Félagsmálastjórinn í Reykjavík hefur svarað erindi Félags ábyrgra feðra frá 20. október sl. varðandi húsaleigubætur til foreldra þar sem barn á ekki lögheimili:

“Í umræddu bréfi átelur félagið vinnubrögð starfsmanns Félagsþjónustunnar sem ekki tók til greina umsókn um að greiða húsaleigubætur vegna barns á heimili foreldris þar sem barnið átti ekki lögheimili en dvelur þar samt sem áður “jafn langan tíma og á heimili móður”. Enn fremur fer Félag ábyrgra feðra fram á að Félagsþjónustan breyti vinnubrögðum sínum í þessum efnum og “virði samkomulag foreldra um sameiginlega forsjá.” Er því haldið fram í bréfinu að þrátt fyrir að foreldrum beri að skrá barn hjá öðru hvoru foreldri hljóti “raunveruleg búseta barns hjá báðum foreldrum að skipta máli við úthlutun húsaleigubóta”.

Félagsþjónustan í Reykjavík tekur undir sjónarmið Félags ábyrgra feðra um að mikilvægt sé að báðir foreldrar geti sinnt skyldum sínum gagnvart börnum sínum og fái til þess félagslegan stuðning samfélagsins.

Lög um húsaleigubætur kveða á um að bætur skuli ákvarðaðar og reiknaðar miðað við ákveðinn grunn fyrir hverja íbúð og hvert barn á framfæri og enn fremur að bætur vegna barna skuli greiðast frá næsta mánuði eftir fæðingu barns eða lögheimilisskráningu.

Túlkun Félagsþjónustunnar í Reykjavík hefur verið sú að skilyrði fyrir greiðslu húsaleigubóta vegna barns væri að það hefði lögheimili hjá umsækjanda og hefur greiðslum verið hagað samkvæmt því.

Til að taka af allan vafa um túlkun laganna og gæta alls réttlætis gagnvart foreldrum með sameiginlega forsjá barna hef ég ákveðið að senda erindi Félags ábyrgra feðra til Félagsmálaráðuneytisins og samráðsnefndar um húsaleigubætur og leita umsagnar varðandi þau atriði sem fram koma í erindinu. Þegar sú umsögn liggur fyrir mun félaginu send niðurstaða málsins.”

Undir bréfið ritar Lára Björnsdóttir, félagsmálastjóri.

BMM

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0