MÉR er það enn í fersku minni þegar móðir mín henti mér í ruslið.
Ég hafði verið að óþekktast eitthvað einu sinni sem oftar og til þess að losna undan afleiðingum gjörða minna flúði ég og skreið ég undir hjónarúm. Þegar móðir mín kom að gat hún með engu móti náð mér. Rúmið var lágt þannig að ég gat mjakað mér rúmstokkanna á milli þegar hún reyndi að teygja sig í mig.
 
Þessi ójafni eltingaleikur hefur án efa skapraunað henni mjög, þannig að hún sagði reiðilega: “Helgi, ef þú kemur ekki strax undan þá hendi ég þér í ruslið.” Og ég hlýddi ekki. Einhverjum mínútum síðar gafst ég hins vegar upp á þófinu. Það var alveg ljóst að mamma myndi ekki láta árar í bát og ekki gæti ég kúldrast undir rúminu í marga daga. Ég þyrfti því að mæta örlögum mínum. Ekki það að ég ætti von á því að lenda í ruslinu…

Nokkrum mínútum síðar stóð ég smásnáðinn upp að hnjám úti í ruslatunnu, háorgandi og vansæll.

Mörgum árum seinna spurði ég mömmu af hverju hún hefði gert þetta. Svarið var einfalt. Maður á að standa við orð sín. Þetta atvik kenndi mér mjög dýrmæta lexíu sem ég hef getað nýtt mér bæði sem faðir og skólamaður.

Börn verða að gera sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna og fá skýr skilaboð. Það á ekki að hóta eða lofa öðru en því sem maður er tilbúinn að standa við.

Helgi Grímsson, Höfundur er skólastjóri Sjálandsskóla í Garðabæ.

mbl.is, Fimmtudaginn 13. apríl, 2006 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0