Samkvæmt upplýsingum Landlæknisembættisins reyna á hverju ári um 600 til 700 einstaklingar sjálfsvíg. Í langflestum tilvikum, eða 80%, er talið að þunglyndi sé helsta ástæðan.

Nýjustu upplýsingar eru fyrir árið 2000, en það ár frömdu 51 einstaklingur sjálfsvíg hér á landi. Af þeim eru 43 karlar (84%) en konur voru 8 (16%). Meðalaldur karlanna er 34 ár en kvennanna 43 ár.

Fimmti hver karl er 19 ára eða yngri (8 piltar), sá yngsti fimmtán ára.

Meðal hinna 35 er einn áhættuhópur sjálfsvígs fráskildir, einmana, atvinnulausir karlmenn eins og segir í “Staðreyndum um þunglyndi og sjálfsvíg”. Þótt atvinnuleysið bætist ekki ofan á eru fráskildir feður áhættuhópur fyrir þunglyndi. Eins og sést á útreikningum hér á vefnum eru fjármál fráskilinna feðra oft á tíðum hræðileg. Karlarnir afhenda oft á tíðum konunum, mæðrum barna sinna, allar eigur eftir skilnað.

Ábyrgð þeirra gagnvart börnunum leiðir marga feður einnig til að taka á sig allar skuldir við skilnað. Síðan borga þeir meðlag og margir samþykkja að borga meira meðlag en tilskilið er samkvæmt lögum. Síðan fá sumir þeirra jafnvel enga umgengni við börnin sín svo mánuðum eða árum skiptir. Með öðrum orðum missa þeir allt vald á fjármálum sínum, eiga varla til hnífs eða skeiðar, eiga engan varasjóð og þurfa að borga endalaust til að halda sér á floti. Og missa börnin sín.

Því miður tekst ekki öllum að halda sér á floti við þessar aðstæður. Við alla þessa erfiðleika missa menn fótanna í lífi sínu. Kerfið vinnur gegn þeim og samþykkir kröfur mæðranna – alltaf í þágu barnanna að sagt er.

Ástvinamissir

Skilnaði er gjarnan líkt við ástvinamissi. Fyrrverandi makar fjarlægjast, þeir þurfa að takast á við nýtt líf án þeirrar manneskju sem stóð þeim næst í lífinu. Hluti af skilnaðarferlinu er sorg, missir þessarar nánu manneskju sem áður var manni svo mikið. Önnur sorg er þegar maður flytur í nýtt húsnæði og þar er varla nokkurt merki um fyrri fjölskyldu, engar myndir á veggjum, ekkert sem minnir á börnin því rúmið eða rúmin ásamt öllum húsgögnum sem þeim tilheyrðu eru hjá móðurinni. Þessir einstaklingar sem skipta mann svo ótrúlega miklu þótt þeir séu ekki vinir í sömu merkingu og fullorðið fólk, þeir eru farnir, búa í öðrum heimi sem er manni luktur.

Sú sorg er mörgum óskiljanleg sem ekki hafa upplifað skilnað – þegar börn eru með í dæminu. Jafnvel þótt umgengni sé rúm á mælikvarða hefðarinnar, t.d. fjórir dagar aðra hverja helgi, þá er missirinn fyrir augum manns alla hina dagana.

Þegar þessi sorg vegna ástvinamissisins bætist við fjárhagsáhyggjur svo ekki sé minnst á það þegar starfsorkan minnkar af öllu álaginu, finnst mönnum jafnvel öll sund vera lokuð. Þeir upplifa skipbrot í lífinu. Því miður reyna þá allt of margir að binda enda á lífið.

Karlar og tilfinningar

Það hefur lengi verið hluti og er enn hluti af uppeldi drengja að þeir eigi ekki að gráta eða almennt að sýna tilfinningar sínar (smelltu hér til að sjá greinina “Kynfestir eiginleikar”). Þetta virðist bera mikinn árangur þegar drengirnir fullorðnast og verða að mönnum. Í rannsóknum á þunglyndi í gegnum árin og hvarvetna í heiminum kemur t.d. nær undantekningarlaust fram að þunglyndi greinist mun algengara meðal kvenna. Hins vegar þegar það greinist meðal karla eru þeir iðulega mun lengra leiddir en konurnar og stutt í að dauðalöngunin yfirtaki þá.

Þess vegna er mjög mikilvægt að breyta þessu viðhorfi, og viðurkenna hver fyrir sig, að tilfinningar eiga að sjálfsögðu rétt á sér í lífi karla. Sorgin fer ekki í manngreinarálit og knýr dyra hjá konum jafnt sem körlum, ríkum jafnt sem fátækum, menntuðum sem ómenntuðum. Því þurfa karlar að hlusta eftir eigin tilfinningum og ekki berja þær niður eins og uppeldið hefur kennt þeim. Ef þeir finna fyrir sorg eða þunglyndi eiga þeir að leita leiða til úrbóta, ræða við geðlækni eða heimilislækni.

Leiðir til úrbóta

Félag ábyrgra feðra vill benda öllum sem eiga um sárt að binda vegna þessara mála á að hægt er að sækja ráðgjöf víða í samfélaginu. Hægt er að hringja í síma félagsins, 891-8644, leita til kirkjunnar (presta og ráðgjafa) eða vinalínu Rauða Krossins (sími 1717). Læknar og geðlæknar geta hjálpað mjög við þunglyndi. Um fjármál er hægt að leita til ýmissa stofnana eins og Ráðgjafastofu í fjármálum heimilanna. Aðalatriðið er að enginn er einn í þessari baráttu, það eru margir sem lenda í henni og margir leita til Félags ábyrgra feðra og tekst að stýra málum þannig að úr rætist.

Félagið býður enga töfralausn. Allt tekur tíma. Meðlimir félagsins hafa allir lent í erfiðleikum og vilja margir þeirra miðla af reynslu sinni um það hvernig hægt er að vinna sig smám saman út úr erfiðleikunum. Huga þarf að mörgum þáttum, líkamlegri og andlegri heilsu, fjármálum, umgengnismálum, fjölskyldumálum, atvinnu og húsnæði, svefnvenjum, hvíld, hreyfingu og næringu svo dæmi sé tekið.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0