Sophia Hansen og Hund-Tyrkinn-Íslendingurinn

Rétturinn til fjölskyldulífs nær ekki aðeins til forsjárforeldra heldur til allra manna…

FJÖLSKYLDULÍF er það að börn og foreldrar myndi eðlilegt, heilbrigt tilfinningasamband á grundvelli eðlilegra samskipta. Grundvöllurinn er samskipti, tilfinningasamband og traust. Eitt það helsta sem vinnur gegn slíkum grundvelli er skilnaður.

 
Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna ber þó öllum einstaklingum réttur til að þekkja foreldra sína og aðskilnaður, t.d. vegna stríðs, átaka eða skilnaðar foreldra, getur ekki svipt einstaklinginn þessum rétti. Fjölskyldulíf er einnig hornsteinn mannréttinda að mati Mannréttindadómstóls Evrópu. Rétturinn til fjölskyldulífs er meginefni þeirra mannréttinda sem tyrkneska ríkið var talið hafa brotið á Sophiu Hansen í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá sl. hausti. Þannig vernda sáttmálarnir réttinn til fjölskyldulífs.

Ísland er aðili að báðum þessum sáttmálum. 8. grein Mannréttindasáttmálans hefst á þessum orðum: “Sérhver einstaklingur hefur rétt til að einkalífi hans og fjölskyldulífi, heimili hans og bréfasambandi sé sýnd virðing.”

Túlkun dómstólsins á ákvæðinu í máli Sophiu Hansen þýðir að hvers kyns aðskilnaður og sambandsrof milli barna og foreldra sé mannréttindabrot og stundum jafnvel glæpsamlegt, eins og þegar tyrkneska ríkið tryggði Sophiu ekki umgengni við börn sín.

Þeir sem stuðla að slíkum mannréttindabrotum eru því sekir í ljósi Mannréttindasáttmálans. Að mati Félags ábyrgra feðra hljóta sýslumenn á Íslandi, margir félagsráðgjafar og lögfræðingar að vera sekir um að hvetja til mannréttindabrota með kröfum og úrskurðum um takmarkaða eða enga umgengni barna og forsjárlausra foreldra (feðra). Svo ekki sé minnst á notkun bréfa frá börnum um mannvonsku föðurins.

Umgengnistálmanir

Í máli Sophiu Hansen kom glöggt fram að umgengni hennar og dætranna var tálmuð ítrekað með löglegum og ólöglegum ráðum af hálfu forsjárforeldris þeirra. Réttur Sophiu til að fá atbeina yfirvalda til að knýja fram umgengni er að mati dómstólsins skýlaus. Dómstóllinn lítur þannig á að umgengni sé skilyrðislaus réttur barns og forsjárlauss foreldris og að yfirvöldum beri ótvíræð skylda til að beita tiltækum úrræðum til að knýja fram umgengni sé hún tálmuð af hálfu forsjárforeldrisins. Hér á Íslandi viðgengst að forsjárforeldri tálmi umgengni mánuðum og jafnvel árum saman og yfirvöld verðlauna þau jafnvel í úrskurðum sínum – þvert gegn dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Nýlega úrskurðaði t.d. sýslumaðurinn í Hafnarfirði svo að engin umgengni skyldi vera milli föður og barns hans. Meðal gagna sem hann byggði úrskurð sinn á var bréf sem barnið var sagt hafa skrifað um að það vildi ekki umgengni. Í bréfinu var föðurnum fundið margt til foráttu.

Vitnisburður barna

Á Íslandi er algengt að börn séu látin vitna gegn því foreldrinu sem þau búa ekki hjá (föðurnum) þegar ágreiningur rís um forsjá og umgengni. Er þá lagt fram bréf frá barninu um að faðirinn sé leiðinlegur, vondur, ofbeldishneigður eða hafi verið vondur við móðurina meðan þau bjuggu saman. Þessi bréf eru að sjálfsögðu málsgögn og ber að íhuga þau sem slík. Í því samhengi er þó nauðsynlegt að athuga hvernig þau verða til. Um þetta atriði fjallaði Mannréttindadómstóllinn í máli Sophiu Hansen. Börn hennar vitnuðu í þrígang á sex árum fyrir dómi um að hún væri leiðinleg, slæm móðir og lauslát. Tilgangur vitnisburðarins var augljóslega að sýna fram á að börnin vildu ekki umgangast móður sína. Niðurstaða dómstólsins var sú að vitnisburður barnanna sýndi að þau hefðu aldrei fengið tækifæri til að rækta samband sitt við móðurina við eðlilegar aðstæður og þess vegna væru þau ekki lengur fær um að tjá sig frjálslega um tilfinningar sínar til hennar án utanaðkomandi þrýstings. Dómstóllinn taldi að aðstæður og forsjárforeldrið hefðu snúið börnunum gegn móðurinni og í reynd ruglað þau í ríminu gagnvart henni. Þrátt fyrir mikla ígrundun gat dómstóllinn því ekki tekið vitnisburð barnanna trúanlegan.

Á Íslandi virðast barnaverndaryfirvöld, sýslumenn og önnur yfirvöld fyrst og fremst huga að því hvað börnin segja, án tillits til aðstæðna, sambands barnanna við foreldrana, eða umgengnistálmana, eða þess hvort vitnisburður þeirra er trúverðugur eða hefur jafnvel verið lesinn fyrir þeim. Þannig ríkir algert ófremdarástand í þessum málum hér á landi og forsjárforeldrar komast upp með margvísleg mannréttindabrot gagnvart börnum sínum og fyrrverandi mökum. Hér er, því miður, margt líkt með framferði íslenskra yfirvalda gagnvart þúsundum íslenskra feðra og tyrkneskra yfirvalda gagnvart Sophiu Hansen.

Réttur til fjölskyldulífs er skýlaus

Túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á ákvæðinu um að sýna beri fjölskyldulífi annarra virðingu er alveg afdráttarlaus: Rétturinn til fjölskyldulífs nær ekki aðeins til forsjárforeldra heldur til allra manna, hvort heldur þeir eru börn, forsjárforeldrar eða forsjárlausir foreldrar. Það eru ekki bara tyrknesk yfirvöld sem þurfa að taka tillit þessa dóms, heldur einnig íslensk.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0