Ástvinamissir

Skilnaður er að mörgu leyti sambærilegur við ástvinamissi. Munurinn á þessu tvennu er hins vegar sá að ástvinamissir er viðurkennt sorgarferli, en skilnaður ekki. Þess vegna býðst svo lítil aðstoð, hjá vinum og vandamönnum – sem skilja illa þær þjáningar sem skilnaðurinn leiðir yfir fólk, skilja ekki þær geðsveiflur sem honum fylgja, þá sorg og vanlíðan sem liggur í sjálfum skilnaðinum. Hið opinbera veitir engin grið, allir þurfa að ganga frá málum eins fljótt og hægt er, ganga frá forsjá, frá umgengni, frá eignaskiptum. Þegar allir eru í sárum, og samkvæmt þessum tölum erum við að tala um tugi þúsunda manna á hverju ári (konur, karla og börn), eiga foreldrar, sem áður elskuðust en hatast oft nú, að ganga frá málum sem snerta þá inn að kviku sjálfs lífsins – eins og allt sé eðlilegt og í stakasta lagi. Þegar allt er í hörmulegri klemmu.

Nýjar kröfur

Eftir skilnað brotna menn gjarnan saman. Karlarnir lenda í þeirri klemmu að í samfélaginu ríkja miklir fordómar gegn þeim. Hefðbundinn skilnaður fer þannig að karlinn gengur út úr húsinu, skilur þar eftir allt innanstokks, alla aðra í fjölskyldunni, lætur konunni eftir allar eignir og tekur á sig allar skuldir. Eftir skilnaðinn hittir hann börnin þegar móðirin leyfir. Svo er honum sagt að borga þangað til hann annað hvort örvilnast eða segir hingað og ekki lengra. Í stuttu máli þá glatar hann öllum sínum nánustu, makanum og börnunum. Ástvinamissirinn er yfirgengilegur, sorgin litar allt líf hans. Og þá á hann að takast á við eignaskiptin, forsjána, umgengnissamning. Og finna sér nýtt húsnæði, finna sér nýjan samastað í tilverunni þar sem ekkert minnir á fyrri tilveru. Heimsmynd hans er hrunin, sjálfsmynd hans er brotin í small, umhverfi hans óskiljanlegt. Og þá finnst öllum öðrum að hann eigi að taka sig á, sýna heiminum að hann sé ekki aumingi, en samt að gefa allt eftir í samskiptum við konuna varðandi heimilið og börnin. Þannig ætlast umhverfi hans, ættingjar og vinir, til þess að hann sé sterkur og veikur í senn. Kröfurnar eru svo ólíkar aðstæðum hans að það er mesta furða að karlar skuli almennt ekki gefast algerlega upp og fyrirfara sér í stórum stíl eftir skilnað (sjá hér tölur um sjálfsvíg).

Karlmennska

En karlmennskan er mikill kostur, hún lætur ekki alveg buga sig, hún finnur leið til að lifa af í greninu sem verið er að svæla hana út úr. Karlmennskan krafsar sig út úr vandamálunum. Karlmennskan er seig og sér möguleika til að snúa þessu tapi í sigur. Karlmennskan tekur á sorginni ein eins og ætlast er til og þvert gegn viðhorfunum í kring. En líka vegna viðhorfanna í kring því þótt ættingjar og vinir skilji ekki stöðu karlmannsins og karlmennskunnar í skilnaðinum þá vilja þeir vel og gefa ráð sem duga, að vísu skammt en duga smá leið. Að minnsta kosti til að leita að þessum kjarna sem er í karlmennskunni, hörkunni sem berst fram í rauðan dauðann.

Krafa um samfélagsbreytingar

Hin nýja staða karla ogkarlmennskunnar hrópa á að samfélagið, einstaklingar, ríkið, kirkjan, ráðgjafarnir, sýslumennirnir, komi þessu fólki til hjálpar. Ein leið til þeirrar aðstoðar er að gera sameiginlega forsjá að sjálfgefinni meginreglu við skilnað svo fólk þurfi nú ekki að berjast um börnin. Önnur er sú að endurbæta allt bóta- og meðlagsgreiðslukerfið með það fyrir augum að taka tillit til þeirra samfélagsbreytinga sem orðið hafa á umliðnum þremur áratugum – með aukinni atvinnuþátttöku kvenna og að sama skapi aukinni heimilis- og uppeldisþátttöku karla. Ennfremur að til verði í samfélaginu ráðgjöf af því tagi sem Félag ábyrgra feðra hefur veitt feðrum af veikum mætti, en þarf að vera fyrir alla aðilana: uppbyggileg og heildstæð sálræn ráðgjöf með lögfræðilegu ívafi.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0