Oft er sagt að fólk sem lendir í skilnaði hafi hvort sem er ekki getað leyst sín mál og því muni þau ekki geta það eftir skilnað. Þess vegna muni sameiginleg forsjá alls ekki virka fyrir þau.

Þetta er álíka firra og að halda því fram að manneskja sem hefur slitið sambandi við aðra manneskju sé ekki fær um að eiga samband við aðrar manneskjur. Hvar væri þá íslensk þjóð? Eða mannkynið? Það þarf ekki mikinn snilling til að vita að sambúð og hjónaband gera allt aðrar kröfur til fólks en ákvarðanatakan ein um t.d. hvar barn eigi að vera í skóla.

Það hljóta allir að vita að ein megindriffjöður hverrar manneskju er að miklu leyti óvirk í sambandinu þegar skilnaður hefur orðið, þ.e. kynlífið. Margar kröfur í sambúðinni eru samofnar þessu sviði og valdastrúktúr sambandsins byggir að verulegu leyti á því. Það má vel halda því fram að togstreitan um börnin eftir skilnað sé tilraun til að viðhalda þessum valdastrúktúr og togstreitu hjónabandsins.

Í mínum huga er enginn vafi á að skipan mála varðandi börnin er það sem hefur mest áhrif á hvernig samskipti fyrrverandi hjóna eða sambúðaraðilja er háttað eftir skilnað. Það er ekki nein spurning í mínum huga um að ef annar aðilinn hefur tangarhald á þessu sviði, annaðhvort með forsjá eða fullkomnu valdi yfir umgengni hins (nema hvorttveggja sé), veldur það óeðlilegri togstreitu milli þessara fyrrverandi maka. Því meira tangarhald, því meiri togstreita, því meiri sárindi á báða bóga, því dýpri gjá á milli foreldranna. Því erfiðara fyrir börnin.

Þannig er það að minni reynslu eftir samtöl við hundruð feðra á undanförnum árum að einokun mæðra yfir börnunum veldur slíkum harmi og sárindum að báðir aðilar og margir aðstandendur þeirra eru vart mönnum sinnandi: mæðurnar í vígamóð en feðurnir í úlfakreppu. Þetta annarlega ástand dregur úr starfsgetu fólksins, leiðir til minnkandi afkasta þeirra í vinnu, veldur því að ýmsir nauðsynlegir og eðlilegir hlutir sitja á hakanum (maður sjálfur, sjálfsmyndin, eigin heilsa osfrv.) og ýmislegt sem litlu skiptir verður að aðalatriði (t.d. skemmtanalíf).

Enda er það í reynd ekki til verndar hagsmunum barnanna sem mæður neita feðrum um samveru með börnunum heldur er hér verið að reyna að viðhalda hjónabandserfiðleikunum en þegar til skilnaðar er komið virðast konur oft telja samband barna og feðra beinlínis gagnslaust ef ekki skaðlegt barninu. Í samræmi við þessa ranghugmynd reyna þær líka oft að skemma það samband.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0