Börn sem eiga foreldra sem ekki búa saman dvelja í sífellt auknum mæli á heimilum beggja foreldra. Löggjafinn skilgreinir annað foreldrið sem lögheimilisforeldri og hitt sem umgengnisforeldri. Barn getur aðeins haft skráða búsetu á einum stað og nefnist það lögheimili barns. Heimili umgengnisforeldra er hvergi nefnt í lögum. Það kallar á umræðu um stöðu þeirra.

Markmið þessarar rannsóknar er því að rannsaka stöðu og reynslu foreldra sem ekki deila lögheimili með barni sínu. Leitað er svara við tveimur megin rannsóknarspurningum: 1. Hvaða tillögur hafa verið lagðar fram á Alþingi um breytingar á reglum um stöðu og skyldur foreldra sem ekki deila lögheimili með barni sínu? og 2. Hver er reynsla foreldra sem ekki deila lögheimili með barni sínu og hvernig upplifa þeir reglur sem um slíka stöðu gilda?

Til að svara fyrri spurningunni er unnin stefnugreining á tillögum nefnda sem starfað hafa á vegum stjórnvalda frá síðustu aldamótum og skoðað hver hafa verið afdrif þessara tillagna. Greiningin leiðir í ljós að tillögurnar snúa fyrst og fremst að fyrirbyggjandi ráðgjöf, sameiginlegri forsjá, jafnri ábyrgð foreldra á umönnun og framfærslu barna og að opinber stuðningur nái til beggja heimila.

Til að svara seinni spurningunni voru tekin viðtöl við fimm feður sem eiga það sameiginlegt að eiga börn sem dvelja reglulega hjá þeim en eiga lögheimili hjá móður. Niðurstöður sýna að feðurnir hafa þá reynslu að kerfið gerir ráð fyrir því að lögheimili barna sé hjá móður og faðir greiði meðlag, annað fyrirkomulag sé ekki í boði. Þeir upplifa sterkt að kerfið geri ekki ráð fyrir barni á heimili feðranna og þrátt fyrir að þeir framfæri börn sín á tveimur heimilum séu þeir ekki viðurkenndir framfærendur barna. Dæmi eru um að þröngur fjárhagur feðranna skerði möguleika þeirra til að annast um börn sín eins og þeir myndu kjósa.

Lykilorð: Skilnaður, börn, foreldrar, forsjá, búseta, framfærsla.

Heimir Hilmarsson. (2014). Reynsla feðra sem ekki deila lögheimili með barni. „Þú átt engin börn“ (MA-ritgerð). Háskóli Íslands, Félagsráðgjafardeild. Sótt af http://hdl.handle.net/1946/20095

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0