Lágtekjumörk (e. at risk of poverty) er ákveðin skilgreining Evrópusambandsins á þeim mörkum ráðstöfunartekna á neyslueiningu sem skapa hættu á fátækt og félagslegri einangrun. Megintilgangur þess að lágtekjumörk eru notuð er að skima fyrir þeim þjóðfélagshópum sem eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun. En grundvallaratriði þess að finna slíka hópa er að hóparnir séu með í samanburðinum og réttmætt tillit tekið til þeirra.

Lágtekjumörk eru skilgreind sem 60% af miðgildi ráðstöfunartekna allra. Á Íslandi voru lágtekjumörk 153.600 kr. á mánuði árið 2011. Barnlaus einstaklingur er þannig talin eiga á hættu að lenda í fátækt og félagslegri einangrun ef ráðstöfunartekjur hans eru ekki meiri en 153.600 kr. á mánuði.

Þegar um er að ræða fjölskyldur sem saman standa af fleiri en einum einstaklingi þá er notast við ákveðinn neyslustuðul sem tekur tillit til fjölskyldustærðar og þeirrar hagræðingar sem á sér stað þegar fólk deilir saman heimili. Þannig er einn einstaklingur með stuðulinn 1 en einstaklingar 14 ára og eldri fá stuðulinn 0,5 en börn 13 ára og yngri fá stuðulinn 0,3.

Dæmi um ráðstöfunartekjur heimila við lágtekjumörk samkvæmt íslenskum lágtekjumörkum og EU-SILC neyslustuðli

Fjölskyldugerð

Neyslustuðull

Ráðstöfunartekjur

Barnlaus einstaklingur

1,0

153.600

Barnlaust par

1,5

230.400

Einstætt foreldri með 1 barn yngra en 14 ára

1,3

199.680

Einstætt foreldri með 2 börn yngra en 14 ára

1,6

245.760

Einstætt foreldri með 3 börn yngra en 14 ára

1,9

291.840

Par með 1 barn yngra en 14 ára

1,8

276.480

Par með 2 börn yngra en 14 ára

2,1

322.560

Par með 3 börn yngra en 14 ára

2,4

368.640

Fljótt á litið virðist þessi tafla geta gefið nokkra mynd af lágmarks fjárþörf mismunandi heimila en þegar betur er að gáð og forsendur Hagstofu Íslands skoðaðar þá kemur allt annar veruleiki í ljós. Hvernig tekur þetta til dæmis mið af báðum heimilum barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum?

Skoðum fyrst skilgreiningu Eurostat á EU-SILC hugtökum sem geta varpað ljósi á það og þá hvernig þessar skilgreiningar og hugtök eru notuð hjá Hagstofu Íslands.

Í EU-SILC er langur listi yfir þá sem teljast til heimilismanna s.s. langtíma gestir, au-pair og fleira sem fá þá neyslustuðul í samræmi við aldur. Þar er jafnframt hægt að finna skilgreiningu sem börn í umgengni geta fallið undir eða einstaklingar sem eru langtímum í burtu en með tengsl við heimilið (e. Persons absent for long periods, but having household ties;). Börn í umgengni eru vissulega með tengsl við „umgengnis“ heimilið og því er varla hægt að skilja skilgreiningu Eurostat á EU-SILC öðruvísi en svo að börn í umgengni eigi að teljast til heimilismanna á „umgengnis“ heimili.

Hagstofa Íslands tekur hins vegar ekkert mið af tenglum barna við „umgengnisheimili“ sitt. Jafnvel þó börn séu í jafnri umgengni á tveimur heimilum þá er heimilið þar sem barn hefur ekki skráð lögheimili talið barnlaust.

Í EU-SILC er sérstaklega fjallað um reglulega peningaflutninga á milli heimila samanber meðlag (e. regular inter-household cash transfers received (HY080G) or paid (HY130G)). Þannig gerir Eurostat ráð fyrir því að meðlag teljist til ráðstöfunartekna hjá þeim sem þiggur meðlagið en ekki þeim sem greiðir það.

