Það er fremur kostulegt að lesa frásögn í Morgunblaðinu í fyrradag af úttekt Friðgeirs Björnssonar, héraðsdómara í Reykjavík, á úrskurðarnefndum ríkisvaldsins, sem hann vann í námsleyfi sínu í fyrra. Dómarinn “fann” sextán opinberar úrskurðarnefndir, sem vantaði upp á í svari forsætisráðuneytisins til tveggja þingmanna, sem spurðust fyrir um nefndir af því tagi vorið 2004.

Tölur dómarans og ráðuneytisins eru reyndar ekki alveg sambærilegar og ekki víst að ráðuneytið hafi gleymt svona mörgum nefndum, því að svar ráðuneytisins náði t.d. ekki til nefnda, sem á að skipa samkvæmt lögum en hafa aldrei verið skipaðar eða þá ekki lengi! Hitt er svo annað mál að dómarinn getur ekki svarið fyrir að fleiri nefndir séu til en hann hafði upp á – því að þær “leynast víða og láta sumar lítið yfir sér”.

Það er verulegt umhugsunarefni að enginn einn aðili í stjórnsýslunni skuli hafa yfirsýn yfir það hvaða úrskurðarnefndir eru starfandi, og að það kosti umtalsverða vinnu meira en í meðallagi lögfróðs manns að safna saman upplýsingum um þær. Sömuleiðis er auðvitað fullkomlega fráleitt að lög kveði á um að skipa skuli hinar og þessar nefndir, sem enginn skipar svo. Þá á annaðhvort að skipa nefndina eða breyta lögunum – og er það síðarnefnda væntanlega yfirleitt nærtækari kostur.

Úrskurðarnefndirnar hafa úrskurðarvald um stjórnvaldsákvarðanir, en þeim er skipað til hliðar við hið almenna stjórnkerfi og þær eru ekki háðar yfirstjórn og eftirliti ráðherra. Friðgeir Björnsson segir í riti sínu um úrskurðarnefndirnar að þær séu tiltölulega einföld og ódýr leið til að fá úrlausn í ágreiningsmáli og firri ráðherra því að vera sakaðir um að láta pólitísk sjónarmið hafa áhrif á niðurstöður mála. Þá fáist sérfræðiþekking með því að skipa sérfróða menn í úrskurðarnefndir. Hins vegar séu gallar þeirra fólgnir í því að úrskurðarvaldið dreifist víða og það sé jafnframt álitamál hvort eðlilegt sé að ráðherrar séu í svo ríkum mæli undanþegnir því að taka ákvarðanir og bera ábyrgð á þeim.

Í þessu samhengi er ástæða til að rifja upp orð Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, á ráðstefnu um aldarafmæli þingræðis á Íslandi í febrúar í fyrra. Hann fjallaði þar um hliðsett stjórnvöld af þessu tagi og sagði: “Í sjálfstæði þeirra felst að þau eru undanskilin eftirlits- og boðvaldi ráðherra, nema lög heimili annað sérstaklega. Þegar svo ber undir er hins vegar skorið á þau tengsl, sem eru forsenda þess að ráðherra geti borið þá ábyrgð á stjórnsýslu slíkra stjórnvalda, sem einungis er á hans valdi að bera gagnvart þinginu. Til þess brestur þá bæði lagalegar og siðferðilegar forsendur …Sjálfstæð stjórnvöld af þessu tagi eru þó ekki aðeins undanskilin stjórnunar- og eftirlitsheimildum ráðherra. Þau eru jafnframt undanskilin því aðhaldi sem ríkisstjórnin hefur af þinginu á grundvelli þingræðisvenjunnar. Ekkert sambærilegt samband er á milli þings og hinna sjálfstæðu stjórnvalda. Þingið getur ekki krafið stjórnir þeirra eða forstöðumenn um að standa því skil gjörða sinna, veitt þeim aðhald með sama hætti og ráðherrum eða komið þeim frá.”

Það hlýtur að vera full ástæða til að endurskoða í heild sinni þetta kerfi sjálfstæðra úrskurðarnefnda, einfalda það, fækka nefndunum og skoða hvort verkefni þeirra margra eiga ekki heima innan ráðuneytanna, þar sem lýðræðislegu aðhaldi með þeim verður við komið. Forsenda slíkrar endurskoðunar er væntanlega að það sé á hreinu hvaða nefndir eru til.

mbl.is Föstudaginn 30. desember, 2005 – Ritstjórnargreinar

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0