Skilnaður er aldrei auðveldur fyrir börn, en það er margt sem foreldrar geta gert til að draga úr áhrifum sambúðarslitanna á börnin sín.

1. Gerðu aldrei lítið úr fyrrverandi maka fyrir framan börnin. Börnin vita að þau eru „að hluta mamma“ og „að hluta pabbi“ og því getur gagnrýnin skaðað sjálfsmat barnanna.

2. Notaðu börnin ekki sem sendiboða milli þín og fyrrverandi maka. Því minna sem börnunum finnst þau lenda í baráttunni milli foreldranna, því betra.

3. Gerðu börnunum ljóst að þú elskir þau og að þau eigi enga sök á skilnaðinum. Mörg börn halda að það sé þeim að kenna að foreldrarnir sé nú fjandmenn.

4. Hvettu börnin til að hitta fyrrverandi maka þinn oft. Gerðu allt sem þú getur til að auðvelda þeim umgengnina.

5. Í gegnum allt skilnaðarferlið skaltu minna þig á að hagsmunir barnanna – en ekki þínir eigin – skipta öllu máli, og hegðaðu þér samkvæmt því. Láttu þau njóta kærleika þíns við sérhvert tækifæri.

6. Börnin þín freistast kannski til að þykjast vera að annast þig. Þessa freistingu verður þú að standast. Sæktu ráð til jafnaldra þinna, fullorðinna meðlima fjölskyldunnar og sálræktarfólks og ræddu málin við þau. Leyfðu börnunum að vera börn.

7. Ef þú átt við áfengis- eða vímuefnavanda að glíma skaltu strax leita þér lækningar. Hömlun af þessum toga dregur úr hæfni þinni til að styrkja börnin og veita þeim þá athygli sem þau þurfa á þessum erfiðu tímum.

8. Ef þú ert forsjárlaust foreldri skaltu borga meðlagið þitt. Tekjumissir sá sem mörg börn standa frammi fyrir eftir skilnað kemur þeim í viðkvæma stöðu sem hefur margvísleg áhrif á líf þeirra það sem eftir er.

9. Ef þú ert forsjárforeldri og þú færð ekki meðlagið, skaltu ekki segja barninu þínu það. Það kemur þeirri hugmynd inn hjá barninu að því sé hafnað og veldur því ugg og kvíða.

10. Sé þess kostur skaltu ekki skipta um umhverfi með börnum þínum. Stöðugleiki í búsetu og skóla eflir börn gegn skaðlegum áhrifum skilnaðarins.

Sótt og þýtt af vef Samtaka bandarískra hjúskaparlögmanna: http://www.aaml.org/

© þýðing: Félag ábyrgra feðra

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0