Félag ábyrgra feðra er algerlega andsnúið hvers konar ofbeldi gagnvart börnum og lýsir fyrirlitningu á kynferðislegri misnotkun á börnum jafnt sem konum. Félag ábyrgra feðra lýsir hjartanlegri andstöðu við öllu heimilisofbeldi og telur að ofbeldi sé aldrei viðunandi úrræði og beri ávallt að fordæma það.
 
Samkvæmt lögum Íslands er ofbeldi glæpur og vill Félag ábyrgra feðra halda þeim skilningi á öllu kynferðislegu ofbeldi. Skoðun félagsins er að það eigi að taka mjög hart á þessu ofbeldi og þurfa fjölmargir aðilar og stofnanir samfélagsins að snúa bökum saman gegn þessu böli.

Í skilnaðarferlinu og þeim deilum sem á eftir koma um forsjá og umgengni gagnvart börnunum eru hins vega stundum notaðar þungar ásakanir á hendur feðrum til að sverta ímynd þeirra í hugum þeirra sem úrskurða um þessi mál. Hér eru gjarnan á ferðinni ásakanir um ofbeldi, bæði andlegt og líkamlegt; að feður öskri á börn sín, að þeir berji þau, að þeir þvingi þá til margvíslegra athafna. Verstu tilvikin eru um að feður misnoti börn sín kynferðislega.

Vegna þess hversu alvarlegir þessir ofbeldisglæpir eru vill Félag ábyrgra feðra lýsa fullri vanþóknun á slíku athæfi. Félagið vill um leið benda á hversu hættulegar ásakanir um þessa glæpi eru þegar þær eru tilhæfulausar. Vegna þess hversu alvarlegir þeir eru eru falskar ásakanir mannorðsmorð og eyðileggja gersamlega samband barnanna við feður sína. Þess vegna vill Félag ábyrgra feðra beina þeim tilmælum til allra viðeigandi stofnana og opinberra aðila að rannsaka þessar ásakanir til að komast að sannleiksgildi þeirra og starfa síðan á grundvelli niðurstaðna úr þeim rannsóknum: að refsa þeim sem fremja slíka glæpi og hreinsa algerlega þá sem eru sýknir saka.

Þessi krafa er grundvallaratriði í íslenskum lögum og réttarfari, að allir menn séu saklausir þar til sekt er sönnuð. Félag ábyrgra feðra vill benda á að það er undir engum kringumstæðum hægt að snúa þessu við og segja eða álykta að einhver sé sekur nema sakleysi sé sannað. Þá væru flestir sekir um alvarlega glæpi einhvern tímann á lífsleiðinni.

Opinberir aðilar framkvæma rannsóknir á slíkum ásökunum. Finnist ekkert sem sannar sekt þess sem ásakaður er, t.d. föður sem sakaður er um kynferðislega misnotkun á barni sínu, vinna þessir opinberu aðilar, félagsþjónustur, sýslumenn, barnaverndarnefndir og aðrir sem sinna barnamálum, útfrá þeirri meginreglu að ef sakleysi er ekki sannað þá sé viðkomandi sekur. Eru ýmis dæmi þess að reynslu Félags ábyrgra feðra að feður, sem sakaðir hafa verið um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sínum eftir skilnað eða sambúðarslit, fá úrskurð frá sýslumanni um umgengni við viðkomandi barn einn dag í mánuði undir eftirliti eða jafnvel sjaldnar. Jafnvel þótt feðurnir hafi verið sýknaðir af ásökununum, ekkert fundist til að staðfesta þær.

Nýlega dæmdi Mannréttindadómstóll Evrópu í máli Sophiu Hansen gegn tyrkneska ríkinu. Í því máli sem staðið hefur nánast óslitið síðan 1991 var Sophiu tálmuð umgengni við börn sín af miskunnarlausri grimmd. Börn hennar báru þrívegis vitni um það fyrir tyrkneskum dómstólum að hún væri óhæf, sinnti þeim ekki og væri leiðinleg við þau og föður þeirra. Í reynd að hún hefði beitt þau andlegu ofbeldi. Mannréttindadómstóllinn íhugaði þennan vitnisburð þeirra vandlega og komst að þeirri niðurstöðu, í sem skemmstu máli, að börn Sophiu væru ekki áreiðanleg vitni um hana, einkum vegna þess að þeim hefði aldrei gefist tækifæri til að kynnast henni og mynda traust samband við hana. Vegna þessarar sviptingar forsjárlausa foreldrisins væru þau ófær um að tjá sig eðlilega um hana.

