Meirihluti Hæstaréttar hefur með nýlegum dómi heimilað móður að fá 15 ára dóttur sína tekna úr umráðum föður stúlkunnar og afhenta sér með svonefndri beinni aðfarargerð. Tveir dómarar Hæstaréttar skiluðu séráliti og vildu að kærður úrskurður Héraðsdóms Reykjaness yrði staðfestur, þess efnis að móðirin fengi ekki dótturina frá föður sínum. Móðirin hafði forsjá yfir stúlkunni en hún hafði lýst vilja sínum til að dveljast áfram hjá föður sínum.

Stúlkan er fædd árið 1989 og með staðfestu samkomulagi foreldra hennar fékk móðirin forsjána í mars árið 1992. Frá ágústmánuði 2004 hafði stúlkan dvalið hjá föður sínum, gegn vilja móðurinnar, og lýsti hún vilja til að gera það áfram. Með stefnu í sama mánuði höfðaði faðirinn mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra á hendur móðurinni þar sem hann krafðist forsjár stúlkunnar auk þess sem hann gerði kröfu um að honum yrði fengin forsjá hennar til bráðabirgða. Héraðsdómur hafnaði kröfu föðurins og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti í nóvember sl.

Þar sem stúlkan dvaldi áfram hjá föður sínum krafðist móðirin þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að forsjá hennar yrði komið á með beinni aðfarargerð. Var þeirri kröfu hafnað í héraðsdómi en meirihluti Hæstaréttar hefur nú snúið þeim úrskurði við.

Stúlkunni “fyrir bestu” að fara aftur til móðurinnar

Í niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar er vitnað í fyrri dóm réttarins þar sem fyrir lá álitsgerð sálfræðings. Komst sálfræðingurinn að þeirri niðurstöðu að það væri stúlkunni fyrir bestu að fara aftur til móður sinnar þrátt fyrir vilja hennar til að vera áfram hjá föður sínum. Einnig lá fyrir álitsgerð annars sálfræðings, sem kannaði viðhorf stúlkunnar til beiðni móður hennar. Var vilji stúlkunnar óbreyttur, vildi hún vera áfram hjá föður sínum.

Segir meirihluti Hæstaréttar að fyrri niðurstaða réttarins um forsjá yfir stúlkunni hafi byggst á því hvað væri henni fyrir bestu. Engin gögn hafi verið lögð fram í málinu sem breyttu þeirri niðurstöðu. Faðirinn hafi ekki fært fram rök sem veittu tilefni til að varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga. Fellst rétturinn því á kröfu móðurinnar um að forsjá hennar verði komið á með beinni aðfarargerð.

Afstaða barns fái aukið vægi eftir aldri og þroska

Í séráliti tveggja hæstaréttardómara er m.a. vitnað til barnalaga nr.76/2003 um að foreldrum beri að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess sé ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefi tilefni til. Skuli afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem það eldist og þroskast. Í einum kafla laganna sé fjallað um dómsmál vegna ágreinings um forsjá barns. Þar sé skylt að veita barni, sem náð hefur nægilegum þroska, kost á að tjá sig um mál nema telji megi að slíkt geti haft skaðleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins.

Bendir minnihluti Hæstaréttar á að í hinum kærða úrskurði héraðsdóms liggi fyrir álitsgerðir tveggja sérfræðinga sem ræddu við stúlkuna. Báðir hafi þeir staðfest eindreginn vilja hennar til að dveljast áfram hjá föður sínum. Taldi annar sérfræðingurinn hagsmunum stúlkunnar best borgið með því að fara til móðurinnar en allt að einu væri vafasamt að senda hana þangað gegn eindregnum vilja hennar. Síðan segir í sérálitinu um niðurstöðu annars sérfræðings:

“Þar hafi hann talið það geta verið ábyrgðarhluta að taka öll ráð af barni um persónulega hagi þess og þá ekki hvað síst, þegar um sé að ræða stálpað barn og á þeim aldri sem um ræði í málinu. Sé vilji barns byggður á skynsamlegum rökum og ekki algjör tilbúningur sé hætt við að með því að líta framhjá vilja þess sé verið að ofbjóða sjálfstæði þess og öðrum mikilvægum þáttum sem barn á þessum aldri eigi rétt á að litið sé til.”

Segir minnihluti Hæstaréttar að hér sé um að ræða 15 ára barn sem tekið hafi eindregna afstöðu til þess hjá hvoru foreldra sinna það vilji búa. Í málinu hafi ekki verið sýnt fram á að aðstæður annars foreldrisins til að annast barnið séu betri en hins. Ætla megi að afstaða barns með nægilegan aldur og þroska skipti einmitt máli þegar svo standi á. Þegar litið sé til lögmælts réttar dótturinnar til áhrifa á ákvarðanir um málefni sín og hagsmuna hennar af því að verða ekki þvinguð gegn vilja sínum til að flytjast til móður sinnar telja dómararnir tveir að staðfesta beri hinn kærða úrskurð.

Lögmaður móðurinnar var Valborg Þ. Snævarr hrl. en lögmaður föðurins Dögg Pálsdóttir hrl. Meirihluta Hæstaréttar skipuðu dómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason en séráliti skiluðu Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Föðurnum var gert að greiða móðurinni 200 þúsund krónur í málskostnað en Ingibjörg og Jón Steinar vildu að móðirin greiddi föður stúlkunnar 150 þúsund krónur í kærumálskostnað.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0