Jafnréttismál | Fyrirlestur um niðurstöður rannsóknar ESB, Íslands og Ungverjalands

Á morgun kl. 16.15 í stofu 101 í Odda heldur Lilja Mósesdóttir fyrirlestur um framþróun þekkingarsamfélagsins og jöfnuð karla og kvenna. Í erindi sínu segir Lilja frá helstu niðurstöðum þriggja ára rannsóknarverkefnis sem náði til aðildarlanda ESB auk Íslands: “Markmið verkefnisins var að mæla árangur og greina aðgerðir landa til að hrinda í framkvæmd markmiðum ESB um samkeppnisfært þekkingarsamfélag og aukinn kynjajöfnuð,” segir Lilja. “Flestum kemur á óvart að ESB tengi saman samkeppnishæfni þekkingarsamfélagsins og kynjajöfnuð, en athuganir ESB, SÞ og World Economic Forum hafa sýnt að þar sem kynjajöfnuður er mestur er hagsæld meiri. Því er talið að aukin vinnuþátttaka kvenna og aukinn kynjajöfnuður, s.s. í launum, geti tryggt hagvöxt í nánustu framtíð.”

Rannsóknarverkefnið hlaut styrk úr fimmtu rannsóknaráætlun ESB: “Ég mun fyrst og fremst fjalla um eina af niðurstöðum verkefnisins, sem vakið hefur athygli innan framkvæmdastjórnar ESB, en fram kom í rannsókninni að aðildarlönd ESB ná ekki markmiðum sambandsins um þekkingarsamfélag og kynjajöfnuð. Þó héldu mörg aðildarlandanna að kynjajöfnuður myndi koma að sjálfu sér því innan ESB eru konur, að meðaltali, meira menntaðar en karlar og bjuggust menn við að með því að leggja aukna áherslu á hærra þekkingarstig, vöxt þjónustugeirans og útbreiðslu upplýsingatækni myndi kynjajöfnuður komast á af sjálfsdáðum,” segir Lilja.

“Í okkar mælingum kom í ljós að lönd Suður-Evrópu hafa tekið framförum hvað varðar kynjajöfnuð, þar sem konum á vinnumarkaði hefur fjölgað. Hins vegar hefur á Norðurlöndum, þar sem hátt hlutfall kvenna er á vinnumarkaði, orðið öfugþróun og mældist minni kynjajöfnuður á vinnumarkaði 2002 en var 1997. Sá aukni ójöfnuður skýrist hvað helst af því að launamunur kynjanna hefur aukist og ekki hefur tekist að draga úr kynjaskiptingu starfa.”

Lilja bendir á að vísbendingar megi finna um að án aðgerða muni kynjaójöfnuður aukast eftir því sem þekkingarsamfélagið þróast, vegna þeirra breytinga á vinnumarkaði sem þróuninni fylgja: “Hámenntuðum konum fjölgar, en þegar þær veljast í sérfræði- og stjórnunarstörf lenda þær iðulega neðst í launadreifingunni. Launadreifing meðal háskólamenntaðra er mjög mikil, og því eykst í reynd launamunur kynjanna þegar fleiri konur færast upp í þennan starfsflokk.” Lilja segir aðgerðir til að koma á kynjajöfnuði í rannsóknarlöndunum ekki hafa verið unnar með nægilegu fjármagni og pólitískum vilja. “Aðgerðir hafa því verið gagnslausar þar sem þær byggja oft ekki á raunhæfu mati á hvað þarf til að tryggja kynjajöfnuð.

Lilja Mósesdóttir fæddist í Reykjavík 1961. Hún lauk stúdentsprófi frá VÍ 1981 og BA í viðskipta- og hagfræði frá Iowaháskóla 1984. Hún lauk mastersgráðu í hagfræði frá Sussexháskóla 1988 og doktorsprófi í vinnumarkaðsfræði frá Manchester-háskóla árið 2000. Lilja kenndi við VÍ, við HA og HR. Hún var hagfræðingur hjá ASÍ og sérfræðingur við Háskólann í Luleå. Frá 1997 hefur hún verið sérfræðingur fyrir framkvæmdastjórn ESB og prófessor við Viðskiptaháskólann á Bifröst frá 2003. Lilja er gift Ívari Jónssyni prófessor og eiga þau einn son.

Lilja Mósesdóttir fæddist í Reykjavík 1961. Hún lauk stúdentsprófi frá VÍ 1981 og BA í viðskipta- og hagfræði frá Iowaháskóla 1984. Hún lauk mastersgráðu í hagfræði frá Sussexháskóla 1988 og doktorsprófi í vinnumarkaðsfræði frá Manchester-háskóla árið 2000. Lilja kenndi við VÍ, við HA og HR. Hún var hagfræðingur hjá ASÍ og sérfræðingur við Háskólann í Luleå. Frá 1997 hefur hún verið sérfræðingur fyrir framkvæmdastjórn ESB og prófessor við Viðskiptaháskólann á Bifröst frá 2003. Lilja er gift Ívari Jónssyni prófessor og eiga þau einn son.

mbl.is 10. april 2006

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0