Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra til breytinga á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar. Veigamesta breytingin, sem lögð er til með frumvarpinu, er sú að forsjá barna verði sameiginleg eftir skilnað eða sambúðarslit foreldra, nema annað sé sérstaklega ákveðið.
 
Margir hafa um alllanga hríð kallað eftir þessari breytingu og hún á sér fordæmi t.d. í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi. Hún byggist á því viðhorfi, að uppeldi barna sé sameiginlegt verkefni foreldra, sem þeir bera jafna ábyrgð á. Þótt samband foreldranna slitni, geti þeir ekki skilið við börnin sín. Ábyrgð þeirra gagnvart þeim sé áfram sú sama og uppeldi þeirra haldi áfram að vera samvinnuverkefni.
Frumvarp dómsmálaráðherra er öðrum þræði byggt á skýrslu svokallaðrar forsjárnefndar, sem Þorsteinn Pálsson, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði árið 1997 til að fjalla um forsjármál og reynsluna af sameiginlegri forsjá barna, sem foreldrar hafa getað valið frá árinu 1992. Nefndin skilaði Sólveigu Pétursdóttur dómsmálaráðherra áfangaskýrslu árið 1999 og Birni Bjarnasyni lokaskýrslu á síðasta ári, en þá hafði m.a. verið gerð félagsfræðileg rannsókn á reynslunni af sameiginlegri forsjá. Í nefndinni sátu Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður, sem var formaður, Oddný Vilhjálmsdóttir skrifstofustjóri, tilnefnd af Kvenréttindafélagi Íslands, og Ólafur Þ. Stephensen, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, sem var tilnefndur af karlanefnd Jafnréttisráðs.

Forsjá og

jafnréttismál

Meðal niðurstaðna nefndarinnar var að sameiginleg forsjá sem meginregla við sambúðarslit samrýmdist bezt 1. málsgrein 18. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, en þar segir að aðildarríkin skuli gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska.

Þannig eru það réttindi og hagsmunir barnsins, sem fyrst og fremst liggja þessari tillögu að lagabreytingu til grundvallar. Hins vegar er í raun ómögulegt að fjalla um málið án þess að hafa til hliðsjónar þróun jafnréttismála á undanförnum áratugum, vegna þess að hún hefur haft áhrif á bæði móður- og föðurhlutverkið og tengsl barna við báða foreldra sína.

Í ýtarlegri umfjöllun Guðrúnar Guðlaugsdóttur blaðamanns um sameiginlega forsjá í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag kom m.a. fram í viðtali við Dögg Pálsdóttur að forsjárdeilur hefðu harðnað og það væri afleiðing af þjóðfélagsbreytingum. Dögg sagði m.a.:

“Á 19. öld höfðu konur lítinn rétt og litla möguleika. Ef til skilnaðar kom fylgdu börnin feðrum. Í upphafi 20. aldar jókst réttur kvenna og þær gátu komist úr slæmum hjónaböndum án þess að missa frá sér börn sín.

Á síðari árum hefur þátttaka feðra í uppeldi barna breyst til muna, m.a. vegna nýrra reglna um feðraorlof.

Mín reynsla er sú að feður séu æ virkari í uppeldi barna og konur geri sívaxandi kröfur til barnsfeðra sinna að því leyti. Þetta hefur aftur leitt til þess að feður telja ekki eins sjálfsagt og áður að börnin fylgi mæðrunum við skilnaðinn, enda eru atvik oft með þeim hætti að börnin eru ekki síður tengd feðrum sínum en mæðrum. Ég legg áherslu á að þarna er ég enn að tala um foreldra sem bæði eru vel hæfir uppalendur.

Oft er niðurstaða sálfræðings í forsjárdeilu sú að það sé í raun enginn munur á hæfni foreldranna og tengslum barnsins við þau.”

