Félagi ábyrgra feðra hefur borist svar félagsmálaráðuneytisins vegna fyrirspurnar félagsins til Félagsþjónustunnar í Reykjavík. Sagt er frá bréfi félagsins til Félagsþjónustunnar hér á síðunni 10. janúar sl. þar sem því er helst haldið fram að raunveruleg búseta barns skipti mestu máli við úthlutun húsaleigubóta og farið fram á að samningar milli foreldra um sameiginlega forsjá og/eða jafna umgengni skuli virtir.

Í bréfi ráðuneytisins er stuðst við lög um húsaleigubætur nr. 138/1997 og greinargerð með upphaflegu frumvarpi frá 1994 þar sem lögheimilisfesta barns er skilyrði greiðslu. Á Íslandi getur barn aðeins átt lögheimili á einum stað, ekki hjá báðum foreldrum.

Í rökstuðningi ráðuneytisins er einnig bent á meðferð barnabóta þegar um sameiginlegt forræði er að ræða. Segir að “barnabætur fái þeir sem hafa barn hjá sér og annast framfærslu þess. Skattayfirvöld fylgja þeirri reglu að hafi foreldrar sameiginlegt forræði fær einungis það foreldri barnabæturnar sem börn eiga lögheimili hjá” (og vísað á heimasíðu ríkisskattstjóra rsk.is).

Eigi foreldrar sem “hafa barn hjá sér og annast framfærslu þess” að fá barnabætur er ljóst að á því er mikil brotalöm. Meðan ósjálfráða börn geta aðeins haft lögheimilisfesti á einum stað er ljóst að foreldrar barna fá ekki þær greiðslur sem þeim ber frá hinu opinbera til að standa straum af uppeldi þeirra, greiðslur eins og barnabætur, húsaleigubætur og aðrar þær sem aðeins eru miðaðar við lögheimili en ekki raunverulega búsetu.

Stjórn Félags ábyrgra feðra hyggst ræða viðbrögð við bréfi ráðuneytisins á næsta stjórnarfundi með það í huga hvernig ná eigi fram viðurkenningu á framfærslu þess foreldris sem barn hefur ekki lögheimili hjá.

BMM

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0