Verndum börnin meðan á skilnaði stendur
Á hverju ári skilja nálega þrjú þúsund íslensk hjón (eftir hjónaband eða óvígða sambúð). Fyrir allt þetta fólk, karla og konur, er þetta skelfileg reynsla, tilfinningalega og fjárhagslega sú versta sem þau lenda í.

Fyrir börnin er þetta jafnvel enn verra.

Hugsaðu þér að þú sért sex ára og allt í einu er eina fólkið sem þú hefur reitt þig á um mat, húsaskjól og ást komið í hár saman. Í þínum unga huga sérðu þig sem ástæðuna fyrir reiði þeirra og að þú kunnir jafnvel að glatast í þessari rimmu. Áður en þú veist af ertu farinn að hugsa að það sé ekki lengur neinn til að hræða skrýmslin í skápnum í burtu.

Til að gera illt verra ertu oft einn með angist þína því þau tvö sem þú hefur alltaf leitað til eftir huggun – foreldrar þínir – eru of upptekin af eigin reiði og sorg til að veita þér nokkra hjálp.

Það vekur þér ugg svo ekki sé meira sagt.

Sem foreldri dugir ekki að gera ráð fyrir að barnið þitt nái sér þegar lagaflækjurnar við skilnaðinn eru yfirstaðnar. Þótt mörgum fullorðnum finnist líf sitt eftir skilnað miklu betra en fyrir skilnaðinn þá er því ekki þannig varið með börnin.

Skilnaður setur mark sitt á börn bæði í bráð og lengd. Ung börn foreldra sem eru að skilja lenda oft í þunglyndi, óregla kemst á svefninn, sjálfsmatið minnkar, árangur í skóla versnar, frávik koma í hegðun og margvísleg önnur vandamál til líkama og sálar.
Löngu eftir að skilnaðurinn er í höfn eiga skilnaðarbörn í erfiðleikum með að bindast vinaböndum á eigin spýtur af ótta við að samböndin endi eins og hjá foreldrunum.
Auk þess hefur rannsókn í Princeton háskóla sýnt að börn sem búa ekki hjá öðru foreldri sínu eru líklegri en börn sem búa hjá báðum foreldrum til að detta úr skóla, verða iðjulaus (vera hvorki í skóla né vinnu) og eignast barn fyrir tvítugt.

Aðrar álíka rannsóknir sýna svipaðar niðurstöður um að áhrif skilnaðar á börn eru langvarandi og skaðleg. Þessar dapurlegu staðreyndir leggur þá skyldu á herðar öllum foreldrum í skilnaðarhugleiðingum að setja börnin ofar lagadeilunni. Þetta þýðir oft að tvær manneskjur sem eiga erfitt með að vera í sama herbergi án þess að öskra hvort á annað þurfa að taka sameiginlegar ákvarðanir af yfirvegun, stillingu og umfram allt af ást, um velferð barna sinna.

Það þýði að þau haldi niðri í sér reiðinni við maka sem bæði svíkur og vanrækir, er það þegar allt kemur til alls barnið sem stendur uppi sem sigurvegari. Það er augljóslega mikið í húfi. Gróflega áætlað missir þriðjungur skilnaðarbarna samband við annað foreldri sitt sem þarmeð sviptir þau leiðsögn, stuðningi og ást fullorðinnar manneskju um langt árabil. En mörg börn sem hafa samband við báða foreldra eru samt engu betur sett því þau kveljast árum saman af sífelldum rifrildum foreldranna.
Og því lengur sem deila foreldranna stendur því alvarlegri verður sálrænn skaði barnsins. Mörg börn bregðast við slíku álagi með því að slökkva á tilfinningum sínum og byrgja þær allar inni. Þessi börn eru ekki aðeins svipt gleði bernskunnar heldur verða þau einnig oftar en ekki tilfinningaleg reköld á fullorðinsárum.

Það skiptir miklu að foreldrar minnist þess að athafnir þeirra meðan á skilnaðarferlinu stendur hafa langtíma áhrif sem þau ætluðu sér kannski alls ekki að hafa. Móðir sem bannar dóttur sinni til dæmis að hitta kvensaman föður, leggur með því grunninn að vantrausti dótturinnar á öllum körlum og eyðileggur þannig hugsanlega náin sambönd barnsins þegar á fullorðinsaldur er komið.

