Samband ungra Framsóknarmanna (SUF) hefur sent frá sér ályktun þar sem umræðu um fæðingarorlofsmál er fagnað. Jafnframt hafnar stjórn SUF öllum hugmyndum að innleidd verði sérákvæði um rétt eða réttleysi einstakra starfsmanna. Styðji Framsóknarflokkurinn jafna möguleika kynjanna til allra starfa og grafi öll frávik undan jafnréttisbaráttunni. Þá lýsir stjórnin yfir ánægju með sölu Símans.

„Er óskandi að þessi umræða verði til þess að hugarfar vinnuveitenda þokist enn nær þeim markmiðum sem lágu til grundvallar setningu laga um fæðingarorlof,“ segir í ályktun SUF um umræðuna um fæðingarorlof.

Varðandi Símann segir í ályktun SUF að vel hafi tekist við fyrstu einkavæðingu sem fram fór undir forystu Framsóknarflokksins. Sé til fyrirmyndar að söluferlið hafi verið opið til þess aðila sem bauð hæsta verðið. Þá leggur stjórnin áherslu á að „söluverðmæti Símans verði nýtt á skynsamlegan hátt með niðurgreiðslu skulda og skuldbindinga.“

Þá áréttar stjórn SUF að „einkavæðing orkufyrirtækja landsmanna sé ekki á stefnuskrá sambandsins, enda hafa þau í krafti almannahagsmuna haft aðgengi að auðlindum þjóðarinnar sem ekki er hægt að meta til fjár með eðlilegum hætti,“ líkt og segir í ályktuninni.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0