Félag ábyrgra feðra er meðal fárra aðila í samfélaginu sem veitir fólki ráðgjöf varðandi vandamál þau sem upp geta komið í tengslum við skilnað og sambúðarslit. Félagið fær til sín í kringum 500 erindi á ári hverju og er ótrúlegt að sjá hvernig mannréttindi eru ítrekað brotin á forsjárlausum feðrum og börnum þeirra.

Réttur barnsins

Félag ábyrgra feðra telur að í opinberri umræðu og í samfélaginu almennt gæti mjög þeirrar hugsunar að réttur móður til forsjár barns við sambúðarslit eða skilnað sé sjálfgefinn og náttúrulegur, en réttur föður að sama skapi nánast enginn. Vill félagið leggja sitt af mörkum til að breyta þessum hugsunarhætti og setja fram þá tillögu að sjálfgefið fyrirkomulag forsjár við sambúðarslit eða skilnað sé að foreldrar hafi sameiginlega forsjá barns eða barna sinna og þurfi þau að færa góð og gild rök fyrir því að hafa annað fyrirkomulag. Telur félagið að samfélagið gefi börnum fyrirheit um að hvað sem aðstæðum líði hafi börn rétt „á að þekkja báða foreldra sína“ eins og segir í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ný barnalög frá 2003 ítreka þennan rétt en þau hefjast á orðunum: „Barn á rétt á að þekkja báða foreldra sína.“ Foreldrarnir eiga svo báðir að „annast barn sitt … svo sem best hentar hag barns og þörfum“ eins og stendur í greinargerð með lögunum. Sameiginleg forsjá er meginregla bæði í Noregi og Svíþjóð og hefur reynst afar vel en löggjöf okkar miðast við dönsk lög þar sem fólki er gert mögulegt að semja sérstaklega um sameiginlega forsjá. Þar sem þessi mál hafa lítið verið rannsökuð hér á landi er eftirfarandi grein meira byggð á reynslu undirritaðs af ráðgjöf við feður sem með ýmsu móti hafa verið sviptir börnum sínum (og þarmeð börnin svipt feðrum sínum) svo og rannsóknum sem fram hafa farið í Bandaríkjunum.

Því er oft haldið fram að börnin hafi vont af því að vera „viku hér og viku þar“ eins og mæður segja gjarnan við feður sem fara fram á sameiginlega forsjá. Virðist þá hugsunin vera sú sama og kom fram hjá Guðrúnu Guðlaugsdóttur í Morgunblaðinu 3. nóv. 2002 að í sameiginlegri forsjá eigi börn mjög erfitt uppdráttar og að þeim gangi illa „aðlagast öllu þessu og reyna að gera sem flestum til hæfis“, en að þetta sé allt auðveldara þegar annað foreldrið fer með forsjána. Ég held að þetta sé umfram allt byggt á óskhyggju kvenna sem vilja ekki að karlar leggi undir sig svið sem konur hafa í marga áratugi a.m.k. sakað karla um að hafa þröngvað upp á þær í gegnum aldirnar, þ.e. uppeldi barnanna.

Breytingar á föðurhlutverkinu

Í byrjun síðustu aldar voru feður allt öðruvísi aðilar að uppeldi barna sinna en gerist og gengur í dag, þökk sé feministum 20. aldar. Feður komu ekki nálægt fæðingum nema sem ljósmæður heldur var á þá lögð sú byrði að gæta bús og barna á meðan konan fæddi barn og jafnaði sig af þeim ósköpum. Á sama hátt voru þeir skaffarar og tóku lítinn beinan þátt í daglegum þáttum uppeldisins, oft fjarri heimilinu vegna vinnu sinnar. Feministar hafa mjög grátið þennan þátt og sagt að konan hafi verið lokuð inni á heimilinu og má það vel vera. Með jafnréttisbaráttu þeirra, einkum eftir 1970 hefur hlutverkaskiptingin breyst og konur farið út á vinnumarkaðinn en karlar inn á heimilin. Jafnvel er farið að rannsaka það hvernig börnum reiðir af á heimilum hjá einstæðum feðrum annars vegar og hins vegar hjá einstæðum mæðrum (oft körlunum í hag). Í dag taka feður beinan þátt í uppeldi barna, allt frá bleyjuskiptingum til skólaviðtala, frá læknisferðum til skólaundirbúnings og skeininga. Þeir taka þátt í lífi barna sinna, sýna sívaknandi áhuga á því sem þau gera, læra, hlusta á og vilja eyða tíma sínum í. Samskipti feðra við börn sín hafa aukist svo mjög undanfarna áratugi að bylting hefur orðið sem helst má líkja við spútnikferð Íslendinga inn í nútímann á síðustu öld.

Ofbeldi gegn feðrum

Þegar fólk slítur sambandi eða hjónabandi við maka sinn leiðir það að sjálfsögðu til erfiðleika, stundum ófyrirsjáanlegra erfiðleika. Höfnun, reiði, sorg, sáttavilji. Stórar og hamslitlar tilfinningar sem fá oft enga auðvelda útrás. Stundum brýst þessi ólga út með þeim furðulega hætti að móðirin tekur öll völd yfir börnunum og faðirinn lætur henni þau eftir til að halda friðinn. Í mörgum tilfellum byrja þá fyrst erfiðleikar fyrir alvöru. Faðirinn upplifir þá að það sem hann hélt að væri aðalmálið, að skilja við makann vegna erfiðleika í samskiptum við hann, verður að skilnaði við barnið eða börnin. Og að fyrrverandi maki beiti hann slíku ofbeldi að jafnast ekki á við neitt nema hryðjuverkastarfsemi: það hriktir í sjálfum lífsstoðum hans vegna þess að hann er gísl fyrrverandi maka síns og refsingin fyrir skilnaðinn er sú að svipta hann börnunum. Þetta er frábært atriði í teiknimynd því augljós afleiðing er einföld – en því miður einnig augljóst viðhald þeirra valdastrúktúra sem feministar hafa barist gegn í aldaraðir: karlinn er frjáls ferða sinna eins og hetja í Íslendingasögunum en konan situr eftir með sárt ennið, heimilið og öll börnin, eins og kona í Íslendingasögunum. Hann er laus við börnin og þarf bara að borga meðlag, skammarlega lítið meðlag að margra mati. Þá er allt í lagi þótt hann gjaldi með öðru líka: að fá börnin ekki þegar þau eiga að vera hjá honum. Þannig nær móðirin sér niðri á föðurnum og djúprætt karlahatur hennar fær útrás í göfgaðri mynd afbrýðisemi og hefnigirni: hann skal sko ekki fá börnin mín.

Tímaspursmál hvenær skrefið verður stigið

Félag ábyrgra feðra telur nauðsynlegt að breyta þessum viðhorfum í samfélaginu og vinnur að því að gera sameiginlega forsjá að meginreglu við sambúðarslit. Minnir félagið á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2003 samþykkti að vinna að þessu, og lýsti menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, því yfir skömmu eftir kosningar að það væri tímaspursmál hvenær þetta skref yrði stigið. Mun félagið minna stjórnmálamenn á þetta brýna hagsmunamál sem snertir stóran hluta samfélagsins.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0