Íslensk lög gera fólki mjög erfitt fyrir að semja um forsjá og umgengni varðandi börnin eftir skilnað. Ekki er nóg með að fólk í skilnaðarhugleiðingum þurfi að semja um forsjána heldur er því einnig alfarið falið það sjálfum að semja um umgengni og dvalarstað barnanna.
 
Staða þeirra sem vilja hafa forsjána sameiginlega breyttist mjög með Barnalögum sem tóku gildi 1. nóvember 2003 því samkvæmt þeim fá foreldrar með sameiginlega forsjá einnig aðstoð og jafnvel sérfræðiráðgjöf varðandi ágreining t.d. um umgengni.

Það má vel halda því fram að togstreitan um börnin eftir skilnað sé tilraun til að viðhalda þeim valdastrúktúr og togstreitu sem réð ríkjum í hjónabandinu. Það er lítill vafi á að skipan mála varðandi börnin er það sem hefur mest áhrif á hvernig samskipti fyrrverandi hjóna eða sambúðaraðilja er háttað eftir skilnað. Það er enginn vafi að ef annar aðilinn hefur tangarhald á þessu sviði, annaðhvort með forsjá eða fullkomnu valdi yfir umgengni hins (nema hvorttveggja sé), veldur það óeðlilegri togstreitu milli þessara fyrrverandi maka. Því meira tangarhald, því meiri togstreita, því meiri sárindi á báða bóga, því dýpri gjá á milli foreldranna. Því erfiðara fyrir börnin.

Þannig er það reynsla okkar í Félagi ábyrgra feðra eftir samtöl við meira en fimm hundruð feður á ári að einokun mæðra yfir börnunum veldur slíkum harmi og sárindum að báðir aðilar og margir aðstandendur þeirra eru vart mönnum sinnandi: mæðurnar í vígamóð en feðurnir í úlfakreppu. Gera má ráð fyrir að milli tíu og tuttugu þúsund manns (börn, foreldrar, aðstandendur) eigi um sárt að binda af þessum sökum (meðlag er greitt með tæplega 21.000 börnum, meðlagsgreiðendur eru um 12.000 og þeir sem þiggja meðlag eru um 15.000;samtals um 48.000 manns).

Þetta annarlega ástand dregur úr starfsgetu alls þessa fólks, leiðir til minnkandi afkasta þeirra í vinnu, veldur því að ýmsir nauðsynlegir og eðlilegir hlutir sitja á hakanum (maður sjálfur, sjálfsmyndin, eigin heilsa osfrv.) og ýmislegt sem litlu skiptir verður að aðalatriði (t.d. skemmtanalíf). Enda er það í reynd ekki til verndar hagsmunum barnanna sem mæður (forsjárforeldrar) neita feðrum (forsjárlausum foreldrum) um samveru með börnunum því að með umgengnistálmun er reynt að viðhalda erfiðleikunum og valdabaráttu hjónabandsins. Þegar til skilnaðar er komið virðast konur einnig oft telja samband barna og feðra beinlínis gagnslaust ef ekki skaðlegt barninu eins og kemur fram í mörgum rannsóknum, t.d. bandarískum. Í samræmi við þessa ranghugmynd reyna mæður líka oft að skemma sambandið milli feðra og barna þeirra. Helstu aðferðir við þessa niðurrifsstarfsemi eru umgengnistálmun, föðursvipting, fjárkröfur og falskar ásakanir.

Samningaleiðin

Það eru bara tvö úrræði sem feðrum bjóðast í deilum foreldra varðandi umgengni, jafnvel þótt um sé að ræða skriflegan samning um umgengni og allt sem að henni snýr. Í fyrsta lagi samningaleiðin og í öðru lagi dómstólaleiðin (forsjármál). Hér á eftir verður farið aðeins yfir fyrra úrræðið.

Í samningaleiðinni eru tvö meginatriði:
a) þetta er verkefni, og
b) þetta krefst ákveðinnar framkomu og jafnvel viðhorfsbreytingar af þinni hálfu.

A)

Slíkt verkefni krefst þess að þú setjir þér skýr markmið, t.d. að hafa barnið 4 daga af hverjum 14 eða jafnvel aðra hvora viku og mánuð að sumri, viku um stórhátíðir til skiptis hjá ykkur milli ára, og jafnvel að eftir þrjú ár ætlir þú að fá sameiginlega forsjá. Það er enginn nema þú einn sem getur ákveðið markmiðið og stór hluti af markmiðssetningunni er þegar kominn með yfirlýsingum þínum einsog að barnið sé þér allt, sambandið milli ykkar sé einstakt, að þú hafir kennt því meira en móðir hans. Það sem þig vantar er að setja þig og samband þitt við barnið í fyrsta sæti í lífi þínu, fyrir sjálfum þér, viðurkenna að þú gerir það í alvöru því þú gerir það innst inni.

Í öðru lagi krefst verkefnið þess að þú sýnir mikla staðfestu, þ.e. hvikir ekki frá þeim markmiðum sem þú setur þér og minnist þess alltaf hvert markmiðið er með heildarstreðinu og setjir þér þá í reynd einnig smærri markmið, t.d. að halda friðinn um helgina en hafa barnið líka hjá þér. Hér ríður á að vita hvað þú vilt og hvernig þú vilt ná því. Þetta verður auðveldara þegar þú ert búinn að setja niður fyrir þér markmiðin því þá þarftu að hugsa svo mikið um hvað þú vilt, hvernig þig langar að hafa hlutina og hvernig þú ætlar að gera þá.

