Ása María Björnsdóttir-Togola fjallar um ofbeldi gegn börnum og hlaup í þágu barna: “Tökum höndum saman 8. júlí og styðjum gott framtak með okkar framlagi hvort heldur það er fjárhagslegt og eða með þátttöku í hlaupinu.”

Þú ert ljósið í óttanum,
þú ert vonin sem lifir,
þegar neikvæðar hugsanir
óæskilegrar reynslu
sækja á mig
og vilja yfirtaka
styrk minn.
Trúin á réttlæti
veitir lífi mínu tilgang
og gefur mér kjark
til að vera til.

HINN 8. júlí nk. verður hlaupið í þágu barna. Boot Camp-þjálfararnir hlaupa fyrir forvarnarverkefnið Blátt áfram. Hlaupið, sem er 100 km frá Hellu til Reykjavíkur, er áheitahlaup og er ætlað að vekja athygli almennings á mikilvægum rétti barna að hljóta áhyggjulaus uppvaxtarár, án kynferðislegs ofbeldis.

Blátt áfram eru sjálfstæð félagasamtök og tilgangur þeirra að efla forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum.

Ábyrgðin í höndum fullorðinna
Lítið barn er háð fullorðnum, allt frá fæðingu og þar til það nær þroska og aldri til að sjá um sig sjálft. Börn þurfa á sama tíma á ást og öryggi að halda til að dafna eðlilega og vera hamingjusöm og óttalaus.
Verði barn fyrir áföllum í uppvextinum, hvort heldur þau eru líkamleg, andleg eða kynferðisleg, er hætta á að það marki einstaklinginn/barnið að eilífu.

Ofbeldið rænir barnið áhyggjulausum gleðidögum og umbyltir lífi þess í hrollvekju af verstu tegund. Kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi jafnt sem andlegt ofbeldi skaðar barnssálina og myndar sár sem kannski aldrei gróa. Saklaust barn sem á að fá ást, virðingu og umhyggju, en hlýtur í stað þess ofbeldi, tapar áttum og skynjun þess á að meta einfalda hluti eins og muninn á góðu eða vondu atlæti hverfur.

Ofbeldi skapar ranghugmyndir
Við fæðingu er barnssálin einföld en umbreytist og aðlagast í sífellu að breyttum aðstæðum og aukinni þekkingu barnsins eins og falleg rós sem springur út. Barn þarf stuðning foreldra/fullorðinna til að þroskast, þegar sá stuðningur er veittur í formi ofbeldis og misbeitingar er hætta á að barnið eigi erfitt með að fóta sig á lífsleiðinni. Því gengur illa að skilja sjálft sig og nær jafnvel ekki tengslum við samfélagið og verður útundan.
Svíki einstaklingur á þennan hátt barn sem lítur upp til hans, treður sá hinn sami á rétti barnsins í ljósi yfirburða sinna sem fullorðin. Barnið fyllist ranghugmyndum um ástina, lífið og traust almennt. Börn hafa ekki þroska til að skilja að þau eru ekki sek um neitt og að þeim beri ekki að þola brenglaða ofbeldishegðun sem beitt er gagnvart þeim. Né beri þeim skylda að þóknast kynórum sjúkra einstaklinga í kring um sig.

Með kúgun eru börnin gerð að þátttakendum í ofbeldinu þar sem þau mega ekki segja frá. Þau skynja að ofbeldið er rangt en þora ekki, af hræðslu við gerandann, að segja frá því. Möguleikar þeirra til að bregðast við eru þannig eyðilagðir og barnið festist í vítahring.

Allt ofbeldi gegn börnum er glæpur
Ofbeldi gagnvart barni, í hvaða formi sem það er, er glæpur. Að ræna barn hamingju þess, áhyggjuleysi, öryggi, ást og umhyggju er eins og skipulagður glæpaverknaður og ætti að meðhöndlast sem slíkur af hálfu yfirvalda gagnvart meintum ofbeldismanni. Barnið á að hafa fullan rétt á að fá geranda glæpsins dæmdan ábyrgan fyrir verknaðinn hvenær sem er á lífsleiðinni. Glæpir af þessu tagi ættu ekki að viðgangast og að sama skapi ekki að fyrnast.
Félagasamtökin Blátt áfram hafa það að sjónarmiði að vekja fólk til umhugsunar um að standa vörð um verndun og réttindi barna hvar sem er, bæði sinna eigin og nágranna sinna.

Ef við, hin fullorðnu, höfum einhvern grun um að lítið barn búi við slíka kúgun og misþyrmingu ber okkur skylda til að upplýsa það tafarlaust réttum aðilum. Enginn á það skilið að alast upp við ótta, kvíða, hræðslu og óöryggi. Hvorki mitt barn né þitt.

Tökum höndum saman 8. júlí og styðjum gott framtak með okkar framlagi hvort heldur það er fjárhagslegt og eða með þátttöku í hlaupinu. Nánari upplýsingar er að fá á heimasíðu forvarnarverkefnisins, www.blattafram.is

Ása María Björnsdóttir-Togola fjallar um ofbeldi gegn börnum og hlaup í þágu barna
Höfundur er nemi í næringarfræði.
Föstudaginn 7. júlí, 2006 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0