Á morgun föstudag er haldin ráðstefna um dómaraheimild. Aðalfyrirlestur ráðstefnunnar ber heitið “Enforced to cooperate …”. Langur vegur er á milli titils aðalfyrirlestursins og titils ráðstefnunnar enda eru foreldrar ekki dæmdir í samvinnu þó forsjá sé sameiginleg.

Það vekur því mikla furðu hversu langt er gengið til að koma í veg fyrir þá sjálfsögðu réttarbót að dómarar fái að dæma það sem barni er fyrir bestu líka þegar það er sameiginleg forsjá.

Linkur á auglýsinguna er neðst í þessari grein.

Titillinn “Enforced to cooperate…..evaluation of the Danish Act of Parental Responsibility – Children in shared living arrangesments.” á við um allt annarskonar sameiginlega forsjá en er til staðar á Íslandi.

Andstæðingar dómaraheimildar tala eins og sameiginleg forsjá jafngildi nánast áframhaldandi hjónabandi. Það að vera dæmdur til sameiginlegrar forsjár jafngildi þá því að vera dæmdur í einskonar hjónaband sem að sjálfsögðu væri ekki lýðandi.

Samvinna lykilatriði til að sameiginleg forsjá geti átt sér stað?

Ef við skoðum málin aðeins betur og berum saman umgengnisforeldri með forsjá og forsjárlaust umgengnisforeldri, hver er munurinn?

Aðgangur að gögnum:
Umgengnisforeldri með forsjá hefur heimild til að fá gögn um barn sitt frá skólum, leikskólum, læknum, félagsþjónustunni, barnavernd og þess háttar. Foreldrið getur aðeins fengið gögn um barnið sjálft en ekkert sem viðkemur hinu foreldrinu eðlilega enda aðeins með forsjá á barninu.

Forsjárlaust umgengnisforeldri hefur enga heimild til þess að fá gögn varðandi barn sitt frá neinum af þessum aðilum. Forsjárlaust foreldri fær enga vitneskju um það ef barnið lendir í vandræðum, verður fyrir ofbeldi, er fársjúkt eða annað slíkt. Samkvæmt laganna bókstaf þá má forsjárlaust foreldri ekki fá stundartöflu barns síns skriflega, jafnvel þó umgengni sé önnur hvor vika. Skólar mega veita forsjárlausum foreldrum munnlegar upplýsingar og þá erum við yfirleitt að tala um léttvægar upplýsingar.

Þá spyr maður sig, er fullkomin samvinna milli foreldra nauðsynleg til að umgegnisforeldri geti fengið þessi gögn um barn sitt?

Við andlát forsjárforeldris:
Umgengnisforeldri með forsjá fær forsjá barns ef hitt foreldrið deyr.

Forsjárlaust umgengnisforeldri fær ekki forsjá barns þegar hitt foreldrið deyr nema hitt foreldrið hafi verið einstætt. Ef hitt foreldrið er gift aftur eða hefur búið með öðrum í 12 mánuði, þá fær nýji maki látna foreldrisins forsjá barnsins.

Þá spyr maður sig, er fullkomin samvinna milli foreldra nauðsynleg til að umgegnisforeldri geti fengið forsjá barns síns við andlát hins foreldrisins?

Flutningur úr landi:
Umgengnisforeldri með forsjá þarf að samþykkja flutning barns úr landi. Ef foreldrið leyfir flutning úr landi þá hefur það ekkert að segja um það hvort lögheimilisforeldrið flytja landa á milli eftir það.

Forsjárlaust umgengnisforeldri hefur ekkert um það að segja hvort barn búi á Íslandi eða annarsstaðar.

Þá spyr maður sig, er fullkomin samvinna milli foreldra nauðsynleg til þess að umgengnisforeldri geti tafið brottflutning á barni úr landi jafnvel þegar það gjörbreytir umgengninni?

Þá er upptalinn munurinn á umgengnisforeldri með forsjá og forsjárlausu umgengnisforeldri. Lögheimilisforeldri hefur alltaf mest um barnið að segja, getur flutt með það milli sveitarfélaga hægri vinstri án þess að ræða við hitt foreldrið þrátt fyrir sameiginlega forsjá. Flutt það á milli skóla og ráðið öllu um barnið án nokkurs samráðs við hitt foreldrið. Það eru til dæmi um hörð tálmunarmál þar sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá alveg eins og þegar foreldri er forsjárlaust. Sameiginleg forsjá hefur engin áhrif á meðlag eða umgengni.

Hvað er þá málið með samvinnu, sameiginlega forsjá og dómaraheimild?

Það gefur auga leið að svipting á forsjá hlýtur að skaða samvinnu þannig að forsjársviptingin ein og sér getur skemmt þennan mikilvæga þátt, samvinnu foreldra.

Barnið á tvo foreldra hvort sem forsjáin er sameiginleg eða ekki, þannig að samvinna er jafn mikilvæg, hvort sem um sameiginlega forsjá er að ræða eður ei.

Svipting á forsjá lagar ekki samvinnu foreldra.

Af hverju þá að svipta hæft foreldri forsjá?
Rökin fyrir því að svipta hæft foreldri forsjá geta verið:

  • Til að vernda óhæft lögheimilisforeldri frá því að hitt foreldrið fá fréttir frá barnavernd.
  • Til að vernda sjálfræði lögheimilisforeldris til þess að flytja með barn út um allan heim án tillits til umgengni barns við hitt foreldrið.
  • Til að tryggja völd lögheimilisforeldis á barninu fram yfir dauðadag sinn.
  • Til að niðurlægja umgengnisforeldrið.

Ekkert af þessum rökum eru þess virði að svipta foreldri forsjá.

Þess má geta í lokin að óhæfir foreldrar sem sviptir eru forsjá vegna vanhæfis samkvæmt barnaverndarlögum eru á margan hátt mun rétthærri en þeir hæfu foreldrar sem sviptir eru forsjá samkvæmt barnalögum. Þar gætir mikils ósamræmis sem ekki er hægt að réttlæta.

 

Linkur á auglýsingu ráðstefnunnar er hér.

Linkur á rök með og á móti dómaraheimild frá 2009 er hér.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0