Það eru þessar breytingar, sem meðal annars liggja að baki oft ákaflega sársaukafullum forsjárdeilum. Segja má að áratugum saman hafi verið gengið út frá því að börn fylgdu mæðrum sínum við skilnað, byggju hjá þeim en hefðu “umgengni” við föður sinn. Þumalfingursreglan í þeim efnum hefur verið önnur hvor helgi í mánuði eða svo og oft hluti af skólafríum. Jafnframt hefur verið gengið út frá því að faðirinn greiddi meðlag með barninu, sem rynni til framfærslu þess. Þessi skipan endurspeglar gömul kynhlutverk og má sjálfsagt segja að á sínum tíma hafi hún verið í samræmi við hagsmuni margra barna úr því sem komið var. Ef þannig háttaði til í fjölskyldu að umönnun og uppeldi barnanna var fyrst og fremst á herðum móðurinnar, en framfærsla fjölskyldunnar á herðum föðurins, sem vann í því skyni langan vinnudag utan heimilis, má út af fyrir sig færa rök fyrir því að ekki hafi falizt yfirþyrmandi röskun í því fyrir börnin að vera áfram í forsjá móður sinnar og hitta pabba sinn aðra hverja helgi. Með því að mæður eru ekki síður orðnar fyrirvinna heimilisins en feður og feðurnir miklu virkari í barnauppeldi og heimilishaldi verður þessi skipan mála hins vegar óviðunandi, bæði fyrir foreldra og börn. Feður, sem eru virkir þátttakendur í umönnun og uppeldi barna sinna frá upphafi, tengjast þeim auðvitað með öðrum og miklu nánari hætti en feðurnir, sem voru uppteknir við að framfleyta fjölskyldu og skiptu sér lítið af börnunum. Aðskilnaðurinn verður fyrir vikið miklu sársaukafyllri, bæði fyrir föður og barn. Í augum margra nútímafeðra, sem eru vanir nánu samneyti við börnin sín upp á hvern dag, er fáránlegt að eiga allt í einu ekki að hitta þau nema fjóra daga í mánuði og hafa kannski mest lítið að segja um stórar og smáar ákvarðanir í lífi þeirra. Þetta er engu að síður sú staða, sem margir feður hafa verið settir í, þrátt fyrir ríkan vilja til að vera áfram til staðar fyrir börn sín eftir skilnað eða sambúðarslit.

Í samfélagi, þar sem 85% nýrra feðra taka sér a.m.k. þriggja mánaða fæðingarorlof með börnunum sínum, hlýtur þetta fyrirkomulag líka að vera á undanhaldi eins og Dögg Pálsdóttir bendir á. Erlendar rannsóknir á áhrifum fæðingarorlofs feðra sýna m.a. fram á að þeir, sem verja nokkrum mánuðum heima með nýju barni, taka virkari þátt í uppeldi þess upp frá því, axla meiri ábyrgð og tengjast því nánari böndum.

Fæðingarorlof beggja foreldra er mikið hagsmunamál barna, en það er líka hægt að horfa á það í víðara samhengi jafnréttismála. Jöfn skipting á fæðingarorlofi og ábyrgð á barninu í framhaldi af því þýðir að tækifæri kynjanna á vinnumarkaðnum eru jafnari. Eftir því sem feður axla ríkari ábyrgð á börnum og heimili eykst svigrúm mæðra á vinnumarkaðnum.

Horfa má á forsjármálin frá sama sjónarhorni. Hin gamla skipan, að börn væru fyrst og fremst í umsjá móður sinnar eftir skilnað en feðurnir meira og minna lausir undan annarri ábyrgð en framfærsluskyldunni, þýddi auðvitað takmörkun á tækifærum einstæðra mæðra á vinnumarkaðnum, langt umfram það sem fráskildir feður hafa mátt þola. Það að báðir foreldrar axli jafna ábyrgð eftir skilnað eða sambúðarslit er því einn þátturinn í því að bæta ástandið í jafnréttismálum.

Í hjónaböndum eða samböndum, þar sem báðir makar stunda krefjandi vinnu, er oft engin leið önnur en að uppeldi barnanna sé samvinnuverkefni. Það þarf að skipuleggja hvor sækir börnin úr skóla eða á leikskóla, hvor er heima þegar þau eru veik, hvor eldar kvöldmatinn, baðar, svæfir o.s.frv. Það gefur auga leið að hvort foreldrið um sig getur varla haldið áfram sinni krefjandi vinnu, fari svo að til skilnaðar komi, nema uppeldi barnanna haldi áfram að vera samvinnuverkefni – nema auðvitað að fólk vilji fela stofnunum eða vandalausum enn stærri hluta uppeldis og umönnunar barnanna en áður. Það er þess vegna ekki aðeins réttur bæði foreldra og barna að samvistir og samskipti við báða foreldra séu sem mest eftir skilnað, það eru hreinir og klárir hagsmunir beggja.

