Sífellt algengara er að foreldrar fari með sameiginlegt forræði barna sinna eftir lögskilnað eða sambúðarslit. Að sögn Ólafar Garðarsdóttur, deildarstjóra á mannfjöldadeild Hagstofunnar, hefur sameiginleg forsjá verið algengasti forsjármátinn undanfarin þrjú ár. Árið 1994 var sameiginleg forsjá valin í 22,8% tilvika en í fyrra var 61,2% barna úr lögskilnuðum í forsjá beggja foreldra og í 73,4% tilvika eftir sambúðarslit.

Í sérstöku riti Hagtíðinda sem út kemur í dag er fjallað um hjónavígslur og lögskilnaði og m.a. gerð grein fyrir forsjá barna eftir lögskilnað og sambúðarslit.

Árið 2003 skildu foreldrar 593 barna að lögum og börn sambúðarfólks sem slitu samvistum voru 680.

Að sögn Ólafar hafa foreldrar átt þess kost frá árinu 1992 að fara sameiginlega með forsjá barna sinna eftir skilnað og hefur færst í vöxt að foreldrar nýti sér það fyrirkomulag. Framan af var algengast að móðirin færi ein með forsjá og árið 1994 gilti það um 70,6% barna.

Á síðasta ári voru foreldrar í 498 tilvikum með sameiginlega forsjá barna sinna eftir sambúðarslit, eða í rúmlega 73 prósent tilvika, sem fyrr segir. Í 177 tilvikum var móðirin eingöngu með forsjá og í fjórum tilvikum faðirinn.

Alls gengu 1.473 pör í hjónaband á Íslandi í fyrra samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Tólf pör staðfestu samvist, sex pör kvenna og sex pör karla. Lögskilnaðir voru 531 á árinu. Algengast er að lögskilnaður fari fram á fyrstu árum hjónabands. Þriðjungur þeirra, sem skildu að lögum í fyrra, hafði verið giftur skemur en sex ár og helmingur skemur en tíu ár.

Frétt af mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0