Niðurstöðurnar sýndu í heild jákvæða sýn barna á skilnað foreldra, bæði gagnvart skilnaðinum sjálfum og þeim breytingum, sem hann hafði í för með sér fyrir þau. Börnin töldu ákvörðun foreldranna um skilnað réttlætanlega teldu þeir hjónabandið eða sambúðina ekki standa lengur undir væntingum og ekki þeim í hag að halda til streitu sambúð, sem engar forsendur væru fyrir,” segir Árni Einarsson, uppeldis- og menntunarfræðingur, sem nýlega vann MA-verkefni við félagsvísindadeild HÍ um sýn barna á skilnað foreldra.
Rannsóknin byggist á viðtölum við sex ungmenni á aldrinum 12 til 18 ára af báðum kynjum.

Skilnaður foreldra þeirra átti sér stað þegar börnin voru á aldrinum sex til 10 ára og mislangt var liðið frá skilnaði eða sex til 10 ár.

Börnin sjaldnast spurð
Skilnaðir eru algengir í hinum vestræna heimi og á Íslandi árið 2004 upplifði 1.201 barn skilnað eða sambúðarslit foreldra. Skilnaður er fyrst og fremst ákvörðun foreldra, sem börn eiga sjaldnast aðild að, en við skilnað verður margvísleg röskun á aðstæðum þeirra. Fjölskyldan, sem þau þekkja, leysist skyndilega upp og annað foreldrið, yfirleitt faðirinn, flytur burt af heimilinu. Í versta falli getur skilnaður foreldra falið í sér að annað foreldrið hverfur algjörlega úr lífi barnsins.
Hlutskipti barnanna verður að taka því sem að höndum ber og laga sig að breyttum aðstæðum sem skilnaðinum fylgja, til dæmis breyttu heimilislífi og fjölskyldutengslum.

Eldri langtímarannsóknum á skilnuðum ber saman um að skilnaðarbörn séu líklegri til að eiga við meiri erfiðleika að stríða en börn úr öðrum fjölskyldugerðum, en samkvæmt niðurstöðum Árna þarf svo alls ekki að vera.

Börnin, sem hann tók til viðtals, upplifðu ekki neikvæð viðbrögð annarra við skilnaði foreldranna, hvorki vina né ættingja. Þau töldu skilnaðinn lítil áhrif hafa haft á daglegt líf sitt og breytingar vegna hans ekki leitt til lakari aðstæðna eða kjara.

Börnin töldu einnig að skilnaður foreldranna hefði lítil áhrif haft á tengsl þeirra við fjölskyldur foreldra sinna, en þó dró eitthvað úr samskiptum.

Börnin töldu að sérstök reynsla þeirra sem skilnaðarbarna gæti gert þau hæfari í mannlegum samskiptum.

Tímabundin óvissuglíma
Börnin kvörtuðu undan sinnuleysi gagnvart sér fyrst eftir að foreldrarnir tilkynntu þeim þá ákvörðun sína að skilja og sögðust hafa þurft að glíma við óvissu vegna takmarkaðs skilnings á því hvað skilnaðurinn hefði í för með sér fyrir þau.
Þeim var hins vegar léttir að því að vera strax fullvissuð um að skilnaðurinn hefði engin áhrif á samskipti við feður þeirra, sem strax virtist vera gert ráð fyrir að flyttu af heimilum barnanna.

Neikvæðustu áhrif skilnaðarins töldu börnin vera brottflutning feðra sinna af heimilinu, en töldu engar takmarkanir hafa verið á heimsóknum og samskiptum við burtflutta feður sína. Samt hefðu samskiptin minnkað með tímanum. Þeim fannst það neikvætt og sögðust þurfa fullvissu um ást og umhyggju feðranna.

Þau fundu að því að vera takmarkað höfð með í ráðum við ákvarðanir um ýmis mál, sem varðaði þau sérstaklega, svo sem búsetuskipti.

Að sögn Árna er varla hægt að fyrirbyggja með öllu að skilnaður foreldra valdi börnum sárindum og sorg, en margt megi gera til þess að milda þeim sársaukann, sem m.a. burtflutningur annars foreldris af heimilinu veldur. “Til að afmarka og skilja hvað það er sem veldur börnum mestum erfiðleikum er nauðsynlegt að skoða málin með þeirra augum.”

Nýmæli rannsóknarinnar felst einkum í því að gefa börnunum sjálfum orðið. Þekking á hlið barnanna og innsýn í hugarheim þeirra getur nýst við að gera þeim skilnað foreldra léttbærari og auðvelda þeim aðlögun að nýjum aðstæðum. Aukin þekking á því hvaða merkingu skilnaðarbörn leggja í skilnað foreldra og hvaða sýn þau hafa á hann ætti að auka möguleika á að skilja betur líðan þeirra og hegðun gagnvart skilnaðinum. “Aukin þekking á áhrifum skilnaða á börn og ungmenni er mikilvægt framlag til uppeldisfræða nútímans,” segir Árni m.a. um notagildi rannsóknarinnar.

Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur join@mbl.is
mbl.is Fimmtudaginn 16. mars, 2006 – Daglegt líf

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0