Jákvæð

reynsla

Í ljósi þess, sem á undan er sagt, kemur sjálfsagt ekki á óvart að æ fleiri hjón eða sambúðarfólk, sem slítur samvistir, velur sameiginlega forsjá barna sinna. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands háttaði þannig til árið 1993, árið eftir að sameiginleg forsjá varð möguleiki samkvæmt barnalögum, að hún var valin í 6,2% tilvika þar sem foreldrar skildu lögskilnaði. Í 7,6% tilfella fékk faðirinn forsjá barnsins, en í 86,1% tilvika móðirin. Sama ár varð sameiginleg forsjá fyrir valinu hjá 16,5% sambúðarfólks, sem átti börn og hætti sambúð. Í 1,8% tilfella fékk faðirinn forsjána, en í 86,1% tilvika var það móðirin. Á árinu 2004, sem er síðasta árið sem upplýsingar eru um á vef Hagstofunnar, lítur myndin allt öðruvísi út. Þá var sameiginleg forsjá valin í 60,7% tilfella er hjón skildu, en í 35% málanna fékk móðirin forsjá og í 3,8% tilvika faðirinn. Hjá sambúðarfólki, sem sleit samvistir, völdu 76,2% sameiginlegu forsjána, 0,7% barnanna voru í forsjá föður, en 23,1% hjá móður. Það má geta þess að bæði árin urðu ellefu til tólf hundruð börn fyrir því að foreldrar þeirra skildu eða hættu sambúð, sem er dapurleg staðreynd.

Ástæðan fyrir því að fólk í óvígðri sambúð velur sameiginlegu forsjána enn fremur en fólk í hjónabandi er væntanlega fyrst og fremst sú að þar er um yngra fólk að ræða, með önnur viðhorf til þessara mála en hjón, sem eldri eru.

Þessar tölur sýna hins vegar að lagabreytingin, sem dómsmálaráðherra leggur nú til, er mjög til samræmis við þjóðfélagsþróunina og almenna viðhorfsbreytingu í þessum málum.

Það kemur ekki heldur á óvart, að reynslan af sameiginlegri forsjá hefur verið jákvæð. Árið 2000 kom út rannsókn þeirra Sigrúnar Júlíusdóttur, dósents við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, og Nönnu K. Sigurðardóttur, félagsráðgjafa og stundakennara við sömu deild, á reynslunni af fyrstu árunum, sem fyrirkomulagið var við lýði hér á landi. Í ljós kom að bæði feður og mæður, sem höfðu sameiginlega forsjá barna sinna, voru til muna jákvæðari í garð fyrirkomulagsins en samanburðarhópur, þar sem annað foreldra fór með forsjána. Hins vegar sýndu niðurstöðurnar mun meiri ánægju og sátt feðra en mæðra með fyrirkomulagið. Í niðurstöðum sínum sögðu Nanna og Sigrún meðal annars: “Sameiginleg forsjá hefur ekki í reynd sýnt að fleiri börn en áður búi hjá föður eða tíðni og lengd samskipta sé með einhverjum afgerandi hætti öðruvísi en þegar forsjá er á einni hendi. Skilnaðurinn heldur áfram að fela í sér röskun í lífi barna og minni samvistir við föður en móður. Sameiginleg forsjá hefur hins vegar í reynd kallað fram viðhorfsbreytingar og breytingar á foreldrasamstarfi almennt. Ein skýrasta vísbendingin er ánægja feðra og jákvæðari sýn þeirra á hlutdeild sína í áframhaldandi uppeldi barnsins. Önnur vísbending er jákvæðara viðhorf hjá mæðrum til samvista feðra og barna. Þetta jákvæða viðhorf skilar sér að öllum líkindum til barnsins í reynd, en stuðningur frá mæðrum er einn af mikilvægustu þáttunum í að byggja upp góð tengsl við heimili föðurins… Þessi viðhorfsbreyting felur í sér að skilnaður verður fyrst og fremst uppsögn á sambúðar- og hjúskaparsáttmálanum en ekki á foreldrahlutverkinu. Sameiginleg forsjá virðist þannig fela í sér formlega viðurkenningu á mikilvægi þess að báðir foreldrar taki þátt í uppeldi barnsins og skýr boð til barnsins og umhverfisins að foreldrarnir ætli sér áfram að vera samherjar í lífi barnsins síns.”

