SAMÞYKKT var í ríkisstjórn í fyrradag frumvarp Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, þar sem meðal annars er að finna ákvæði um að sameiginleg forsjá verði meginregla í íslenskum rétti.
Björn sagði í samtali við Morgunblaðið að þær breytingar sem lagðar væru til á forsjá í frumvarpinu tækju mið af ábendingum nefndar sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði árið 1997. Björn segir að nefndin hafi meðal annars lagt áherslu á að lögfest yrði ákvæði um að forsjá yrði sjálfkrafa sameiginleg eftir skilnað eða sambúðarslit.

Björn segir að í ljósi þessa hafi hann lagt til að sameiginleg forsjá yrði meginregla við skilnað að borði og sæng, lögskilnað og slit skráðrar sambúðar, en foreldrar gætu eftir sem áður samið um að forsjá yrði í höndum annars þeirra.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að barnalögum verði breytt þannig að heimilt verði að beita þvingunarúrræðum laganna í þeim tilfellum sem ekki er framfylgt ákvörðun sýslumanns um umgengni við börn. Segir Björn að talin sé þörf á þessari breytingu þar sem nokkuð hafi borið á því að foreldrar fari ekki eftir úrskurði sýslumanns meðan mál eru til meðferðar í ráðuneytinu.

mbl.is, Fimmtudaginn 20. október, 2005 – Innlendar fréttir

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0