Í íslenskum lögum eru forsjá og umgengni aðskilin. Forsjá lýtur að ákvarðanatöku um helstu þætti í uppeldi og umönnun barns en tengist einnig búsetu barns, ekki síst lögheimili. Félag ábyrgra feðra hefur margt að athuga við tengingu forsjár og lögheimilis því skv. íslenskum lögum tengjast mörg réttindi lögheimili en ekki forsjá sem slíkri.
 
Þannig eru barnabætur greiddar í samræmi við lögheimili, en það kemur flestum feðrum með sameiginlega forsjá illa, því að í yfir 90% tilvika þar sem um sameiginlega forsjá er að ræða er lögheimilið hjá móðurinni, eins og liggur fyrir í tölum Hagstofunnar.

Umgengni lýtur að rétti barns til að vera hjá því foreldri sem ekki hefur forsjána. Umgengnisréttur er skv. íslenskum lögumk réttur barns til að umgangast það foreldri sitt sem ekki hefur forsjána fyrir því. Umgengnisréttur er helgaður í lögum, bæði eldri og nýjum barnalögum, en einnig í alþjóðasamþykktum, ekki síst í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umgengni gegnir því hlutverki að tryggja rétt barnsins til að mynda gott og heilbrigt samband við það foreldri sitt sem ekki hefur forsjá þess og er tilgangurinn sá að draga sem mest úr því áfalli sem skilnaður foreldranna er og gera barninu kleift að þroskast á sem eðlilegastan hátt. Þannig er umgengni í reynd löghelgun þess réttar barnsins að fá sem best tækifæri í lífinu til að skapa sér heilbrigða og heilsteypta sjálfsmynd. Rannsóknir víða um heim sýna líka að skilnaðar-börn sem ekki umgangast föður sinn (börnin búa eins og fyrr er sagt í langflestum tilvikum hjá mæðrum sínum) eiga miklu meira á hættu að ánetjast eiturlyfjum, lenda í afbrotum, sökkva í þunglyndi og önnur geðræn vandamál, og almennt að verða undir í lífinu. Þess vegna hafa mörg samfélög og bandalög þjóða fært í lög réttindi barna til að umgangast báða foreldra sína.

Það eru því tengdir saman hagsmunir samfélagsins og hagsmunir barnsins. Foreldrarnir koma umgengni lítið við nema sem þolendur. Samfélagið krefst þess að hver einstaklingur verði nýtur þegn. Þegar foreldrar slíta samvistum eða skilja er nauðsynlegt að samfélagið hafi til eitthvert kerfi til að vernda börnin fyrir áfallinu og koma þeim til manns, gera þau að gegnum þegnu samfélagsins. Þessu hlutverki gegni umgengnisrétturinn.

Meðal algengra spurninga sem Félag ábyrgra feðra fær er hvort forsjárforeldrið geti sett hinu skilyrði um umgengnina, t.d. bannað því að fara með barnið/börnin í heimsókn til afa og ömmu, bannað því að gista hjá vinum sínum, eða bannað að forsjárlausa foreldrið fari með barnið/börnin út á land. Einnig hefur félagið vitneskju um að forsjárforeldri setji hrein fjárkúgunarskilyrði eins og að ef forsjárlausa foreldrið kaupi ekki föt á barnið, borgi ekki leikskólagjöld, borgi ekki tómstundaiðkun þess, jafnvel að ef forsjárlausa foreldrið borgi ekki sjónvarp, tölvu, eða fleira í innbú forsjárforeldrisins, fái það forsjárlausa ekki að sjá barnið þennan mánuðinn, þetta árið eða í þessu lífi!

Engin sérstök grein í barnalögum skilgreinir umgengni eða umgengnisrétt, en í greinargerð með frumvarpi til nýrra barnalaga (sem voru samþykkt í mars 2003 og taka gildi 1. nóvember 2003) hafði sifjalaganefnd þetta að segja um umgengnisrétt forsjárlauss foreldris og barns:

„Segja má að umgengnisréttur feli í sér nokkra skerðingu á réttindum þeim er fylgja því að fara með forsjá barns, þar sem foreldrið sem barn býr hjá getur almennt ekki sett skilyrði um hvar umgengni skuli fara fram eða með hvaða hætti, t.d. hverja barnið megi heimsækja með umgengnis-foreldrinu meðan á umgengni stendur eða um það hvað foreldri og barn taki sér fyrir hendur meðan á umgengninni stendur o.s.frv. Þetta á þó að sjálfsögðu ekki við ef umgengnin þykir andstæð hag og þörfum barns og er þá unnt að setja sérstök skilyrði í úrskurð um umgengni eða leggja bann við umgengninni.“ (frumvarp, s. 65, leturbreyting GB)