Það athyglisverða við þessa niðurstöðu er að það eru ekki aðeins breytt viðhorf, sem hafa áhrif á að fólk velur nýtt fyrirkomulag á forsjá barna sinna. Fyrirkomulagið sjálft, sem ákveðið hefur verið með löggjöf, hefur áhrif á viðhorf fólks.

Ekki réttur, heldur ábyrgð

Þessi skilningur á málinu kom líka fram með skýrum hætti í fyrstu umræðu um málið á Alþingi, er dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi sínu. Allir þingmenn, sem þar tjáðu sig, sögðust fylgjandi því að sameiginleg forsjá yrði meginreglan, þótt fulltrúar í allsherjarnefnd vildu jafnframt fara vel yfir allar hliðar málsins. Jónína Bjartmarz, þingmaður Framsóknarflokksins, sem situr í allsherjarnefnd og hefur auk þess talsverða reynslu af forsjármálum sem lögmaður, vék þar að þeirri hlið málsins, sem varðar grundvallarviðhorf til ábyrgðar foreldra á börnum sínum. Jónína sagði m.a.: “Þau okkar sem þekkja þessi mál öðruvísi en bara sem þingmenn, hafa komið að þessum málum t.d. sem lögmenn í forsjármálum, hafa flest mjög eindregna skoðun á þessum málum og hún er sú að það tryggi betur velferð barna að forsjáin sé sameiginleg. Það er oftar en ekki þannig að feður, sem eru þeir sem oftast enda uppi sem forsjárlausir, líta einhvern veginn á það að þar með sleppi ábyrgð þeirra á börnum. Þetta er ekki spurningin um hvaða rétt foreldrar hafa til barna heldur hvaða ábyrgð þau bera.”

Jónína Bjartmarz sagði ennfremur: “Með því að taka upp sameiginlega forsjá sem meginreglu er verið að árétta að þó að foreldrar skilji að skiptum þá eru þeir ekki að skilja við börnin sín. Skyldurnar standa eftir sem áður áfram og öll ábyrgðin sem foreldrarnir báru áður sameiginlega.

Mín reynsla er sú að þegar foreldrar fara að deila við skilnað er það oftar en ekki svo að konur fá forsjána og bera sig eftir henni, að þegar konum er svo bent á það hversu mikið betur tryggir velferð barnsins að faðirinn upplifi það áfram sem sína skyldu og ábyrgð að annast barnið og hafa eitthvað með framtíð þess og umhverfi að gera, þá eru þær líka oft fúsar til þessa samstarfs. En það má ekki blanda því saman þegar verið er að tala um að foreldrar deili um sitthvað annað en málefni barnsins. Þeir geta eftir sem áður verið sammála um hvernig þeir vilja ala barn sitt upp og hvaða aðstæður þeir vilja búa því þannig að í þessum málum verður alltaf að leggja áherslu á það að upphaflega er fólk að skilja vegna þess að það getur ekki orðið sammála um allt annað, en að halda því opnu að það geti verið sammála um og starfað saman að velferð barnsins og komið sér saman um það hvernig hagur þess er best tryggður. Ég held að með því að breyta þessu og gera sameiginlega forsjá að meginreglu í barnalögunum þá hafi það líka áhrif á hugarfar foreldra gagnvart börnum sínum og hverjar skyldur þeirra eru. Þannig göngum við út frá því að það sé í undantekningartilvikum sem foreldrar geti ekki átt samskipti og komið sér saman um allt sem lýtur að barninu og velferð þess… Það sem mér finnst í rauninni megingildi þess að hafa þetta sem meginregluna er þessi hugsun og þetta traust á fullorðnu fólki sem þó getur ekki búið saman.”

Allt er þetta hárrétt hjá þingmanninum. Að gera sameiginlega forsjá að meginreglu snýst ekki sízt um að gera fólki þessa ábyrgð ljósa. Slíkt styrkir vonandi stöðu forsjárlausra foreldra, sem mega búa við að foreldri með forsjá hamlar samskiptum þeirra við börn sín. Og það styrkir líka vonandi rétt barna, sem búa við þá nánast óbærilegu stöðu, að annað foreldri þeirra vill ekki skipta sér af þeim. Það skiptir máli að skilaboðin frá Alþingi séu skýr að þessu leyti.

