Nú höfum við rætt við alla níu fulltrúa Allsherjarnefndar um breytingar á barnalögum sem byggjast á frumvarpi Daggar Pálsdóttur.  Niðurstaðan er sú að allir nefndarmenn eru a.m.k. jákvæðir gagnvart  því grundvallaratriði frumvarpsins að aðlaga dómskerfið að þeirri staðreynd að komin er sameiginleg forsjá. Enginn er andvígur dómaraheimild. 

Nefndarmenn telja flestir að eðlilegt sé að dómarar hafi þrjá valmöguleika í dómsmáli;  þ.e. að er dæma móður forsjá, föður forsjá eða dæma sameiginlega forsjá. Þegar dæmt er í sameiginlega forsjá getur bæði verið dæmt í áframhaldandi sameiginlega forsjá hafi hún verið fyrir hendi eða dæmd sameiginleg forsjá í forsjármáli þar sem annað foreldrið hefur forsjána fyrir.

Rökin eru skýr, þar sem í dag liggur fyrir að þau réttindi sem sameiginlega forsjáin veitir umgengniforeldrinu halda ekki þar sem hægt er að “segja forsjánni upp” þegar á réttindin reynir, með höfðun forsjármáls. Fæst slík mál fara fyrir dómsstóla þar sem  lögheimilisforeldrið fær endurtekningarlítið fulla forsjá.

Allar aðrar þjóðir hafa aðlagað sitt dómskerfið að þremur valmöguleikum við forsjá barns. Niðurstaða annara þjóða er nánast einsleit varðandi jákvæð réttaráhrif breytinganna þannig að málum hefur fækkað fyrir dómsstólum og sáttarvilji foreldra aukist.

Að okkar mati er nokkuð víðtækur stuðningur er við umrædda breytingu í þjóðfélaginu, enda ljóst að þau réttindi sem löggjafinn ætlaði foreldrum með sameiginlegri forsjá, halda ekki fyrr en áður nefnd breyting á sér stað.

Rökin sem hafa verið nefnd á móti breytingunni tengjast frávikamálum og þeim ótta að foreldrar sem vanrækja börnin, eiga við fíkniefnavanda að etja eða foreldrar sem beita börnin sín ofbeldi geti verið dæmd sameiginleg forsjá. Teljum við að slíkur ótti sé ástæðulaus enda  treystum við íslenska dómskerfinu til dæma hæfara foreldrinu forsjána í frávikamálum, enda er enginn valmöguleiki tekinn af dómurum með þessari breytingu.

Önnur rök eru þau að ekki skuli þvinga fram samstarf. Mikilvægt er að minna á að allir dómar í forsjár- og umgengnismálum eru í eðli sínu gegn vilja annars foreldrisins og flestir kalla þeir á einshverskonar samstarf. Allar aðrar þjóðir hafa farið þessa leið – síðast danir þar sem dæma má m.a. umgengni við ömmu og afa gegn vilja lögheimilisforeldrisins. Hér er sjónarmiðið að taka hagsmuni barnsins fram yfir hagsmuni foreldranna.   

Þar sem stuðningur við þetta mál virðist vera fyrir hendi í Allsherjarnefnd, skorar Félag um foreldrajafnrétti á nefndina að taka málið strax fyrir og stefna á aðlögun og afgreiðslu fimmtu og sjöttu greinar frumvarpsins, á þessu þingi.  

 

Reykjavík 13 mars 2008.

 

Lúðvík Börkur Jónsson

Formaður Félags um foreldrajafnrétti.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0