Félag um foreldrajafnrétti skorar á stjórnlagaráð að koma inn í drög að stjórnarskrá Íslands tveimur ákvæðum um mannréttindi.

Annars vegar ákvæði um að alþjóðlegir samningar sem fullgiltir hafa verið af íslenskum stjórnvöldum öðlist löggildingu samhliða fullgildingu.

Mjög mismunandi er milli landa hvernig farið er með slíka fullgilda samninga og mörg lönd hafa þá reglu að fullgiltir samningar öðlist sjálfkrafa löggildingu samhliða fullgildingu.

Það að fullgiltur samningur öðlist löggildingu hefur það í för með sér að einstaklingar geta leitað réttar síns út frá þessum samningum (lögum) en það geta einstaklingar ekki gert án löggildingar fullgilds samnings.

Dæmi um fullgildan samning sem ekki hefur verið lögfestur er Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Fullgilding þessa samnings hefur því lítið annað en táknrænt gildi, því einstaklingar geta ekki leitað réttar síns út frá á ákvæðum Barnasáttmálans.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, (Barnasáttmálinn), var samþykktur af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989.

Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 26. janúar 1990 og fullgiltur 28. október 1992.

Í frumvarpi innanríkisráðherra til breytinga á barnalögum sem nú liggur í Allsherjarnefnd er lagt til að örlítið sérvalið brot samningsins verði lögfest sem því miður bendir til þess að ekki standi til að lögfesta samninginn í heild sinni.

Einstaklingar geta EKKI leitað réttar síns á Íslandi í dag út frá Barnasáttmálanum rúmu 21 ári eftir að hann var fyrst undirritaður af íslenskum stjórnvöldum.

Það hlýtur að flokkast undir mannréttindi að einstaklingar geti leitað réttar síns fyrir íslenskum dómstólum og stuðst við samninga sem fullgiltir hafa verið hér á landi.

Hins vegar ákvæði um að allir einstaklingar eigi rétt á því að leita til dómstóla með ágreiningsefni sín þannig að ekki verði hægt að banna það með lögum í ákveðnum málaflokkum.

Það hlýtur að flokkast undir mannréttindabrot að meina einstaklingum að leita réttar sín fyrir dómstólum.

Dæmi um slík mannréttindabrot í íslenskum lögum eru:

  • að karlmönnum er bannað að leita réttar síns fyrir dómstólum telji þeir sig föður barns sem feðrað hefur verið öðrum karlmanni.
  • að foreldrum er bannað að leita réttar síns fyrir dómstólum vegna umgengnismála nema höfða forsjármál sem er mun harðara mál.

Slík mannréttindabrot á ekki að vera hægt að lögfesta.

Mikið hefur verið rætt um mannréttindi í tengslum við Stjórnlagaráð og bindum við því miklar vonir við að ráðið taki áskorun okkar til skoðunar með opnum huga og velvilja.

Fyrir hönd félagsins,

Heimir Hilmarsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0