Gagnrýni og misskilningur

Í ljósi alls, sem að framan er sagt, kemur óneitanlega á óvart hversu neikvætt sumt af fagfólkinu, sem Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við í Morgunblaðinu fyrir viku, reyndist í garð áformaðrar lagabreytingar. Sú neikvæðni virðist þó að stórum hluta byggð á einhverjum misskilningi. Sumir af viðmælendum blaðsins ræða þannig um “valdboð”. Dómari við héraðsdóm talar um “réttarfarsslys” og hæstaréttardómari talar um “þvingaða sameiginlega forsjá”. Það er út af fyrir sig umhugsunarefni að dómarar skuli tjá sig með þessum hætti um löggjöf, sem er til meðferðar á Alþingi og þeir munu væntanlega þurfa að dæma eftir innan skamms. Það er ekki sízt umhugsunarefni vegna þess að margir eru þeirrar skoðunar að það sé hjá dómstólunum, sem hvað hægast hefur gengið að breyta hinum gömlu viðhorfum til hlutverks foreldra í lífi barna sinna. Enn koma frá dómstólunum dómar, þar sem því er slegið föstu að þrátt fyrir að foreldrar séu jafnhæfir, eigi börn heima hjá móður sinni.

Hvað sem því líður, þarf ekki að hafa áhyggjur af því að fólk, sem á annað borð vill ekki hafa sameiginlega forsjá barna sinna, telur það ekki börnunum fyrir beztu eða treystir sér ekki til þess að axla þá ábyrgð í sameiningu vegna samskiptaörðugleika, verði þvingað til að búa við þá skipan. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að foreldrar geti við skilnað eða sambúðarslit valið annað fyrirkomulag eða látið á það reyna fyrir dómstólum. Dómsmálaráðherra fór ekki að þeirri tillögu forsjárnefndar að heimila ætti dómstólum að dæma sameiginlega forsjá þar sem það ætti við. Þar verður því ekki um neitt valdboð að ræða. Slíku hefur hins vegar verið beitt sums staðar í nágrannalöndum okkar þar sem löggjafinn hefur talið að dómarar ættu að eiga þann möguleika, þar sem um jafnhæfa foreldra væri að ræða, að skikka þá til að leggja niður deilur sínar og hafa hagsmuni barnsins í fyrirrúmi.

Hvað varðar áhyggjur af því að barn geti þurft að búa við ofbeldi af hálfu annars foreldris síns eftir skilnað, verður ekki séð að það komi því neitt við að sameiginleg forsjá verði gerð að meginreglu. Telji annað foreldrið að slíkt fyrirkomulag stefni barninu í einhverja hættu, getur það strax við skilnað farið fram á að fá eitt forsjána. Slík mál eru auðvitað undantekningarnar – ekki reglan.

Björn Bjarnason svaraði þessum athugasemdum raunar með tæmandi hætti í grein sinni hér í blaðinu síðastliðinn miðvikudag og spurði m.a.: “Hvers vegna ríkir þessi skipan mála annars staðar á Norðurlöndunum en hún yrði réttarfarsslys hér á landi?”

Meginatriðið í þessu máli er raunar það, sem Jónína Bjartmarz vék að í þingræðu sinni: Að samfélagið, og þar með löggjafinn, hlýtur að ganga út frá því að ábyrgt, fullorðið fólk geti komizt að samkomulagi um uppeldi barna sinna þótt það hafi slitið hjónabandi eða sambúð. Og að á báða foreldra sé lögð sú ábyrgð að virða bæði hagsmuni barnsins og hins foreldrisins. Það er skoðun Morgunblaðsins að sú breyting, sem dómsmálaráðherra leggur til, muni verða bæði börnum og foreldrum fyrir beztu. Ef það er hið almenna viðmið í samfélaginu að forsjá barna sé sameiginleg, ætti að draga úr deilum um forsjá og öllum þeim þjáningum, sem slíkum átökum fylgja.

mbl.is, Reykjavíkurbréf, 18. febrúar

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0