ARTHUR Morthens, forstöðumaður menntasviðs Reykjavíkurborgar, segir að niðurstöður skýrslu Benedikts Jóhannssonar, sálfræðings, byggist á stórri könnun sem unnin var af þróunarsviði Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur og Rannsókn og greiningu og kynnt árið 2003.
 
Greint var frá skýrslu Benedikts í Morgunblaðinu á fimmtudaginn.
Arthur segir að hann telji aðalatriðið í könnuninni og það sem fyrst og fremst megi lesa úr henni vera að eftir því sem börnin séu frá sterkari fjölskyldum líði þeim betur og á móti að eftir því sem fjölskyldurnar séu veikari, líði þeim verr.

Það er ljóst að fjölskylda og tengsl barns við foreldra sína er veigamikil breyta í líðan barna,“ segir Arthur og bætir við að þetta megi segja með nokkurri vissu en annað sé erfiðara að fullyrða um. Til að mynda sé erfitt að staðhæfa að börn sem búi hjá einstæðum feðrum standi verr félagslega en önnur börn, þótt vísbendingar í þá átt megi finna í niðurstöðum könnunarinnar. Þar kemur fram að börn sem búa hjá einstæðum föður segja sjaldnar að sér líði vel en börn sem búa hjá báðum foreldrum. Arthur segir að hlutfall barna í könnuninni sem búa hjá einstæðum feðrum sé lágt og erfitt að lesa mikið út úr þessum niðurstöðum.

Viðkvæm staða
„Við vissum það hins vegar að viðkvæm staða barna hjá einstæðum foreldrum er fyrir hendi,“ segir Arthur og nefnir að til að mynda gæti langur vinnudagur einstæðra feðra í ákveðnum tilvikum haft áhrif. „En hvort tengsl föður og barns séu ekki þau sömu og móður og barns,það þarf miklu meiri rannsóknir til að geta fullyrt eitthvað í þeim efnum.“ Arthur segir að tilgangur könnunarinnar hafi fyrst og fremst verið að kanna líðan barna í 5.–7. bekk grunnskólum og í ljós hafi komið að um 3,5% þeirra líði illa öllum stundum í skóla. Reynt hafi verið að koma til móts við þetta með því að senda skýrsluna í grunnskóla og þeir beðnir að skoða þann hóp barna sem áttu í mestum erfiðleikum. Þá voru sálfræðingar Fræðslumiðstöðvar setter í þessi mál. Aðspurður hvort þeim aðgerðum verði fylgt eftir með frekari könnun á líðan barna segir Arthur að slík könnun hafi verið gerð á þessu ári og skýrsla um hana sé nú í vinnslu. „Þá sjáum við hver staðan
er,“ segir Arthur.

mbl.is 10.júní 2006

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0