Lengi vel var það óskrifuð regla að mæður fengju alla jafna forræði yfir börnum við skilnað eða sambúðarslit. Í takt við breytta tíma og aukið jafnrétti, báðum kynjum til handa, hefur sameiginleg forsjá hins vegar rutt sér til rúms og á síðasta ári var samið um slíkt fyrirkomulag í talsverðum meirihluta tilvika.

Sameiginleg forsjá felur í sér að foreldrar þurfa að komast að samkomulagi um hjá hvoru þeirra barnið á að eiga lögheimili og hvernig umgengni skuli skiptast á milli þeirra. Barnið getur dvalið að jöfnu hjá báðum foreldrum, eða að jafnaði hjá því foreldri sem það á lögheimili hjá og hinu foreldrinu á tilteknum tíma. Samþykki beggja foreldra þarf að koma til varðandi allar meiri háttar ákvarðanir sem varða persónulega hagi barnsins.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær hefur forsjárnefnd, sem skipuð var af dómsmálaráðherra, skilað lokaskýrslu sinni, þar sem hún ítrekar fyrri tillögu um að sameiginleg forsjá verði meginregla við skilnað og sambúðarslit. Fram kemur í skýrslunni að hraðar breytingar hafi orðið á þessum málum á síðustu árum, þar sem í ljós hafi komið að foreldrar semji í sívaxandi mæli um sameiginlega forsjá. Þróunin sýni að reynslan af þessu fyrirkomulagi sé góð og því beri að taka af skarið og lögfesta sameiginlega forsjá sem meginreglu.

Einnig er mælst til þess í skýrslunni að lögfest verði að dómarar geti úrskurðað um sameiginlega forsjá. Þá leggur nefndin til að skýrt verði kveðið á um fyrirkomulag umgengni barns og þess foreldris sem það býr ekki hjá þegar gengið er frá sambúðarslitum eða hjónaskilnaði hjá sýslumannsembættum.

Í skýrslu forsjárnefndar segir að með því að lögfesta sameiginlega forsjá sem meginreglu “væru foreldrum send skýr skilaboð af hálfu löggjafans um það að forsjá barna sé sameiginlegt verkefni beggja foreldra sem þeir eigi að axla sameiginlega þótt sambúð eða hjúskap þeirra sé lokið”.

Þetta er auðvitað kjarni málsins. Við skilnað eða sambúðarslit eiga í langflestum tilvikum í hlut tveir einstaklingar sem báðir eru fullhæfir til að sinna foreldrahlutverkinu. Það er ábyrgðarhluti beggja foreldra að ala upp börnin sín, og börnin hafa að sama skapi þörf fyrir báða foreldra sína í uppvextinum. Sameiginleg forsjá er til þess fallin að það foreldri sem barnið á ekki lögheimili hjá sýni meiri ábyrgð á uppeldi þess en ella, og jafnframt að það foreldri sem barnið býr hjá að jafnaði beri meiri virðingu fyrir uppeldishlutverki hins foreldrisins. Sameiginleg forsjá er skýrt jafnréttismál fyrir feður, miðað við það hvernig málum var iðulega háttað á umliðnum áratugum, en ekki síst hagsmunamál fyrir börnin sjálf, sem eiga heimtingu á umönnun beggja foreldra sinna.

mbl.is 12.05.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0