Í tilviki Sophiu Hansen hefði samkvæmt þeim hugsunarhætti að láta barnið njóta vafans, verið einfalt að líta svo á að fyrst börnin bæru slíkti vitni á opinberum vettvangi bæri að taka orð þeirra trúanleg fram yfir orð móðurinnar. En auðvitað leit Mannréttindadómstóllinn á aðra þætti, ytra samhengi, þær aðstæður sem börnin alast upp við, móðursviptinguna, og m.a.s. það fjölmiðlafár sem umkringdi málið. Þannig er nauðsynlegt að líta til fleiri atriða en eingöngu vitnisburðarins. Mannréttindadómstóllinn taldi forsjárforeldrið sekt um kerfisbundnar umgengnistálmanir og dæmdi opinber yfirvöld í Tyrklandi sek um að hafa aðstoðað forsjárforeldrið í að hindra umgengni eða a.m.k. ekki lagt sig nægilega fram við að aðstoða forsjárlausa foreldrið. Telur Félag ábyrgra feðra að Mannréttindadómstóllinn eigi heiður skilinn fyrir þessi vönduðu vinnubrögð, þar sem hagsmunir og þarfir barnanna eru hafði í fyrirrúmi. Bendir félagið á að íslensk yfirvöld standa sig því miður jafn illa og hin tyrknesku oftast nær.

Félag ábyrgra feðra getur ekki sætt sig við þá meginreglu að láta barnið njóta vafans. Það virðist göfug regla að láta barnið njóta vafans, en í reynd þarf svo lítið til að vafinn komist á kreik að með sömu hugsun væru allir sekir um einhverja glæpi. Barnið nýtur heldur ekki vafans, því ef efinn á sér ekki stoð í veruleikanum þá tapar barnið mestu: með vafanum einum glatar barnið föður sínum og jafnvel móður. Efi getur aldrei verið úrslitaatriði í heilbrigðri ákvörðun. Þá væri aldrei hægt að gera nokkurn skapaðan hlut. Brú yfir á er einfaldasta sönnun þess. Framsækni mannkynsins á jörðinni er sterkustu rök gegn því að láta vafann ráða.

Um leið og Félag ábyrgra feðra lýsir áhyggjum yfir kynferðislegu ofbeldi sem öðru ofbeldi lýsir það áhyggjum af þeirri þróun að mæður sem hafa forsjá barna saka feður barnanna um kynferðislega glæpi gagnvart þeim án þess að hafa nokkuð fyrir sér í þeim ásökunum. Slíkar falskar ásakanir eru nokkuð auðþekkjanlegar frá „sönnum ásökunum“, því sannar ásakanir koma án nokkurs annars tilefnis, þær koma í kjölfar gruns. Falskar ásakanir hins vegar koma gjarnan fram á viðkvæmum augnablikum í forsjárdeilum, þegar úrskurðar sýslumanns er að vænta, þegar á að fara að ræða erfið atriði í umgengnismálum, þegar ytri aðili á að fella einhvern dóm eða úrskurð.

Félag ábyrgra feðra hefur mörg dæmi um að ásakanir komi fram t.d. tveimur dögum fyrir úrskurð sýslumanns, fjórum dögum áður en barnaverndarnefnd ætlar að senda skýrslu, þremur dögum áður en sérfræðingur sýslumanns sendir sýslumanni skýrslu. Falskar ásakanir eru tilhæfulausar og því í reynd rangar sakargiftir og samkvæmt lögum refsivert athæfi. Þess vegna er eðlilegt framhald af því þegar slíkar falskr ásakanir eru lagðar fram að rannsaka málið og draga hinn seka fyrir dóm og dæma viðkomandi fyrir rangar sakargiftir. Þær geta samkvæmt íslenskum lögum varðað sektum og fangelsisvist.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0