom fram hjá móður að hún ætlaði að sækja um tvöfalt meðlag eftir að hún væri búin að rifta sameginlegu forsjánni. Maðurinn hefur 470 þúsund í brúttólaun á mánuði samkvæmt skattaskýrslu fyrir tekjuárið 2007 og rúmlega 300 þús útborgað. Konunni mun örugglega takast ætlunarverkið þar börnunum líður mjög vel hjá móður. Maðurinn mun þá þurfa að greiða  aukameðlag fyrir bæði börnin, enda hefur hann tekjur yfir því marki sem til þarf. Það aukameðlag með 2 börnum er tæp hálf milljón á ári eða ein milljón samtals í meðlög. Þar með þarf maðurinn að borga um 25% af ráðstöfunartekjum sínum í meðlög ásamt því að vera með börnin hjá sér u.þ.b. 35% tímans. Móðirin fær samtals um milljón í meðlög á ári (skattfrjálst) og rúmlega 400 þús kr í barnabætur eða 1,4 milljónir nettó á ári fyrir að hafa börnin hjá sér 65% af tímanum. Faðirinn skilur ekki í því að þetta sé hægt.

Dómari myndi að öllum líkindum dæma foreldrana í áframhaldandi sameiginlega forsjá ef slíkt mætti hérlendis.  Dómari myndi ekki sjá að það væru hagsmunir barnanna að fara úr forsjá föður. Greiðslur til handa móður frá föður annarsvegar og ríkinu hinsvegar eru ekki í neinu samræmi við raunveruleikann. Snúa mætti málinu við og spyrja hvort móðir myndi vilja vera með börnin 35% af tímanum í stað 65% af tímanum og greiða 1 milljón á ári í meðlög – samhliða því að missa 400 þúsund í barnabætur.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0