Þegar talað er um heimild dómara til þess að dæma sameiginlega forsjá, þá er iðulega fjallað um sameiginlegar ákvarðanir foreldra og hæfni þeirra til þess að taka slíkar ákvarðanir.

Undirritaður hefur verið að fara yfir hvað lögin segja um ákvarðanarétt foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns. (miðað við samþykkt lög sem eiga að taka gildi 1. janúar 2013).

Ákvarðanaréttur lögheimilisforeldris þegar foreldrar fara saman með forsjá

Samkvæmt 28. gr. a. barnalaga eins og þau hafa verið samþykkt þá eiga foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns að „allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn“ nema svokallaðar „afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins“.

Afgerandi ákvarðanir samkvæmt greinargerð með lögunum eru meðal annars:

 • Hvar barnið skuli eiga lögheimili innanlands.
 • Hvar barnið skuli vera á leikskóla.
 • Hvar barnið skuli vera í grunnskóla.
 • Hvar barnið skuli vera í daggæslu.
 • Um venjulega heilbrigðisþjónustu
  • Reglubundið ungbarnaeftirlit
  • Læknisaðstoð vegna minni háttar kvilla
  • Reglubundna tannlæknaþjónustu
 • Um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu
  • Heilbrigðisþjónusta sem heilbrigðisstarfsmenn mæla með.
  • Hvers konar rannsóknir
  • Hvers konar greining.
  • Hvers konar meðferð.
  • Hvers konar lyfjagjöf.
  • Hvers konar aðgerðir.
 • Um reglubundið tómstundastarf
  • Tónlistarskóli
  • Íþróttastarf
  • Félagsstarf

 

Ákvörðunarréttur „umgengnisforeldris“ þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá

Þá er tekið fram „að framangreindri afmörkun til fyllingar koma ákvæði 17. gr. frumvarpsins um rétt umgengnisforeldris“ sem gefur að skilja sem svo að ofangreint er réttur lögheimilisforeldris til ákvarðanatöku en ákvarðanaréttur umgengnisforeldris með sameiginlega forsjá er skilgreindur í 17. gr.

Nauðsynlegar ákvarðanir sem umgengnisforeldri með sameiginlega forsjá hefur þá til þess að taka um daglegt líf barnsins sem fylgja umgengninni eru (þessi réttur er einnig hjá forsjárlausum):

 • Klæðaburður á meðan umgengni varir.
 • Mataræði á meðan umgengni varir.
 • Svefntími á meðan umgengni varir.
 • Samskipti barnsins við aðra á meðan umgengni varir.
 • Afþreyingu barns á meðan umgengni varir.
 • Tómstundir á meðan umgengni varir.

 

Sameiginlegar ákvarðanir foreldra sem fara sameiginlega með forsjá

Ekki er skilgreint í barnalögum hvaða ákvarðanir foreldrar sem fara semeiginlega með forsjá barns eigi að taka sameiginlega að öðru leiti en þegar fara á með barn úr landi. Ómálefnaleg synjun um að foreldri taki með sér barn erlendis vegna sumarleyfa telst þó vísbending um að grundvöllur sameiginlegrar forsjár sé brostin og hægt er að fá úrskurð sýslumanns vegna þess. Þessi krafa um sameiginlega ákvörðun foreldra er í lögum vegna Haag samnings um brottnám barna:

 • Nú fara foreldrar sameiginlega með forsjá barns og er öðru foreldrinu þá óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins.

Vísað er til þess í barnalögum að ef þess er krafist að foreldrar með sameiginlega forsjá taki sameiginlegar ákvarðanir þá verði það skilgreint í öðrum lögum þegar við á svo sem í barnaverndarlögum nr. 80/2002. Þannig sameiginlegar ákvarðanir má finna í lögum um skráð trúfélög og barnaverndarlögum.

 • Ef foreldrar fara saman með forsjá barns taka þeir ákvörðun sameiginlega um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi samkvæmt lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999.
 • Samþykki beggja foreldra þarf þegar barnavernd leitar eftir samþykki foreldra í barnaverndarmáli þar sem barn er vistað utan lögheimilis síns og barn er yngra en 15 ára. Barnavernd hefur þó heimild til þess að ráðstafa barni án samþykkis beggja foreldra ef með þarf.

 

Ákvörðunarréttur „varaforeldris“

Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns þá öðru foreldri heimild að taka nauðsynlegar ákvarðanir ef hitt foreldrið er „hindrað í að sinna forsjárskyldum sínum“. „Þetta getur t.d. átt við ef foreldri er horfið eða mjög sjúkt, en ætti einnig við ef foreldri er langdvölum fjarri heimili.“

Hugsanlega hefur „umgengnisforeldri einhverja heimild til þess að taka einhverjar ákvarðanir lögheimilisforeldris við þessar kringumstæður.

 

Umræða

Foreldrið sem ekki deilir lögheimili með barni hefur sáralítinn rétt til ákvarðanatöku nema hvað varðar nauðsynlegar ákvarðanir á meðan á umgengni stendur, sami ákvörðunarréttur og forsjárlaust foreldri hefur. Foreldrið hins vegar hefur ákveðið varamanns hlutverk með sameiginlega forsjá þar sem það hefur takmarkaðar heimildir til þess að taka nauðsynlegar ákvarðanir ef hitt foreldrið hefur ekki tök á því vegna sjúkdóms, er týnt eða sambærilega ófært um að taka ákvörðun.

Lögheimilisforeldri hefur eitt nánast allt ákvarðanavald um hagi barns þrátt fyrir sameiginlega forsjá. Þó lögin hvetji lögheimilisforeldri til þess að taka allar ákvarðanir í samráði við hitt foreldrið, þá er valdið jafnmikið á hendi lögheimilisforeldris eins og þegar um einsforeldrisforsjá er að ræða. Aðeins þrjár undantekningar eru frá þessari reglu en það er þegar barn er flutt úr landi, barn er skráð í eða úr trúfélagi og ef barn er sent í fóstur frá lögheimilisforeldrinu. Í þessum þremur tilfellum þurfa foreldrar með sameiginlega forsjá að taka sameiginlega ákvörðun.

Ef löggjafinn getur aðeins boðið upp á hvatningu til foreldra sem fara sameiginlega með forsjá um að þeir taki tillit til skoðana hvors annars, er þá löggjafinn að mælast til þess að foreldri sem fer eitt með forsjá taki ekki tillit til skoðana hins foreldrisins?

 

 

Heimir Hilmarsson,

varaformaður

 

 

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0