Að flytja frá heimili mömmu yfir vikuna til pabba um helgar kann að virðast snúið fyrir sum börn fráskilinna foreldra, en það er samt kannski best fyrir þau þegar til lengdar lætur, er niðurstaða rannsóknar sem birt er í marshefti Tímarits fjölskyldusálfræðinga (16. árg. 1. tbl.).
Samkvæmt rannsókninni eiga börn frá skilnaðarfjölskyldum auðveldara með að aðlagast þegar þau búa með báðum foreldrum á ólíkum heimilum eða verja drjúgum tíma með báðum foreldrum samanborið við börn sem eru aðeins í sambandi við annað foreldra sinna.

Doktor Robert Bauserman við Heilbrigðis- og geðdeild Baltimore leit yfir 33 rannsóknir þar sem athuguð voru 1.846 börn í eins-foreldris-forsjá og 814 börn í sameiginlegri forsjá. Báðir hóparnir voru bornir saman við 251 barn í kjarnafjölskyldum sínum. Bauserman komst að því að börn í sameiginlegri forsjá áttu við færri hegðunar- og tilfinningaraskanir að glíma, höfðu betra sjálfsmat og betri tengsl við fjölskylduna og námsárangur var betri en í hópnum með eins-foreldris-forsjá. Og hann fann ekki marktækan mun á aðlögunarhæfni barna í sameiginlegri forsjá og þeirra sem bjuggu með kjarnafjölskyldu sinni. Börnum í sameiginlegri forsjá farnast jafnvel betur, samkvæmt Bauserman, af því að þau hafa viðvarandi samband við báða foreldra sína.

Sambandið við báða foreldra, segir hann, er lykillinn að aðlögunarhæfni barnana. Niðurstöðurnar benda til að börn þurfi ekki endilega jafna umgengni til að sýna meiri aðlögunarhæfni, heldur aðeins að verja drjúgum tíma með báðum foreldrum.
Samkvæmt rannsókninni virðast foreldrar með sameiginlega forsjá upplifa minni ágreining – sem er andstætt þeirri hugsun að sameiginleg forsjá sé skaðleg fyrir börnin af því þau lendi í viðvarandi deilu foreldranna. Bauserman bendir einmitt á að „það voru foreldrar sem höfðu einir forsjá sem töluðu um meiri ágreining.“ Hann komst að því að rannsóknir sýndu að sameiginleg forsjá gæti jafnvel dregið úr ágreiningi foreldranna þegar fram líða stundir.

Sameiginleg forsjá er greinilega ekki alltaf betri en eins-foreldris-forsjá. Þegar annað foreldrið er ofbeldisfullt eða á við alvarleg geðræn vandamál að stríða, getur eins-foreldris-forsjá komið barninu betur, segir Bauserman.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0