Heimurinn allur horfir til þess sem er að gerast hér á landi varðandi fæðingarorlofið. Þetta segir Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu. Nýlega var haldin ráðstefna í Litháen þar sem m.a. var fjallað um þessi málefni og segir Margrét María að íslenska kerfið hafi vakið mesta athygli, en alls tóku fulltrúar 23 landa þátt í ráðstefnunni. “Það höfðu allir áhuga fyrir því sem er að gerast hér á landi, fólk vildi spjalla við okkur og fá upplýsingar og við, íslensku fulltrúarnir á ráðstefnunni, vorum umsetnir á öllum kaffistofum.”
 
Jafnréttisstofa hefur lokið Evrópuverkefni sem miðaði að því m.a. að hvetja karla til að fara í fæðingarorlof. Þátttökulöndin voru fjögur; Ísland, Danmörk, Litháen og Malta. Margrét María segir veruleika landanna þegar að þessu máli kemur mismunandi. Á Íslandi taki til að mynda 85-90% karla fæðingarorlof, en 1,6% í Litháen. Á Möltu þar sem kaþólsk trú er ríkjandi er viðhorfið gjarnan að það sé hlutverk konunnar að vera heima með nýfædd börn sín. Þá nefnir Margrét María að þó svo að í Danmörku hafi feður fullan rétt á að fara í fæðingarorlof beri á því að karlmenn sem það geri fái á sig alls kyns glósur. Jafnréttisstofa hefur nú tekið að sér tvö önnur Evrópuverkefni á svipuðum nótum. Annað er eins konar framhald áðurnefnds verkefnis, en sjónum verður beint að samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Hitt snýr svo aftur að því að skoða samþættingu innan stofnana og fyrirtækja, þ.e. hvernig tekist er á við það innan þeirra þegar karlmenn fara í fæðingarorlof. “Þessi mál brenna á fólki í Evrópu. Menn eru að átta sig á hversu staða karla við skilnað er slæm, þeir standa ekki vel,” segir Margrét María, en tíðni skilnaða hefur á undanförnum árum aukist mjög. Hún nefndi að tíðnin væri umtalsvert lægri í þeim hjónaböndum þar sem jafnrétti ríkti. “Í ljósi þess hversu margir karlar standa illa að vígi eftir skilnað hlýtur að vera eftir miklu að slægjast fyrir þá að berjast fyrir jafnrétti. Það er þeirra hagur og ég hef saknað þess hversu lítinn gaum þeir hafa gefið þessum málum. Látið konurnar um þau, en nú er að verða breyting á,” segir Margrét María.
Hún vísar m.a. til þess að karlar efna til ráðstefnu um jafnréttismál nú á fimmtudag. Ef frá er talin Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, taka eingöngu karlar þátt í þessari ráðstefnu, “og það er hið besta mál, það er kominn tími til að karlar setjist niður og ræði sín á milli um mál sem á þeim brenna, ráði ráðum sínum. Það hefur fram til þessa verið hálfgert tabú.”

Konur hafa forskot
Í rannsókn sem Ingólfur V. Gíslason, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, hefur gert á dómum í forsjármálum kom í ljós að konur fengu forsjá í 60% tilvika á móti 40% tilvika hjá körlum. Um er að ræða tímabilið frá 1995 til 2001. Svo virðist að sögn Margrétar Maríu að dómarar horfi til þess við uppkvaðningu hvoru foreldranna barnið er nánara og að þar hafi konur ótvírætt forskot eins og staðan hafi verið, konur hafi í meira mæli verið heima og sinnt börnunum. Þá sé líka litið til þess hvort valdi minni röskun á högum barnsins, hvort foreldranna sé líklegra til að tryggja hinu umgengni við það og eins sé barnið sjálft spurt álits hafi það náð til þess þroska. Margrét María segir ekki laust við að borið hafi á fordómum varðandi þessi mál og þá körlum í óhag. Þó svo að báðir foreldrar séu taldir jafnhæfir, fari karlar oftar halloka, mæður hafa forskot, m.a. þar sem þær hafi meira verið heima við. “Þessa fordóma þarf að uppræta.” Margrét María nefndi að þróunin hefði orðið sú á liðnum árum að vinnutími karla hefði styst, þeir ynnu færri stundir nú en áður, en að sama skapi hefði vinnutími kvenna aukist. Áður fyrr var ekki óalgengt að karlar ynnu langan vinnudag, sáust vart á heimilum sínum og eðli málsins samkvæmt hefðu þeir því ekki tekið mikinn þátt í heimilishaldinu, sinnt börnum og búi. Breytingar hefðu nú orðið á og meira jafnræði með kynjunum hvað vinnutíma varðar. Karlar hefðu því nú meiri möguleika á að sinna uppeldi barna sinna.

Aukið sjálfstraust
Það hversu margir íslenskir karlar tækju fæðingarorlof benti líka til aukins áhuga og að viðhorf hefðu breyst hvað þetta varðar. Margrét María nefndi að fram hefði komið í könnun á vegum Jafnréttisstofu að karlmenn sem fóru í fæðingarorlof hefðu fengið aukið sjálfstraust, “kannski vegna þess að þeim hefur tekist vel til við að vinna verk sem þeir töldu sig ekki ráða við. Við eigum eftir að skoða þessi mál miklu betur,” sagði hún, en nefndi jafnframt að þessu væri öfugt farið varðandi konur.
Þær upplifðu oft að staða þeirra hefði veikst í kjölfar þess að farið var í fæðingarorlof og mörgum fannst þær missa tengsl út í samfélagið. “Meðal þess sem karlarnir nefndu var að þeim fannst þeir flinkari en áður í að lesa tilfinningar og töldu að það myndi nýtast sér í starfi. Þetta er nokkuð nýr vinkill, sem gaman verður að skoða betur.” Margrét María sagði að fyrirhugað væri að gera fleiri og viðameiri kannanir á því t.d. hvað karlar gerðu í fæðingarorlofi. Sögusagnir væru í gangi um að þeir væru bara í veiði og sumir töldu að þeir yrðu að gera eitthvað á heimilinu, dunda í bílskúrnum, flísaleggja, smíða sólpall eða sinna öðrum hefðbundnum karlastörfum á heimilum.

Eftir Margréti Þóru Þórsdóttur maggath@mbl.is

Mbl iðvikudaginn 30. nóvember, 2005 – Innlendar fréttir

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0