Hagstofa íslands horfir algerlega framhjá meðlagsgreiðslum og gerir þannig ráð fyrir því að meðlagsgreiðslur nýtist til ráðstöfunar á heimili meðlagsgreiðanda en komi aldrei inn á heimili þess sem þiggur meðlagið.

Dæmi um raunverulegar ráðstöfunartekjur heimila einstæðra foreldra við lágtekjumörk

Fjölskyldugerð

Neyslustuðull

Ráðstöfunartekjur heimilis skv. Hagstofu Íslands

Lögbundið lágmarksmeðlag

Raunverulegar ráðstöfunartekjur heimilis

Lögheimilis með 1 barn

1,3

199.680

25.175

224.855

Lögheimilis með 2 börn

1,6

245.760

50.350

296.110

Lögheimilis með 3 börn

1,9

291.840

75.525

367.365

Umgengnis með 1 barn

1,0

153.600

-25.175

128.425

Umgengnis með 2 börn

1,0

153.600

-50.350

103.250

Umgengnis með 3 börn

1,0

153.600

-75.525

78.075

Í seinni tölfunni má sjá að raunverulegar ráðstöfunartekjur umgengnisforeldra þurfa að vera töluvert lægri en hjá lögheimilisforeldri til þess að teljast við lágtekjumörk og því fleiri sem börnin eru því minni ráðstöfunartekjur eru taldar duga heimilum umgengnisforeldra á meðan því er öfugt farið með lögheimilisforeldra.

Ef foreldrar eiga saman þrjú börn og jafnvel sinna þeim til jafns á tveimur heimilum, þá eru þau talin standa jafnfætis við lágtekjumörk þegar lögheimilisforeldrið hefur 367.365 kr. til ráðstöfunar á mánuði en umgengnisforeldrið 78.075 kr. Bæði heimilin eru með næstum sömu útgjöld samkvæmt neysluviðmiðum Velferðarráðuneytisins en þó telur Hagstofa Íslands þau standa jafnfætis þegar ráðstöfunartekjur lögheimilisforeldris eru 289.290 kr. hærri en umgengnisforeldris í hverjum mánuði.

Íslenska leiðin horfir þannig ekki bara algerlega framhjá því heimili barns þar sem það hefur ekki lögheimili, heldur gerir gott betur og mælir þau heimili með hærri ráðstöfunartekjur en þau raunverulega hafa. Hagstofa Íslands mælir lögheimilisforeldra of fátæka og umgengnisforeldra allt of vel stadda.

Viðvörunarbjöllur hringja víða. Þannig eru 74% „barnlausra“ einhleypra karla í vanskilum samkvæmt skýrslu Velferðarvaktarinnar. Þannig eru 46% þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar „barnlausir“ einhleypir karlar. Líklega eru flestir þessara illa stöddu „barnlausu“ karlar ekki barnlausir heldur feður sem kerfið vill ekki skrá sem slíka. Um 14.000 foreldrar eru ekki skráðir foreldrar allra barna sinna. Um og yfir 30.000 börn eru ekki með báða foreldra sína skráða sem foreldra sína.

Það eru svo sannarlega forréttindi á Íslandi að mælast fátækur. Mæld fátækt á Íslandi á lítið skilt við raunverulega fátækt þegar aðeins hluti ráðstöfunartekna eru taldar með hjá sumum foreldrum en ráðstöfunartekjur sem ekki eru til eru taldar með hjá öðrum eða þegar börn í heimili eru talin með hjá sumum foreldrum en ekki öðrum. Hagstofa Íslands á að sjá sóma sinn í því að gefa ekki út meira af vísvitandi röngum tölum um þá þjóðfélagshópa sem eru í hættu á því að lenda í fátækt. Leiðréttum skráninguna og fáum raunhæfari niðurstöður.

Hér er að finna skilgreiningar og hugtök Eurostat á EU-SILC:

Income and Living Conditions, Main concepts and definitions

Hér er að finna lýsingar á breytum EU-SILC:

EU-SILC Description Target Variables – Household Data (H-file)

Hér er svo að finna skilgreiningar Hagstofu Íslands:

Lágtekjumörk og tekjudreifing 2011

 

— Heimir Hilmarsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0