Foreldrar verða einnig að átta sig á að börn túlka oft reiði milli maka sem reiði út í börnin. Það er einmitt vegna þess að börnin eru sér meðvitandi allt frá unga aldri að þau eru „að hluta mamma“ og „að hluta pabbi.“ Þegar par sem stendur í skilnaði gerir lítið úr hvort öðru í nærveru barnanna ráðast þau ekki síst á sjálfsmynd barnanna.
Þótt skilnaður sé aldrei auðveldur fyrir börn getur slík kreppa iðulega verið dulbúið tækifæri. Sálarheill barnsins eftir skilnað foreldranna hvílir svo mjög á hegðun foreldranna á meðan á skilnaðinum stendur að aðskilnaðarferlið er oft góður tími fyrir foreldrana til að hugsa um velferð barnanna og leita faglegrar aðstoðar ef þurfa þykir fyrir sjálf sig og börnin.

Það kann jafnvel að vera börnunum nauðsynlegt að verja einhverjum tíma ein hjá ráðgjafa sem kemur kannski auga á dulin skilaboð í myndverkum eða frásögnum barnsins. Eitt af því mikilvægast sem foreldrar geta gert til að tryggja velferð barnanna eftir skilnað er að forðast forsjárdeilu. En jafnvel þótt foreldrarnir deili ekki um forsjá getur reiði foreldranna í garð hvors annars sært börnin og slíkt skyldi forðast eins og hægt er.(Sjá Tíu ráð til foreldra í skilnaðarhugleiðingum og Réttur barna.)

Það þarf að hjálpa börnunum að ná sér jafnvel áður en formlega er sótt um skilnað, og má segja að ferlið hefjist þegar foreldrarnir segja börnunum að þau séu í skilnaðarhugleiðingum. Börnin ættu að heyra fyrst um skilnaðinn af vörum foreldra sinna, eins fljótt og hægt er eftir að þau hafa tekið ákvörðunina. Best er að bíða ekki þar til annað foreldrið er flutt af heimilinu.

Vænlegast er að báðir foreldra séu viðstaddir þegar börnunum er sagt frá yfirvofandi skilnaði. Ef börnin eru á svipuðu reki ætti að segja þeim frá samtímis. Ef mikill aldursmunur er þá getur verið gott að segja þeim þetta saman en eiga síðan stund með hvoru eða hverju barni um sig og beita þá skýringum sem henta aldri þeirra og þroska.
Þegar foreldrar segja börnunum frá yfirvofandi skilnaði ættu þau ekki að leyfa sér að segja frá framhjáhaldi eða kynsvelti og þau ættu að forðast að kenna öðru hvoru foreldrinu um. Ein hugsanleg aðferð er að kynna skilnaðinn sem leið til að leysa vandamál fjölskyldunnar, til að binda enda á deilur og spennu sem hefur fyllt heimilið reiði.

Heiðarleiki er lykilatriði þegar börnunum er sagt frá skilnaðinum. Það þarf að segja þeim að líf þeirra muni breytast og erfiðara verði um vik með sumt, eins og að vera með foreldrinu sem þau búa ekki hjá meginpartinn.
Það þarf að hvetja börn til að ræða tilfinningar sínar, annað hvort við foreldra, vini eða ráðgjafa.

Best er að foreldrar biðji börnin ekki að velja hjá hvoru foreldrinu þau vilji búa. Ef þau hafa skoðun á þessu máli kemur hún líkast til fram óbeðin. Ef þau hafa ekki skoðun ætti ekki að koma þeim í þá stöðu að þurfa að velja annað foreldrið.
Rétt er að íhuga vel sameiginlega forsjá við skilnað. Hún veitir báðum foreldrum jafnan rétt við ákvarðanatöku fyrir barnið, jafnvel þótt umönnun sé ekki jöfn.
Þótt erfitt geti verið að deila umönnun með svo nánum hætti með manneskju sem býr ekki lengur á sama stað er þetta ein besta leiðin fyrir foreldra til að sýna börnunum ást sína.

Flest börn – og reyndar flest fullorðið fólk einnig – dreymir um að vera hluti af kjarnafjölskyldu, með mömmu og pabba, nokkrum ánægðum börnum og hundi, þar sem allir lifa í sátt og samlyndi undir einu þaki. En með sífjölgandi skilnuðum er ljóst að þessi draumur verður að veruleika fyrir sífellt færri fjölskyldur.

Í stað þessa draums koma tækifæri, bæði fyrir foreldra og börn. Með því að sleppa reiðinni ekki lausri geta foreldrar í skilnaðarhugleiðingum nálgast það sem ætti að vera sameiginlegt markmið með börnunum – að viðhalda örvandi umhverfi og draga sem mest úr hugsanlegum skaðvænlegum áhrifum svokallaðrar „sundraðrar fjölskyldu“.

Af vef samtakanna American Academy of Matrimonial Lawyers, Copyright 1997-2001 AAML – http://www.aaml.org/stepping.htm © þýðing Félag ábyrgra feðra 2004.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0