Þetta þýðir að svo fremi að það sem forsjárlausa foreldrið og barnið/börnin taka sér fyrir hendur stefnir ekki heilsu, hag eða lífi barnsins í voða þá hefur forsjárforeldrið ekkert um það að segja hvernig forsjárlausa foreldrið og barnið/börnin verja tíma sínum saman. Með öðrum orðum á þetta við um umgengni í langflestum tilvikum. Forsjárforeldrið getur látið barnið gista hjá vinum sínum, hjá afa og ömmu, hjá frændum eða frænkum án þess að spyrja forsjárlausa foreldrið. Á sama hátt getur forsjárlausa foreldrið gert nákvæmlega það sama og þarf ekki samþykki forsjárforeldisins fyrir því. VEGNA ÞESS að meðan barnið er í umgengni hjá forsjárlausa foreldrinu hefur það ígildi forsjárvalds fyrir barninu. Og er rétthærra forsjárforeldrinu ef svo má segja. Hagsmunir barnsins krefjast þess. Hvernig á barn að geta myndað heilbrigt samband við forsjárlausa foreldrið ef forsjárforeldrið stjórnar athöfnum þeirra þegar það er ekki nærri? Forsjárlausa foreldrið getur aldrei verið heilbrigt í sambandi sínu við barnið ef forsjárforeldrið stjórnar öllum athöfnum þess og barnsins/barnanna. Samband tveggja einstaklinga er ekki heilbrigt ef annar aðilinn er ekki heill í sambandinu. Þetta vita allir fullorðnir, heilbrigðir einstaklingar.

Í nýgengnum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Sophiu Hansen gegn tyrkneska ríkinu er einmitt lögð rík áhersla á að foreldri og barn/börn geti myndað það traust samband að þau geti upplifað sig sem fjölskyldu, því rétturinn til fjölskyldulífs er heilagur samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu, og líklega fleiri alþjóðlegum sáttmálum. Það að upplifa sig sem fjölskyldu er einfaldlega ekki hægt ef sífelld áreitni, afskipti eða hrein boð og bönn ríkja af hálfu annars aðilans, af hálfu forsjárforeldrisins. Til að upplifa sig sem fjölskyldu þurfa forsjárlausa foreldrið og barnið/börnin að hafa frið og næði til að mynda eðlilegt samband sem hægt er að móta eðlilegt fjölskyldulíf út frá. Þess vegna tryggir Mannréttindasáttmáli Evrópu, sem Ísland er aðili að, rétt forsjárlauss foreldris til að ráða því hvernig umgengni þess og barns/barna er háttað, ráða því hvar og hvernig umgengni er háttað og slíkt.

Það er því aðeins að einhver hætta sé barninu búin í umgengni þess við forsjárlausa foreldrið sem forsjárforeldrið getur haft afskipti af umgengninni. Og það er skv. íslenskum lögum aðeins hægt með aðstoð yfirvalda eins og sýslumanns eða barnaverndarnefndar. Það er ekki nóg að forsjárforeldri gruni eitthvað, ekki frekar en að mann gruni að annar maður sé að aðhafast eitthvað glæpsamlegt. Ekki er hægt að grípa inn í nema eftir tilteknu kerfi. Á Íslandi hefur það tíðkast að lögreglan láti siga sér í svona málum, t.d. með því að fara þangað sem barn gistir hjá vinum sínum þegar það er í umgengni hjá forsjárlausu foreldri. Slíkt er ekki í samræmi við íslensk lög, því til slíkra úrræða þarf einhvern úrskurð lögmætra yfirvalda. Lögreglan getur ekki tekið barn úr umgengni hjá forsjárlausu foreldri nema með ákvörðun annars yfirvalds sem fer með forsjár- og umgengnismál, þ.e. sýslumanna eða dómara. Lögreglan getur að sjálfsögðu komið á staðinn og yfirheyrt fólk, en ekki handsamað eða numið neinn á brott. Um þetta eru hreinar línur samkvæmt íslenskum lögum.

Lögreglan er í mörgum tilfellum ekki heldur í stakk búin til að dæma hvort barni stafi hætta af umgengninni. Séu allir fullorðnir undir áhrifum áfengis eða eiturlyfja eða annars sem skerðir meðvitund þeirra hefur lögreglan að sjálfsögðu almenna heimild til afskipta. En oft þegar forsjárforeldri sigar lögreglunni á forsjárlaust foreldri er ekki um neitt slíkt að ræða, heldur aðeins grun og oft á tíðum ofsóknarkennd viðkomandi forsjárforeldris eða einhvern annan brest, svo að lögreglan grípur í tómt ef svo má segja. Forsjárforeldrið telur sig samt hafa vinninginn því lögreglunni var sigað – og þá hlýtur náttúrulega eitthvað að vera að. Þ.e. útfrá hugsuninni að láta barnið njóta vafans, en Félag ábyrgra feðra er alfarið á móti þeim hugsunarhætti því þá eru allir sekir um eitthvað og hægur vandi að dæma alla til refsingar. En forsjárlausa foreldrið á ekki að láta undan síga heldur bíta í skjaldarrendur og krefjast (kurteislega að sjálfsögðu) skýrslu – sem hreinsar viðkomandi forsjárlaust foreldri alveg í flestum tilvikum. Senda síðan afrit til viðkomandi sýslumanns ásamt bréfi um aðfarir forsjárforeldrisins, um ólögmæt afskipti.

Það er oft þetta síðasta sem skiptir mestu þegar á hólminn er komið. Hvort að eitt að siga lögreglunni hefur vinninginn eða ekki. En lögin eru klár um þetta. Forsjárforeldrið fer yfir strikið ef það sigar lögreglunni og ekkert er að. Það heitir áreitni í venjulegum samskiptum. Ef það gerist í tvígang er eitthvað meira en lítið að hjá viðkomandi forsjárforeldri. Ef forsjárlausa foreldrið er í vafa á það skilyrðislaust að hafa samband við Félag ábyrgra feðra, hvort heldur það er móðir eða faðir. Eða við lögregluna eða sýslumann.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0