Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, vakti athygli á mikilvægum samfélagsmálum í ræðu sinni við setningu kirkjuþings sl. laugardag. Í ræðu sinni sagði biskup m.a.: “Vinna þarf að þjóðarsátt á Íslandi um að ná jafnvægi í heimilishaldi landsmanna, jafnvægi milli fjölskyldulífs og atvinnulífs, sem víða er í miklu uppnámi hjá íslenskum fjölskyldum. Jafnvægi sem meðal annars má ná fyrir pólitískar aðgerðir ríkis og sveitarfélaga, en líka og ekki síður með viðhorfsbreytingu þar sem þarfir barnsins og þeirra sem það annast, eru settar í forgang.”

Biskup benti á að mikið hefði áunnizt; gleðilegt hefði verið að fylgjast með almennum stuðningi við ný lög um fæðingarorlof og hvernig feður tækju aukinn þátt í uppeldi barna sinna. “Samt vantar því miður enn mikið á. Svo virðist sem á vinnumarkaðnum eigi mannlegi þátturinn í vök að verjast, sveigjanleikinn minnkar gagnvart þörfum hinna smáu, sjúku og veikburða. Og barnið er allt of oft afgangsstærð,” sagði Karl.

Biskup vakti athygli á því að fjárráð hefðu almennt aldrei verið betri á Íslandi í efnislegum skilningi. “En er ekki kominn tími til að beina athygli betur að því í hverju lífsgæði eru fólgin? Annríki, friðleysi, tímaleysi, sem einkennir svo lífstaktinn hjá allt of mörgum, og setur mark sitt á þjóðlífið, það eru engin náttúrulögmál, hvirfilbyljir eða flóð sem á manni dynja. Heldur afleiðing vals, og börnin bera kostnaðinn í allt of mörgum tilvikum,” sagði Karl Sigurbjörnsson. “Mörg sambönd bresta og mörg börn skortir það skjól og öryggi sem traust heimili, trúnaður og tryggð við skuldbindingar ástar og umhyggju veita.”

Þetta eru orð í tíma töluð hjá biskupi. Ísland er því miður langt frá því að vera það fjölskylduvæna samfélag, sem við viljum flest gjarnan byggja. Hann spyr sömuleiðis mikilvægustu spurningarinnar í þessu samhengi; í hverju eru raunveruleg lífsgæði fólgin? Er hægt að gera endalausar kröfur um að hafa það betra efnalega ef sálarlífið, samskiptin við fjölskylduna og ekki sízt börnin líða fyrir það?

Biskup nefnir aðgerðir ríkis og sveitarfélaga, sem vissulega skipta máli til að hér megi skapa fjölskylduvænt samfélag. En ábyrgðin hvílir ekki síður á aðilum vinnumarkaðarins. Er ekki að verða löngu tímabært að framleiðniaukning skili sér ekki síður í styttri vinnutíma en hærri launum? Er ekki full ástæða til þess fyrir framsæknustu fyrirtæki landsins að verðlauna starfsmenn sína ekki síður með fríi en háum launum og bónusgreiðslum? Er ekki annars viss hætta á að þeir brenni upp og verði til lítils nýtir? Er ekki kominn tími til að stjórnendur, sem fara snemma heim, verði öðrum fyrirmynd? Og þarf ekki verkalýðshreyfingin að hætta að einblína á launin og snúa sér að vinnutímanum?

Tímaskorturinn, tætingurinn og ójafnvægið í fjölskyldulífinu er því miður raunveruleiki alltof margra íslenzkra fjölskyldna. Og afleiðingarnar eru þær, sem biskup lýsir; hjónaskilnaðir, vanræksla barnanna, skipbrot fjölskyldna og einstaklinga. Það er sjálfsagt og eðlilegt hlutverk kirkjunnar að benda á þetta og leitast við að vísa fólki leið út úr ógöngunum. Og okkur ber að hlusta á ráð kirkjunnar.

mbl.is Miðvikudaginn 26. október, 2005 – Ritstjórnargreinar

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0