Í þriðja lagi krefst verkefnið þess að þú sýnir mikla þrautseigju, að þú haldir það út sem í hönd fer, því þetta verður löng og ströng barátta – en verðlaunin eru mikil, þ.e. traust samband við barnið og mikil gleði yfir að hafa barist í fulla hnefana. Baráttan getur tekið mörg ár áður en þú nærð markmiðinu, en núna viltu geta lokið þessu í eitt skipti fyrir öll með einum samningi. Allt sem konan segir finnst þér núna sagt til að koma í veg fyrir það, til að pirra þig og brjóta niður þrautseigju þína, staðfestu og markmið, þ.e. til að brjóta þig niður. Gegn því beinist allt verkefnið þitt. Ef þér tekst að ná markmiði þínu verður þú heilli, betri og sterkari maður.

Umfram allt verður þú einnig barninu þínu sterk fyrirmynd og það fer smám saman að dást að þér fyrir alla þessa baráttu. Og þú mátt aldrei gleyma því að barnið er þitt dýrmætasta djásn og því ber þér skylda til að deila með því þessari baráttu, segja því smám saman frá þinni hlið, hvað þú gerðir til að halda sambandi við það og slíkt. Án þess að gera lítið úr móðurinni, ekki síst af því hún er hin manneskjan sem barnið elskar mest. Því er nauðsynlegt að læra að tala vel um sjálfan sig án þess að niðra hana.

Loks krefst verkefnið þess að þú skrifir allt niður og sendir sýslumanni póst (tölvupóst eða venjulegan póst) um hvert einasta brot konunnar; þegar hún lofar ykkur þér og barninu samveru og svíkur það, þegar hún dregur þig á asnaeyrunum, þegar hún fer fram á óhóflegar greiðslur, þegar hún sem sagt fer yfir strikið og pirrar þig (sjá “Ráð um skráningu gagna”).

En í þessum skrifum verður þú að vera málefnalegur og mátt aldrei láta tilfinningarnar hlaupa með þig í gönur. Þetta er einn erfiðasti þáttur þessa hlutar verkefnisins og kannski alls verkefnisins, því það krefst þess almennt að þú hafir stjórn á pirringnum (í hvert sinn sem þú missir stjórnina fær konan prik). Í skrifum þínum verðurðu sérstaklega að passa þig að fara rétt með orð og gerðir hennar, og við mælum með að þú setjir aldrei orð hennar í tilvitnunarmerki nema vera 100% viss (og helst meira) um að hún hafi sagt nákvæmlega þau orð – betra er að segja að hún hafi sagt eitthvað á þá leið, hún kvaðst…, eða hún benti á… Þannig er ekki hægt að hanka þig á að fara hreint og beint rangt með. Og í skrifunum skaltu ekki vera að túlka orð hennar og gerðir, allra síst sem árásir á þig, heldur leyfa verkunum að tala ef svo má segja. Það er líka mjög mikilvægt að sjúkdómsgreina hana ekki – nema þú hafir menntun eða aðra tilskilda hæfni til þess.

Tilgangur þess að senda svona komment til yfirvalda er tvíþættur: í fyrsta lagi hefurðu skráðar frásagnir af hlutunum eins og þeir gerast, og í öðru lagi sýnirðu henni tennurnar, segir á vissan hátt hingað og ekki lengra. Feður sem ekki skrifa svona og senda engin komment geta einmitt lent í því að fá á sig stefnu með ásökunum um að hafa ekki viljað halda sambandi við barnið sitt – og þá er ekkert annað skjalfest um þennan vilja en ásakanirnar. Ef þú hins vegar sendir svona komment þá ertu varinn fyrir þessu aukaofbeldi – sem lögfræðingar taka hikstalaust þátt í fyrir skjólstæðinga sína, þ.e. konurnar. Þeir vita manna best að ásökun í opinberum gögnum er ekki auðvelt að hreinsa, jafnvel þótt dómur falli á þá lund að hún hafi verið tilhæfulaus. Og minnstu þess einnig að slíkar ásakanir koma gjarnan fram um það bil sem þú ert að ná þínu fram. Sem sé, hafðu sem mest skriflegt.

B)

Allt sem enn er komið hér fram er liður í hinu atriðinu sem var nefnt hér að ofan, breytingu á framkomu og viðhorfum. Þú stendur nefnilega frammi fyrir þeirri staðreynd að viðhorf þín og framkoma færa þér ekki árangur, þú ert hundfúll yfir stöðunni. Þess vegna þarftu að breyta einhverju. Þú skipuleggur framtíðina og þú tekur sjálfan þig taki: þú viðurkennir þá staðreynd að þú skiptir mestu máli í þínu eigin lífi, ekki einhver kona og allra síst konan sem þú átt barn með en ert skilinn við. Þínir hagsmunir og hagsmunir barnsins skipta þig öllu máli – að minnsta kosti í þessu sambandi. Nú ríður á að breyta vörn í sókn af því að sókn er besta vörnin: hugsa „ég vil“, en ekki „hvað viltu að ég geri?“ eða „hvað á ég að gera?“.

Minnstu þess sem kvenréttindakonurnar sögðu: ég þori, vil og get. Þetta eiga að vera einkunnarorð allra sem þurfa og vilja berjast fyrir sjálfan sig, berjast fyrir sjálfum sér. Um það snýst þetta. OG BÖRNIN ÞÍN. Og með þessari framkomu segirðu börnunum einnig að þau eigi að gera það sama, berjast fyrir sjálfum sér, vera sjálfstæðir einstaklingar. Gera eins og fyrirmyndin, þú. Er það ekki markmið uppeldisins?

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0