Föstudaginn 20. október, 2006 – Aðsent efni

Sameiginleg forsjá – Mikilvæg meginregla

Dögg Pálsdóttir fjallar um sameiginlega forsjá barna eftir samvistarslit

Dögg Pálsdóttir fjallar um sameiginlega forsjá barna eftir samvistarslit: “Lagaákvæði um að forsjá verði áfram sameiginleg við samvistarslit eru mikilvægur áfangi til að jafna stöðu kynjanna.”

Sameiginleg forsjá - Mikilvæg meginregla - mynd

Dögg Pálsdóttir

MEÐ breytingu á barnalögum nú í vor var loksins lögfest sú meginregla að foreldrar skuli áfram fara sameiginlega með forsjá barna sinna eftir samvistarslit. Hugmyndin að baki sameiginlegri forsjár er skýr og einföld. Þótt leiðir foreldra skilji eiga þau áfram að bera saman ábyrgð á börnum sínum. Eðlilegt sé því að báðir foreldrar hafi með höndum forsjána. Þurfa bæði að samþykkja allar meiri háttar ákvarðanir er barnið varða um persónuhagi þess og fjármál.

Lagaákvæði um að forsjá verði áfram sameiginleg við samvistarslit eru mikilvægur áfangi til að jafna stöðu kynjanna. Þau knýja foreldra til að horfast í augu við að saman eiga þau börnin og að skilnaður verður ekki milli barna og foreldra.

Sameiginleg forsjá er að hluta bein afleiðing þess að föðurhlutverkið hefur breyst á síðustu árum. Feður eru sífellt virkari í því hlutverki. Á því er engin ein skýring heldur margar samverkandi. Tvær eru þó mikilvægastar. Feður vilja í vaxandi mæli sinna börnum sínum og gera það, oft á tíðum að fullu til jafns við móður. Breytingar á lagaákvæðum um fæðingarorlof feðra hafa stutt við þessa þróun. Af þessu leiðir að fjárhagur aftrar feðrum ekki lengur frá því að taka fæðingarorlof. Það er hins vegar umhugsunarefni að konur á almennum vinnumarkaði náðu ekki hlutfallslaunum í fæðingarorlofi fyrr en farið var að huga að því að veita feðrum þennan rétt. Þá var talið að fastar greiðslur, án samhengis við laun, væru ekki karlmönnum bjóðandi, þótt konur hefðu mátt sætta sig við slíkt fyrirkomulag um nærri tveggja áratuga skeið.

Búið er að lögfesta sameiginlega forsjá sem meginreglu og er það vel. Næsta skrefið er að skýra nánar hvað felst í sameiginlegri forsjá og setja viðmiðunarreglur um umgengni barns og foreldris sem það á ekki lögheimili hjá. Slíkar reglur myndu án efa auðvelda samskipti foreldra með sameiginlega forsjá um málefni barna sinna. Í framhaldi af því þarf að huga að fyrirkomulagi meðlagsgreiðslna, ekki síst í þeim tilvikum þar sem foreldrar skipta samvistum barna til jafns. Sömuleiðis þarf að endurskoða ákvæði um lögheimili barna og gera mögulegt að barn geti átt lögheimili hjá báðum foreldrum sínum og báðir foreldrar þar með notið ýmiss opinbers stuðnings sem lögheimili barna fylgir.

Í málefnum barna og foreldra eru þetta viðfangsefni næsta kjörtímabils.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og býður sig fram í 4. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0