Einn versti liðurinn í föðursviptingu eru falskar ásakanir, þar sem faðirinn er borinn röngum sakargiftum. Þessar fölsku ásakanir fylgja síðan föðurnum í öllu kerfinu því að kerfið, félagsráðgjafar, sálfræðingar, jafnvel lögfræðingar og sýslumenn telja sig gera börnunum greiða með því að leyfa þeim að njóta vafans. Að njóta vafans þýðir um leið að svipta barnið föður sínum.

Röng ásökun – frá móður – um að faðir hafi beitt barnið ofbeldi veldur klofningi í huga barnsins. Það hættir að geta hugsað hlýlega til föður síns, allar hlýjar, jákvæðar og heilbrigðar hugsanir og tilfinningar í hans garð fá á sig blæ hins illa, orð móðurinnar um galla hans gera sérhverja tilfinningu til hans neikvæða. Barnið fær sektarkennd yfir því einu að hugsa til föður síns. Það fær síðan ekki tækifæri, vegna umgengnistálmana, til að kynnast föður sínum eða viðhalda traustu sambandi við hann. Það myndast gjá milli föður og barns. Föðursvipt barn kastar jafnvel grjóti í bíl föður síns leyfi hann sér að reyna að nálgast það hjá skóla barnsins. Það öskrar á hann leyfi hann sér að sýna sig nálægt heimili þess. Barnið lítur jafnvel ekki til hans á götu hitti það hann óvænt. Það kastar ekki grjótinu, öskrar eða virðir ekki viðlits af hatri á föðurnum heldur af innri togstreitu – það er búið að snúa barninu, kljúfa það, drepa í því föðurímyndina.

Að velja milli mömmu og pabba – alla ævi

Þær mæður sem beita þessum umgengnistálmunum og föðursviptingu virðast hugsa að þetta tvennt sé gott ráð til að hefna sín á fyrrverandi maka og halda að þetta hafi ekki mikil áhrif á börnin. Enda sé það sem þær segja heilagur sannleikur. Staðreyndin er hins vegar sú að afleiðingarnar eru skelfilegar. Sem formaður Félags ábyrgra feðra hef ég m.a. átt samtöl við tvær rosknar konur sem báðar upplifðu föðursviptingu með ólíku móti í bernsku og á unglingsárum. Báðar þessar konur eru nú í miklum hremmingum, geta enn ekki talað um þessi mál af einurð, eiga enn heilmikið óuppgert við fortíð sína, ekki aðeins við feður sína, heldur við sjálfar sig og ekki síst við mæður sínar.

Þegar ímynd föður er svert í huga barns lendir barnið í þeirri klemmu að sérhvert jákvætt orð um föðurinn er dæmt sem svik við móðurina. Þegar föðursvipt börn vaxa úr grasi lenda þau í enn meiri klemmu en í bernsku: Þau verða jafnvel að halda í þá svertu ímynd sem móðirin hefur gefið af föðurnum til þess eins að missa ekki algerlega fótanna í lífinu, til að forðast þá hræðilegu staðreynd að allt þeirra líf var byggt á lygi, þ.e. á lygi móðurinnar. Að gefa föðurnum tækifæri til að sanna sig er á sama hátt og í bernsku svik við móðurina. Með öðrum orðum standa þessi fullorðnu börn alla ævi í skugga þeirrar svertu myndar sem móðirin gaf þeim af föðurnum. Sumir fyrirfara sér. Sumir synir fyrirfara sér af því að þeir geta ekki lifað við þá staðreynd að hafa aldrei getað litið föður sinn réttu auga, að geta ekki litið sjálfan sig réttu auga, að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að allt þeirra líf, öll þeirra sjálfsmynd byggist á lygi. Þeir hafa verið sviknir um föður en líka það sem verra er – þeir hafa verið sviknir um sjálfa sig. Og sökudólgurinn er ekki þeir sjálfir, ekki faðir þeirra, HELDUR MÓÐIR ÞEIRRA.

Ímyndarsvipting karlmanna

Föðursvipting er gamall arfur frá þeirri tíð þegar skilnaður leiddi til þess að faðirinn hvarf úr lífi barnsins sem ævinlega var skilið eftir hjá móður sinni. Þess vegna hafa skilnaðarbörn svona illt orð á sér. Femínismi síðustu áratuga hefur breytt þessum hlutum verulega. Nú taka feður ríkan þátt í uppeldi og umönnun barna sinna, eiga rétt á feðraorlofi og teljast framfærendur barna sinna. Þangað til þeir skilja. Þá taka við þessir gömlu fordómar. Femínisminn á drjúgan þátt í þessum fordómum því miður. Innbyggt í femínisma er andúð á körlum, ákveðin karlasvipting í samfélaginu, mjög eindregin svertun karlmennskuímynda. Ef við skoðum greiningar femínista á samfélaginu síðustu áratugi þá er ljóst að allt sem miður fer í samfélaginu stafar að þeirra mati af karllegum gildum, karllegri hugsun, karllegum aðferðum og svo framvegis. Sú krafa femínista að gera karla að ábyrgum feðrum er þannig reist á tvískinnungi og sá tvískunnungur kemur skýrast fram í því að feður eru álitnir óþarfir eftir skilnað enda voru þeir kannski bara börn sem konan þurfti líka að ala upp í hjónabandinu eða sambúðinni. Karlmenn sem fá þessi skilaboð pökkuð inn í gagnrýni á staðalímyndum, svo notað sé fræðilegt heiti, lenda í svipaðri togstreitu og föðursvipt barn – tilraunir þeirra til að taka í alvöru ábyrgð á uppeldi barna sinna eru á dulbúinn hátt dæmdar sem svik við konuna og á endanum svik við þá sjálfa. Þessir karlmenn eru ekki einu sinni hálfir menn, þeir eru geltir og fullir af efa – sams konar efa og sáð er í huga barna með fölskum ásökunum í garð feðra þeirra.

Samkvæmt upplýsingum Landlæknisembættisins reyna 600 til 700 einstaklingar sjálfsvíg á hverju ári. Þeir sem fyrirfara sér eru að langstærstum hluta karlar: 43 karlar af 51 alls árið 2000. Margir þeirra falla fyrir eigin henda vegna afleiðinga föðursviptingar, sem þeir hafa orðið fyrir annaðhvort sem börn eða fullorðnir menn. Þessir menn hafa orðið undir í baráttunni en þeir koma úr öllum stéttum og lögum samfélagsins, rétt eins og þeir þúsundir feðra sem nú um stundir eiga börn sem ekki fá að umgangast þá. Hvað þurfa margir að fyrirfara sér til að kerfið taki sjálft sig og reglur sínar til endurskoðunar?

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0